Hoppa yfir valmynd

Stefna og aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs 2017 - 2019

Rannsóknir og nýsköpun eru veigamikill þáttur í hagþróun. Ný þekking og tækni hefur aukið til muna arðsemi og verðmætasköpun við nýtingu náttúruauðlinda á undanförnum áratugum. Þetta hefur skilað íslensku samfélagi miklum ávinningi og er undirstaða þeirrar auðlegðar sem Ísland býr við í dag. Til að tryggja hagvöxt til framtíðar þarf því einnig að horfa til þess hvernig auka megi fjölbreytni í hagkerfinu, einkum með því að byggja á hugviti og þekkingu. Skapa má ný tækifæri með fjárfestingu í hugverka- og þekkingariðnaði og með aukinni rannsóknar- og þróunarstarfsemi.

Samfélagslegar áskoranir

Upplýsingar veitir Ásdís Jónsdóttir, sérfræðingur í forsætisráðuneytinu, [email protected]

Staða í febrúar 2020

Verkefni er lokið af hálfu. Stjórn markáætlunar mun auglýsa markáætlun sem byggir á áherslunum vorið 2020. 

Tengd skjöl og upplýsingar

20.06.2019 Áherslur ráðsins til stjórnar markáætlunar

23.11.2018 Minnisblað um samfélagslegar áskoranir

Verkefnið

Skilgreindar verða, í víðu samráði og með reglubundnu millibili, meiriháttar samfélagslegar áskoranir sem Ísland stendur frammi fyrir og unnið markvisst að því að takast á við þær.

Ábyrgð: Vísinda- og tækniráð

 

Nánari lýsing

Lagt er til að unnið verði að því að skilgreina samfélagslegar áskoranir og að til þess verði nýttar aðferðir sem reynst hafa vel í nágrannaríkjum okkar, t.d. með því að efna til umræðna og samráðs um áherslur. Á grundvelli vinnunnar verði skilgreind 3–5 áherslusvið þar sem eflt verður þverfaglegt samstarf um rannsóknir og nýsköpun, með þátttöku háskóla, rannsóknarstofnana og fyrirtækja. Dæmi um slík áherslusvið frá nágrannaríkjum okkar eru hafið, loftslagsbreytingar, samfélagsþátttaka og lýðræði, umhverfisvænar borgir og ný tækni. Markmiðið er að efla forgangsröðun um fjárfestingu í rannsóknum og nýsköpun, m.a. í gegnum Markáætlun og Innviðasjóð, og samræma betur alþjóðlegt samstarf stjórnvalda um rannsóknir og nýsköpun á evrópskum og norrænum vettvangi. Að auki verður lögð áhersla á að efla stöðu íslenskrar tungu í tölvum og tækni (sjá aðgerð 2). 

Mikilvægur hluti aðgerðarinnar er að virkja almenning og hagsmunaaðila til samráðs um hvaða áskoranir Ísland stendur frammi fyrir á næstu áratugum og hvernig fjárfesta skuli í rannsóknum og nýsköpun til að efla möguleika samfélagsins til að takast á við þær. Kostir slíks samráðs felast í því að efla samfélagslega tengingu rannsóknarog nýsköpunarstarfs og að auka vitund almennings um hlutverk vísinda, tækni og nýsköpunar í samfélaginu. 

Vert er að hafa í huga að skilgreining á áherslum á sviði vísinda og nýsköpunar koma ekki í staðinn fyrir eða velta úr sessi opinni fjármögnun sem fyrst og fremst byggir á jafningjamati (þ.e. án áherslna), eins og þeirri sem fer í gegnum Rannsóknasjóð. Þvert á móti er mikilvægt að slíkar fjármögnunarleiðir vinni saman til að efla rannsóknar- og nýsköpunarumhverfið. Gert er ráð fyrir að samfélagslegar áskoranir verði skilgreindar með reglubundnum hætti á þriggja til fimm ára fresti.

 

Markáætlun um tungu og tækni

Upplýsingar veitir Ása Guðrún Kristjánsdóttir, sérfræðingur hjá Rannís, [email protected]

Staða í febrúar 2020

Verkefni er lokið af hálfu Vísinda- og tækniráðs og mennta- og menningarmálaráðuneytis. Verkefnið er nú í höndum stjórnar markáætlunar sem auglýsti eftir umsóknum um styrki úr markáætlun um tungu og tækni 22. september 2018. Aftur verður auglýst eftir umsóknum í áætlunina samkvæmt áætlun á árinu 2020. 

Tengd skjöl og upplýsingar

19.02.2019 Úthlutun úr markáætlun um tungu og tækni

Um markáætlun um tungu og tækni

Verkefnið

Auglýst verður markáætlun til þriggja ára til að efla stöðu íslenskrar tungu í tölvum og tækni.
Ábyrgð: Vísinda- og tækniráð í samstarfi við mennta- og menningarmálaráðuneyti.

 

Nánari lýsing

Mikilvægt er að hlúa að menningararfleið Íslendinga og möguleikum fólks til þátttöku í samfélagi þar sem tækni skipar stóran sess. Íslenska málsvæðið er lítið og því nauðsynlegt að huga að stöðu íslenskunnar í heimi tækninnar á tímum þegar samskipti við og í gegnum tæki og tölvur verða æ veigameiri þáttur daglegs lífs. Á síðustu árum hefur talmálsstýring tölva með svokölluðum talgervlum og talgreinum aukist og er líklegt að þróun á þessu sviði verði hröð á næstu árum. Það skiptir miklu máli fyrir þróun tungumálsins, málvitund vaxandi kynslóða og til að jafna aðgang fólks að tækni að tryggja að íslenska verði lifandi tungumál í samskiptum með atbeina tækni.

Til þess að tryggja sess íslensks máls og samræma tækni tungumáli okkar þarf að fjárfesta í rannsóknum á máltöku og íslensku, tengslum tæknivæðingar og málsins, máltækni og tengdum viðfangsefnum. Nauðsynlegt er að vinna markvisst að þróun aðferða til að gera möguleg og auðveld samskipti við nýja tækni á íslensku, þ.m.t. að framtíðartækni „skilji“ og „tjái sig“ á íslensku. Í þessu samhengi er mikilvægt að huga að þáttum eins og áhrifum tækni á máltöku og málvitund barna, þróun námsefnis í íslensku og áhrifum tækni á tungumálið. Í aðgerðinni felst að hluti af áherslum Markáætlunar á sviði vísinda og tækni fyrir árin 2018–2021 verði tunga og tækni.

Áætlun um miðlun vísinda

Upplýsingar veitir Ásdís Jónsdóttir, sérfræðingur í forsætisráðuneytinu, [email protected]

Staða í janúar 2020

Verkefninu er lokið. 

Útfærslu verkefnisins var breytt á tímabili aðgerðaáætlunarinnar og var verkefnið var falið í hendur Vísindafélagi Íslands. Forsætisráðuneyti gerði samning við Vísindafélagið þar sem félaginu var falið að auka sýnileika vísinda og efla stöðu þeirra í íslensku samfélagi, stuðla að almennri umræðu um samhengi vísinda við samfélagslegar áskoranir með framtíðina í huga og varpa ljósi á hlutdeild vísinda í íslenskri menningu frá fullveldi. Vísindafélagið hlaut einnig styrk til miðlunar á stefnu Vísinda- og tækniráðs frá mennta- og menningarmálaráðuneyti. 

Samtals hlaut Vísindafélagið 8 m.kr. í styrk til miðlunar frá þessum tveimur ráðuneytum. Hélt félagið sex málþing á árinu 2019 í fyrirlestraröð um aðkomu vísinda að samfélagslegum áskorunum. Á þessum sex þingum var fjallað um ýmsar hliðar þeirra áskorana sem samfélagið stendur frammi fyrir vegna fjórðu iðnbyltingarinnar sem og stöðu og mikilvægi vísinda og vísindarannsókna í því samhengi og samfélaginu öllu.

Tengd skjöl og upplýsingar

Skýrsla Vísindafélags Íslands

Verkefnið

Gerð verður áætlun um miðlun vísinda og tækni frá háskólum og rannsóknarstofnunum til almennings, allra skólastiga og stjórnvalda, og henni hrint í framkvæmd.

Ábyrgð: Vísinda- og tækniráð

 

Nánari lýsing

Mikilvægt er að niðurstöður vísindastarfs og nýsköpunar séu nýttar til hagsbóta fyrir íslenskt samfélag og að sterkt vísindasamfélag sé hluti af framtíðarsýn íslenskra stjórnvalda. Miðlun rannsókna, tækni og nýsköpunar er því meginforsenda stuðnings við að efla þekkingarstarfsemi í háskólum og atvinnulífinu. Efla þarf fjölbreytta miðlun um vísindi og tækni (t.d. í ritum, á vefsíðum, samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum) til að auka skilning á rannsóknum og nýsköpun og mikilvægi þeirra fyrir samfélagið, bæði meðal almennings og stefnumótandi aðila. 

Í aðgerðinni felst að Vísinda- og tækniráð, háskólar, rannsóknarstofnanir, ráðuneyti og fulltrúar vinni saman að gerð áætlunar um hvernig efla megi skilning á rannsóknarog nýsköpunarstarfi og tækniþróun í samfélaginu. Áætluninni fylgi tímasettar og kostnaðarmetnar aðgerðir sem hrint verði í framkvæmd á árunum 2018–2020 með víðtækri aðkomu stjórnvalda, háskóla, rannsóknarstofnana og fyrirtækja.

Gæði, skilvirkni og fjármögnun háskóla

Upplýsingar veitir [email protected]

Staða í desember 2019

Samkvæmt nýjustu tölum OECD er fjármögnun á hvern nemanda í íslenskum háskólum sambærileg því sem gerist að jafnaði hjá ríkjum OECD. Unnið er að því að skipa starfshóp og mun vinna hans tengjast aðgerð 5.

Verkefni

Gæði og skilvirkni háskólastarfs verða aukin, meðal annars með því að efla fjármögnun með það að markmiði að hún nái meðaltali OECD árið 2020 og Norðurlanda árið 2025.
Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneyti.

 

Nánari lýsing

Öflugir háskólar styðja við þekkingarstarfsemi víðs vegar í samfélaginu, mennta og þjálfa fagfólk til starfa, leggja rækt við menningu og lýðræðislega umræðu og stuðla að nýsköpun. Háskólar flytja enn fremur nýja þekkingu, tækni og aðferðir hingað til lands í gegnum erlent samstarf. 

Í aðgerðinni felst að áfram er stefnt að því að ná meðalfjármögnun OECD og síðar Norðurlanda á hvern háskólanema innan tiltekins tíma. Samhliða, og sem hluti af því átaki, mun starfshópur mennta- og menningarmálaráðuneytis og vísindanefndar Vísinda- og tækniráðs skoða háskólakerfið með það að markmiði að leggja fram tillögur til ráðherra um hvernig megi auka gæði háskólastarfs, hagkvæmni og skilvirkni. Tekið verður mið af þróun erlendis og af úttektum sem unnar hafa verið á kerfinu hér á landi undanfarin ár.

Endurskoðun á reiknilíkani háskóla

Upplýsingar veitir [email protected]

Staða í janúar 2020

Grænbók um fjárveitingar til háskóla hefur verið birt í samráðsgátt. Henni er ætlað að vera grundvöllur samráðs um breytingar á reglum nr. 646/1999 um fjárveitingar til háskóla (reiknilíkan háskóla). Samráð mun fara fram á árinu 2020.

Tengd skjöl og upplýsingar

Drög að Grænbók um fjármögnun háskóla hafa verið birt í Samráðsgátt. Umsagnarfrestur rennur út 7. febrúar 2020.

Verkefnið

Reiknilíkan háskóla verður endurskoðað með það fyrir augum að styðja betur við gæði í háskólastarfi.
Ábyrgð: mennta- og menningarmálaráðuneyti.

 

Nánari lýsing

Mikilvægur þáttur í að efla gæði háskólastarfs er að endurskoða reiknilíkan háskóla svo það megi styðja betur við gæði sambærileg þeim sem best gerast í nágrannalöndunum. Greina þarf hvort verðflokkar reiknilíkansins endurspegli raunverulegan kostnað við kennslu miðað við gæðakröfur sem gerðar eru við háskóla í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Í núverandi fyrirkomulagi er hvati til að fjölga nemendum fremur en huga að gæðum. Ljóst er að kostnaður við kennslu er ekki línulega háður fjölda nemenda heldur fer hann eftir stærð námsbrautar, þörf á húsnæði og búnaði, þörf á fjölbreytni í námskeiðum, þörf á mannskap við kennslu, og fleiru. Núverandi 15 16 reiknilíkan skapar hvata fyrir háskólana til að fækka námskeiðum, einfalda þau og stækka, fremur en að auka gæði og fjölbreytni þeirrar menntunar sem nemendum stendur til boða. 

Nýtt reiknilíkan þarf að hvetja til þess að leggja áherslu á gæði náms fremur en hámarka fjölda nemenda með sem minnstum tilkostnaði. Í endurskoðuninni þarf að líta til þess hvernig efla megi starfs- og vettvangsnám, þar með talið fagháskólanám. Í aðgerðinni felst að starfshópur verður settur á laggirnar á árinu 2017. Vegna þess hve verkefnið er viðamikið er gert ráð fyrir að innleiða þurfi breytingarnar í þrepum. Gert er ráð fyrir að breytingar verði að fullu innleiddar á fjárlögum 2022.

Mannafla- og færnispá

Upplýsingar veitir Ásdís Jónsdóttir, sérfræðingur í forsætisráðuneytinu, [email protected]

Staða í desember 2019

Verkefni er lokið

Tengd skjöl og upplýsingar

28.9.2018 Fundargerð 34. fundar Vísinda- og tækniráðs (sjá lið 4)

5. 2018 Skýrsla um færniþörf á vinnumarkaði

Verkefnið

Vísinda- og tækniráð leggur mat á niðurstöður sérfræðingahóps um mannafla- og færnispár á íslenskum vinnumarkaði.
Ábyrgð: Vísinda- og tækniráð

 

Nánari lýsing

Meirihluti Evrópuríkja greinir með reglubundnum hætti færni- og mannaflaþörf á vinnumarkaði. Þótt ómögulegt sé að spá með vissu um framtíðina er ljóst að mat á ólíkum sviðsmyndum gerir samfélaginu kleift að undirbúa og gera ráðstafanir með meiri vissu en ella. Örari tækniþróun og samfélagslegar breytingar gera það að verkum að ríki þurfa að vera betur undirbúin og meðvituð um ólíkar sviðsmyndir til að geta bætt lífskjör, aukið samkeppnishæfni og skapað tækifæri fyrir samfélag. Af þeim sökum er áríðandi að námsmenn, stofnanir, fyrirtæki og samfélagið hafi góðar upplýsingar tiltækar við stefnumótun og ákvörðunartöku, hvort sem er við námsval eða til uppbyggingar í menntakerfinu eða atvinnulífinu. Sérfræðingahópur sem starfar á vegum Velferðarráðuneytisins stefnir vinnur að nú úttekt á þeim færnispám sem gerðar eru í nágrannaríkjum og mun skila niðurstöðum fyrir lok árs 2017. Vísinda- og tækniráð styður vinnuna og mun leggja mat á niðurstöður hópsins.

Úttekt á skattalegu umhverfi rannsókna og nýsköpunar

Upplýsingar veitir Katrín Anna Guðmundsdóttir, sérfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, [email protected]

Staða í desember 2019

Fjármála- og efnahagsráðherra mun kynna lokaskýrslu á fundi Vísinda- og tækniráðs þann 5. desember 2019.

Verkefnið

Gerð verði úttekt á skattalegu umhverfi rannsókna og nýsköpunar á Íslandi, mat lagt á áhrif nýlegra lagabreytinga og unnar tillögur um hvernig megi þróa umhverfið áfram í átt að því sem best þekkist í nágrannalöndunum.
Ábyrgð: Fjármála- og efnahagsráðuneytið

 

Nánari lýsing

Umtalsverðar breytingar voru samþykktar í júní 2016 á ýmsum lögum til að styðja við fjármögnun og rekstur nýsköpunarfyrirtækja og smærri fyrirtækja í vexti sem flestar tóku gildi 1. janúar 2017. Það á því eftir að koma í ljós hvaða árangri þær skila. Í megindráttum var um þríþættar breytingar að ræða. Í fyrsta lagi var tekinn upp sérstakur skattafsláttur fyrir erlenda sérfræðinga, í öðru lagi skattafsláttur vegna fjárfestinga í hlutabréfum lítilla og meðalstórra fyrirtækja og í þriðja lagi voru fjárhæðarmörk í lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar hækkuð verulega Eðlilegt er að meta árangur þessara breytinga þegar nokkur reynsla er fengin af framkvæmd þeirra og leggja fram tillögur til lagfæringa ef ástæða verður til þess. 

Skipaður verður starfshópur á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytis með þátttöku atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis og fulltrúum úr nefndum Vísinda- og tækniráðs. Markmið hópsins er að vinna úttekt á skattalegu umhverfi rannsókna og nýsköpunar hér á landi og meta áhrif þeirra laga sem innihalda ákvæði um sérstakan stuðning við nýsköpunarfyrirtæki. Hópurinn skal einnig kynna sér stöðu málaflokksins í nágrannaríkjum Íslands og ef þurfa þykir leggja fram tillögur að því hvernig efla megi umhverfið hér á landi. Vinna hefst haustið 2018 og niðurstöður verða birtar þegar álagning tekjuskatts lögaðila fyrir rekstrarárið 2017 liggur fyrir.

 

Mat á stuðningskerfi atvinnulífs og stofnanaumhverfi

Upplýsingar veitir Sigríður Valgeirsdóttir, sérfræðingur í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, [email protected]                 

Staða í desember 2019

Nýsköpunarstefna var kynnt í október 2019 og fyrsta aðgerðaáætlun byggð á henni í nóvember. Nánari aðgerðir verða kynntar á næstu mánuðum. Aðgerðir nýsköpunarstefnu miða að því að leggja mat á stuðningskerfið og auka árangur þess.

Tengd skjöl og upplýsingar

10.2019 Nýsköpunarstefna

11.2019 Aðgerðir nýsköpunarstefnu, fyrsti hluti

Verkefnið

Lagt verður mat á stuðningskerfi atvinnulífs og stofnanaumhverfi með það að markmiði að skoða hvernig auka megi árangur og bæta samkeppnishæfni atvinnulífsins svo hún verði í takt við það sem best þekkist í nágrannalöndunum.
Ábyrgð: atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.

Nánari lýsing

Standa þarf vörð um starfsumhverfi fyrir frumkvöðla, sprotafyrirtæki og nýsköpunarstarf á Íslandi og efla samkeppnishæfni þess. Mikilvægt er að stuðningur við frumkvöðla og sprotafyrirtæki verði markviss og árangursríkur. Boðið er upp á slíka þjónustu hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Rannís, atvinnuþróunarfélögum og Íslandsstofu. Leggja þarf áherslu á markvissari samvinnu þeirra stofnana og sjóða sem sinna stuðningi við frumkvöðla og nýsköpun. Samræma þarf þessa starfsemi og huga að aukinni skilvirkni. 

Einfalda þarf starfsumhverfi fyrir frumkvöðla og fyrirtæki sem stunda nýsköpun, bæta þarf aðgengi framúrskarandi nýsköpunarfyrirtækja að erlendum mörkuðum og styðja þau við alþjóðlega sókn. Bæta þarf íslenskt stoðkerfi frumkvöðla og nýsköpunar á grundvelli samanburðar við starfsumhverfi á Norðurlöndunum. 

Í aðgerðinni felst að stofnaður verður starfshópur á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, með þátttöku mennta- og menningarmálaráðuneytis, innanríkisráðuneytis og Vísinda- og tækniráðs, sem leiði úttekt á stuðningsumhverfi frumkvöðla og sprotafyrirtækja og leggi fram tillögur að umbótum.

 

Vegvísir um rannsóknarinnviði

Upplýsingar veitir Ásdís Jónsdóttir, sérfræðingur hjá forsætisráðuneytinu, [email protected]

Staða í febrúar 2020

Mennta- og menningarmálaráðuneyti hefur lokið undirbúningi vegvísis. Í honum fólst: gerð skýrslu um feril vegvísis, kortlagning á rannsóknarinnviðum á Íslandi, breyting á lögum um opinberan stuðning við vísindarannsóknir nr. 3/2003 (sérstök stjórn Innviðasjóðs) og lög um samtök um evrópska rannsóknarinnviði (ERIC) nr. 66/2019. 

Stjórn Innviðasjóðs vinnur að gerð vegvísi. Auglýst verður eftir verkefnum á vegvísi um mitt ár 2020. 

Tengd skjöl og upplýsingar

13. janúar 2020 Auglýsing stjórnar Innviðasjóðs um feril vegvísis.

Júlí 2019 Skýrsla starfshóps Vísinda- og tækniráðs um gerð vegvísis um rannsóknarinnviði

24. júní 2019 Lög um samtök um evrópska rannsóknarinnviði (ERIC)

25. maí 2019 Lög um opinberan stuðning við vísindarannsóknir nr. 3/2003 (ný stjórn Innviðasjóðs)

Apríl 2016 Uppbygging rannsóknarinnviða á Íslandi til framtíðar

Verkefnið

Unninn verður vegvísir um rannsóknarinnviði og alþjóðleg þátttaka í innviðum efld.
Ábyrgð: stjórn Innviðasjóðs (áður mennta- og menningarmálaráðuneytið).

Nánari lýsing

Í apríl 2017 gaf mennta- og menningarmálaráðuneytið út skýrsluna Uppbygging rannsóknarinnviða á Íslandi til framtíðar og er skýrslan afrakstur starfshóps á vegum Vísinda- og tækniráðs. Í henni er meðal annars gerð tillaga um að unnin verði stefna um rannsóknarinnviði og gerður vegvísir á grundvelli hennar. Ísland er eitt fárra landa Evrópu sem ekki hefur enn unnið slíkan vegvísi. Vegvísi má lýsa sem stefnumótandi áætlun um uppbyggingu rannsóknarinnviða sem unninn er í nánu samstarfi stjórnvalda og vísindasamfélagsins í því skyni að efla stefnumótun og bæta ákvarðanatöku um slíka innviði. Vegvísir um yrði því til þess að efla að markvissa ákvarðanatöku byggða á góðum upplýsingum, til að efla samstarf um innviði og nýta fé með skilvirkum hætti. Í aðgerðinni felst að mennta- og menningarmálaráðuneyti myndi starfshóp sem vinnur að undirbúningi á gerð vegvísis um rannsóknarinnviði hér á landi. Í skýrslunni sem vísað er til hér að ofan, má finna tillögur að ferli vegvísis. Þar er gert ráð fyrir að staða rannsóknarinnviða í landi verði kortlögð og að auglýst verði eftir tillögum að rannsóknarinnviðum frá vísindasamfélaginu. Að því loknu leggi stjórn Innviðasjóðs fram tillögu að forgangsröðun sem byggði bæði á almennum, fyrirframgefnum viðmiðum og stefnu stjórnvalda. Enn fremur er bent á að huga verði að því hvernig má auka þátttöku Íslands í alþjóðlegum rannsóknarinnviðum.

Stefna um opin vísindi

Upplýsingar veitir    [email protected]

Staða í desember 2019

Verkefnið er í vinnslu.

Verkefnið

Unnin verður stefna um opinn aðgang að gögnum.

Ábyrgð: mennta- og menningarmálaráðuneytið.

 

Nánari lýsing

Á síðustu árum hefur gagnamagn sem verður til við rannsóknir aukist til muna. Á mörgum sviðum hefur markviss nýting gagna og tenging gagnasafna orðið mikilvæg uppspretta nýrrar þekkingar og nýsköpunar. Dæmi um þetta eru loftslagsfræði þar sem þekking á breytingum á náttúrunni byggir fyrst og fremst á gögnum sem verða til við reglubundnar mælingar yfir mjög langan tíma. Aukinn skilningur er á verðmæti 21 22 gagnasafna og tímaraða, bæði til að auka þekkingu og gæði þekkingar á náttúru, heilsu og samfélagi og einnig til að búa til nýjar vörur og þjónustu. 

Til að bregðast við þessari þróun hafa stjórnvöld í nágrannaríkjum Íslands í auknum mæli beint sjónum sínum að því hvernig megi tryggja að gögn sem safnað er fyrir opinbert fé nýtist samfélaginu til fulls. Því sjónarmiði að gagnasöfn séu almannagæði hefur vaxið fiskur um hrygg og í kjölfarið einnig ákalli eftir því að stjórnvöld tryggi opinn aðgang að þeim eftir því kostur er. Nýlega kom út á vegum NordForsk skýrsla þar sem fjallað er um stöðu opins aðgangs að gögnum á öllum Norðurlöndunum.6 Í skýrslunni er bent á Norðurlöndin séu mislangt á veg komin í umræðu um opinn aðgang og innleiðingu á stefnu um hann. Líta má til Finnlands þar sem góður árangur hefur náðst á stuttum tíma. Í aðgerðinni felst að mennta- og menningarmálaráðuneyti móti starfshóp sem leggi fram tillögu að stefnu um opinn aðgang að rannsóknargögnum hér á landi.

 

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta