Dagskrá í tengslum við Dag umhverfisins
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið efnir til dagskrár í tengslum við Dag umhverfisins á síðasta vetrardag, miðvikudaginn 22. apríl. Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra afhendir þá viðurkenningar fyrir störf á sviði umhverfismála á sérstakri hátíðarsamkomu auk þess sem kynntar verða niðurstöður starfshóps sem mótað hefur tillögur um hvernig draga megi úr sóun matvæla.
Dagur umhverfisins, 25. apríl er fæðingardagur náttúrufræðingsins og læknisins Sveins Pálssonar. Í tilefni dagsins efnir Sigrún Magnúsdóttir til hátíðarsamkomu á Nauthól á síðasta vetrardegi og hefst hún kl. 14. Þar verður Kuðungurinn veittur fyrirtæki sem hefur skarað fram úr í umhverfismálum og viðurkenningin Varðliðar umhverfisins grunnskólabörnum fyrir verkefni á sviði umhverfismála.
Á Degi umhverfisins á síðasta ári efndi umhverfis- og auðlindaráðherra til málþings um matarsóun undir yfirskriftinni „Hættum að henda mat“. Ráðherra fylgdi málþinginu eftir með því að skipa starfshóp sem móta skyldi tillögur um hvernig draga mætti úr sóun matvæla. Var hópnum ætlað að benda á hvetjandi leiðir til að nýta hráefni betur við vinnslu matvara sem og fullunnar matvörur eftir að þær eru komnar til neytenda, veitingastaða, framleiðenda og söluaðila.
Starfshópurinn hefur nú lokið störfum og verða niðurstöður hans kynntar á athöfninni. Í hópnum sátu fulltrúar Umhverfisstofnunar, Matvælastofnunar, Samtaka iðnaðarins, Samtaka verslunar og þjónustu, Samtaka ferðaþjónustunnar, Bændasamtaka Íslands, Kvenfélagssambands Íslands, Vakandi - samtaka gegn sóun matvæla og Landverndar en hópurinn starfaði undir forystu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.