Hoppa yfir valmynd
27. nóvember 2024 Heilbrigðisráðuneytið

Skyndimóttaka á höfuðborgarsvæðinu – tillögur starfshóps

Starfshópur sem heilbrigðisráðherra fól að kanna möguleika þess að setja á fót skyndimóttöku á höfuðborgarsvæðinu hefur skilað skýrslu með tillögum sínum. Markmið slíkrar móttöku væri að létta álagi af bráðamóttöku Landspítala og bæta þjónustu við sjúklinga.

Starfshópurinn leggur áherslu á að sjúklingahópurinn sem til greina kæmi að þjónusta á skyndimóttöku séu einstaklingar sem þurfa samdægursþjónustu að halda sem gæti krafist myndgreininga, blóðrannsókna, lyfja- eða vökvagjöf í æð en eru ekki taldir þurfa sérhæfða þjónustu sem kallar á innlögn eða eftirlit yfir nótt. Þá þyrfti að forðast skörun við þjónustu sem þegar er veitt annars staðar, svo sem á heilsugæslustöðvum eða Læknavakt.

Í skýrslu starfshópsins eru dregnir fram þættir sem mæla með opnun skyndimóttöku, þættir sem benda til þess að slíkt sé ekki fýsilegt og ýmsir óvissuþættir tengdir verkefninu. Í því sambandi var m.a. leitað eftir mati Landspítala og einnig hjá heilsugæslustöðvunum á höfuðborgarsvæðinu og Læknavaktinni. Af hálfu Landspítala kemur fram að núverandi álag á bráðamóttökunni sé einkum tilkomið vegna sjúklinga sem bíða þar eftir að geta lagst inn á deildir spítalans. Opnun skyndimóttöku myndi ekki leysa þann vanda. Fulltrúar Læknavaktar og heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu telja hættu á því að opnun sjálfstæðrar skyndimóttöku myndi auka flækjustig þjónustunnar og ef til kæmi þyrfti áður að tryggja heildstæða vegvísun fyrir sjúklinga.

Samkvæmt niðurstöðu starfshópsins hefur opnun skyndimóttöku bæði kosti og galla, líkt og nánar er fjallað um í skýrslunni. Hópurinn telur að verði ákvörðun tekin um að opna slíka móttöku verði það gert sem tilraunaverkefni til eins eða tveggja ára. Á þeim tíma verði afla gagna og upplýsinga um reynslu af þjónustu skyndimóttöku og unnið að frekari þróun verkefnisins í samvinnu við þjónustuveitendur bráða- og samdægursþjónustu á höfuðborgarsvæðinu.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta