Nr. 27/2010 - Nýjar tillögur um verndun grunnslóðar í sjö fjörðum
Þann 15. janúar 2010 boðaði Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, með fréttatilkynningu, að í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar yrðu kannaðar veiðar afkastamikilla skipa á grunnslóð og þær takmarkaðar frekar en nú er. Þannig mætti treysta grunnslóðir sem veiðisvæði smærri báta með umverfisvænni veiði samhliða verndun sjávarbotnsins og lífríkisins alls á þessum hafsvæðum.
Í alþjóðlegu samhengi liggur fyrir sú þróun að ríki leggja í sívaxandi mæli áherslu á vistvæna stjórnun hafsvæðanna, takmarkanir á notkun botnlægra veiðarfæra, verndun grunnslóðar og viðkvæmra hafssvæða. Nægir hér að nefna Bandaríkin, Kanada og ýmis ríki í Evrópu. Augljóst er einnig að aðhald á þessu sviði geti mögulega glætt veiði annars staðar vegna þeirra verndaráhrifa sem hér eru á ferðinni.
Í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti liggja fyrir margvíslegar ályktanir heimamanna og sveitarstjórna og fjöldi undirskriftalista um verndun grunnslóðar.
Að undanförnu hefur verið unnið að tillögum, sem miða að því að friða innri hluta flóa og fjarða fyrir veiðum með dragnót. Þær tillögur sem nú eru settar fram eru áfangi á þeirri leið að leggja mat á hvar heppilegast er að draga línur um takmörkun veiða með dragnót, með það að markmiði að auka friðun grunnslóðar fyrir dregnum veiðarfærum og jafnframt mæta kröfum heimaaðila um verndun lífríkisins og skipulag hafsvæða. Hér er átt við það sjónarmið að veiðar með ólíkum veiðarfærum sem ekki fara saman, verði haldið aðskildum með skipulögðum hætti.
Tillögunar nú snúa að verndun grunnslóðar í Önundarfirði, Hrútafirði/Miðfirði, Húnafirði, Skagafirði og Seyðisfirði/Loðmundarfirði og byggja á 8. gr. laga nr. 79/1997 um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, með síðari breytingum.
Dragnótin var í öndverðu ætluð til þess að veiða aðallega flatfisk, einkum skarkola, en hefur á seinni árum verið þróuð til þess að vera alhliða veiðarfæri á bolfisk. Þær tillögur sem nú eru til umræðu, taka mið af því, að veiðum með dragnót verði haldið áfram á vissum svæðum en með breytingunum náist að fara bil beggja, þeirra sem vilja stöðva veiðar alfarið næst landi með dregnum veiðarfærum og þeirra sem vilja veiðar alls staðar í flóum og fjörðum með dragnót, allt til fjöru.
Með tillögunum fylgir samantekt um veiðar í dragnót á hverju svæði fyrir sig, sem og kort, unnið á Hafrannsóknastofnuninni, um veiðar innan þeirrar línu sem gerð er tillaga um að lokað verði fyrir dragnót, einnig töflur um veiði eftir árum á sömu svæðum eftir skráningarreitum og undirreitum.
Óskað er eftir skriflegum athugasemdum frá samtökum og hagsmunaaðilum á viðkomandi svæðum við tillögunum.
Tillögur þessar eru jafnframt settar á vefsvæði ráðuneytisins og er öllum öðrum gefinn kostur á því að koma á framfæri athugasemdum. Allar tillögur eða athugasemdir skulu berast skriflega til ráðuneytisins fyrir 20. maí 2010.
Hér má nálgast tillögur um verndun grunnslóða