Félagsmálasáttmáli Evrópu
Félagsmálasáttmáli Evrópu er frá 1961 og var fullgiltur af Íslands hálfu árið 1976. Framkvæmd Félagsmálasáttmála Evrópu hér á landi heyrir undir félags- og vinnumarkaðsráðuneytið. Sáttmálinn er hliðstæða við Mannréttindasáttmála Evrópu á sviði Evrópuráðsins, á sviði efnahagslegra og félagslegra réttinda. Skipta má réttindum samkvæmt sáttmálanum í þrjá flokka, vinnurétt, vernd félagslegra réttinda og vernd sérstakra réttinda sem ekki falla undir vinnuumhverfi.
Þrír viðaukar hafa verið gerðir við Félagsmálasáttmálann. Viðauki frá 1988 felur í sér fjögur ný efnisréttindi. Viðauka frá 1991 var ætlað að styrkja eftirlitskerfi sáttmálans og sama má segja um viðauka frá 1995 sem felur í sér rétt félagasamtaka til að leggja fram kærur um brot á sáttmálanum. Enginn þessara viðauka hefur verið fullgiltur af Íslands hálfu. Árið 1996 var samþykktur endurskoðaður Félagsmálasáttmáli Evrópu. Ísland hefur undirritað endurskoðaða sáttmálann en ekki fullgilt hann.
Eftirlitskerfi Félagsmálasáttmálans byggist á skýrslugjöf ríkja til Evrópuráðsins um framkvæmd sáttmálans. Þrjár nefndir koma að umfjöllum um skýrslurnar, nefnd um félagsleg réttindi (nefnd óháðra sérfræðinga), embættismannanefnd (fulltrúar ríkisstjórna) og ráðherranefnd.
Félagsmálasáttmáli Evrópu
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.