Ríkisstjórn fjallar um breytingar á ráðherraábyrgð og dagdeildargjöld afnumin
Ríkisstjórn Íslands fjallaði um breytingu á ráðherraábyrgð á fundi sínum 20. mars en það mál er á verkefnaskrá hennar. Forsætisráðherra lagði fram minnisblað um málið en það er einnig á dagskrá vinnuhóps á vegum forsætisnefndar Alþingis. Sá hópur á að skila niðurstöðu í júní. Ríkisstjórn samþykkti að bíða þeirrar umfjöllunar en jafnframt að forsætisnefnd verði ritað bréf, þar sem áherslur ríkisstjórnar verði undirstrikaðar og óskað eftir því að vinnuhópurinn setji fram skýrar tillögur um breytingar á lögum um ráðherraábyrgð.
Heilbrigðisráðherra greindi frá því í ríkisstjórn í morgun að hann afnæmi svokölluð dagdeildargjöld sem lögð voru á 1. janúar 2009. Með afnámi dagdeildargjaldsins, sem innheimt var þá í fyrsta sinn af sjúklingum sem sóttu sér heilbrigðisþjónustu á dagdeildum sjúkrahúsa, vildi ráðherra koma til móts við óskir Félags nýrnasjúkra og afnema íþyngjandi gjöld á geðsjúka, sem höfðu áður ekki greitt vegna tíðra koma á dagdeildir.
Á ríkisstjórnarfundi lagði iðnaðarráðherra fram minnisblað um bætta samkeppnisstöðu nýsköpunarfyrirtækja. Ríkisstjórnin féllst á tillögu ráðherrans um að skipaður verði starfshópur til að gera tillögur sem eru til þess fallnar að bæta samkeppnisskilyrði nýsköpunarfyrirtækja. Nefndin á að skoða hvaða leiðir aðrar þjóðir hafa farið og skilað hafa bestum árangri og leggja fram fullmótaðar tillögur um æskilegar lagabreytingar, eigi síðar en í lok maí.
Umhverfisráðherra gerði grein fyrir stöðu samningaviðræðna um loftslagsmál á fundi ríkisstjórnar og menntamálaráðherra kynnti skýrslu sína til Alþingis um framkvæmd skólahalds í grunnskólum skólaárin 2004 – 2007.
Sjá einnig:
- Fréttatilkynningar ráðuneyta, upplýsingar fyrir blaðamenn og upptökur af blaðamannafundum ríkisstjórnarinnar
- Dagskrá ríkisstjórnafunda
Reykjavík 20. mars 2009