Hoppa yfir valmynd
28. apríl 2009 Utanríkisráðuneytið

Áfangasigur í baráttunni gegn kynþáttamisrétti

Durban endurskoðunarráðstefnunni um afnám alls kynþáttamisréttis lauk á föstudag er lokaskjal ráðstefnunnar var samþykkt samhljóða. Lýstu fundarmenn því sem áfangasigri í baráttunni gegn kynþáttamisrétti. Ráðstefnuna sóttu fulltrúar flestra aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna og yfir 300 frjáls félagasamtök.

Lokaskjal endurskoðunarráðstefnunnar er niðurstaða langra og erfiðara samningaviðræðna á meðal aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna. Í stuttu máli fjallar lokaskjalið um endurskoðun og mat á framkvæmd Durban yfirlýsingarinnar og framkvæmdaáætlun sem samþykkt var á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um afnám alls kynþáttamisréttis sem haldin var í Durban í Suður-Afríku árið 2001. Fjallað er um mat á eftirfylgni Durban yfirlýsingarinnar og framkvæmdaáætlunarinnar og hvernig hægt sé að bæta framkvæmdina. Kveðið er á um mikilvægi allsherjaraðildar að samningi Sameinuðu þjóðanna um afnám alls kynþáttamisréttis. Fjallað er um hvernig ríki geta samhæft krafta sína í baráttunni gegn kynþáttamisrétti og að nauðsynlegt sé að setja fram raunhæfar aðgerðir til að berjast gegn öllum birtingarmyndum þess. Fyrir hönd Íslands sátu endurskoðunarráðstefnuna Kristinn F. Árnason sendiherra og fastafulltrúi Íslands í Genf, Ingibjörg Davíðsdóttir sendiráðunautur í utanríkisráðuneytinu og Eva Bjarnadóttir starfsnemi fastanefndar Íslands í Genf.

Meðfylgjandi er lokaskjal ráðstefnunnar og ræða Íslands.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta