Ráðherrar gefi strax upp fjárhagslega hagsmuni sína - fyrsta íslenska aðgerðaáætlunin gegn mansali samþykkt í ríkisstjórn
Ríkisstjórn Íslands samþykkti á fundi sínum í dag að tillögur sem lagðar voru fyrir Alþingi 16. mars um reglur um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum alþingismanna og trúnaðarstörfum utan þings eigi þegar í stað að gilda um ráðherra í ríkisstjórn. Forsætisráðherra hefur jafnframt falið, til samræmis við verkefnisskrá ríkisstjórnarinnar, þar sem kveðið á um að starfað verði samkvæmt nýjum siðareglum í Stjórnarráðinu, starfshópi sem skipaður verður fulltrúum forsætisráðuneytisins, fjármálaráðuneytisins og einum utanaðkomandi sérfræðingi að semja drög að siðareglum fyrir embættismenn og aðra starfsmenn innan stjórnsýslu ríkisins. Starfshópurinn skal skila tillögum fyrir 15. september.
Ríkisstjórnin samþykkti jafnframt á fundi sínum í dag aðgerðaáætlun félags- og tryggingamálaráðherra gegn mansali en þetta er í fyrsta skipti sem slík áætlun er samþykkt á Íslandi. Áætluninni er ætlað að vinna gegn mansali með margvíslegum hætti. Nánari kynning áætlunarinnar er á vegum félagsmálaráðuneytisins.
Fjármálaráðherra gerði á fundinum grein fyrir stöðu ríkisfjármála og þjóðhagsstærðum í ítarlegu yfirliti.
Ríkisstjórn samþykkti jafnframt að tillögu utanríkisráðherra samning milli Íslands og Bandaríkjanna um samstarf á sviði viðskipta og fjárfestinga og fullgilding samnings milli Íslands og Rússlands um að greiða fyrir útgáfu vegabréfsáritana fyrir ríkisborgara Íslands og Rússlands og samnings milli Íslands og Rússlands um endurviðtöku. Að auki lagði utanríkisráðherra fram á ríkisstjórnarfundi frumvarp til laga. um stofnun “Íslandsstofu” og breytingu á viðaukum og bókunum við EES-samninginn – Heimild ríkisstjórnar til að samþykkja ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 21-40/2009.
Ríkisstjórn fjallaði einnig um þrjú mál umhverfisráðherra á fundi sínum í morgun. Frumvarp til laga um mannvirki, skipulagslaga og breytingu á lögum um brunavarnir. Frumvarp til laga. um breytingu. á lögum um erfðabreyttar lífverur og frumvarp til laga um breytingu á lögum um eiturefni og hættuleg efni.
Uppfærð verkefnaskrá ríkisstjórnar
Reykjavík 17. mars 2009