Skýrsla um heildstæða löggjöf og stjórnsýslu varðandi jarðir, land og aðrar fasteignir lögð fram
Stýrihópur um heildstæða löggjöf og stjórnsýslu varðandi jarðir, land og aðrar fasteignir sem forsætisráðherra skipaði í júní 2020 hefur skilað lokaskýrslu sinni og lagði ráðherra hana fram á fundi ríkisstjórnar í morgun. Markmið með starfi hópsins var að stuðla að því að nýting lands og réttinda sem því tengjast sé hagað í samræmi við landkosti og með hagsmuni samfélagsins og komandi kynslóða að leiðarljósi, að teknu tillit til efnahagslegra, félagslegra og menningarlegra sjónarmiða.
Stýrihópurinn var skipaður í framhaldi af vinnu sem forsætisráðherra setti af stað haustið 2019 við vinnslu frumvarps um breytingar á ýmsum lögum er varða eignarráð og nýtingu fasteigna sem samþykkt var á Alþingi sumarið 2020 og varð að lögum nr. 85/2020.
Verkefni stýrihópsins var í meginatriðum tvíþætt:
- Fylgja eftir innleiðingu framangreindra laga nr. 85/2020, einkum er varðar skráningu lands í landeignaskrá Þjóðskrár Íslands, beiðnir til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um samþykki vegna kaupa á landi í ákveðnum tilvikum og upplýsingagjöf til Skattsins um endanlegt eignarhald tiltekinna lögaðila sem eiga land.
- Vinna frekari stefnumótun og setja fram tillögur um aðgerðir í þeim tilgangi að styrkja enn frekar heildstæða löggjöf og stjórnsýslu varðandi jarðir, land og aðrar fasteignir. Voru þar sett í forgang atriði er varða forkaupsrétt ríkissjóðs að landi á grundvelli sjónarmiða um vernd náttúru og menningarminja, ákvæði um sameign margra eigenda á landi, löggjöf um merki lands og skráningu þeirra með tilliti til nútímakrafna og loks frekari endurskoðun á lögum um eignarétt og afnotarétt fasteigna nr. 19/1966. Tillögur stýrihópsins er varða þessi atriði voru afhent forsætisráðherra í formi lagafrumvarps sem afgreitt var úr ríkisstjórn þann 23. apríl síðastliðinn og nánar er fjallað um í skýrslunni og birt í viðauka hennar.
Hópurinn setur fram greiningar og yfirlit yfir stöðu þeirra atriða sem ekki er fjallað um í frumvarpinu en honum var falið að fjalla um skv. skipunarbréfi. Markmiðið er að styrkja forsendur fyrir nánari umræðu, stefnumótun eða ákvarðanatöku og má þar nefna rýni á fjárfestingum í innviðum, landnýtingu og vægi landbúnaðar, viðhald byggðar og ræktanlegs lands og skilyrði um búsetu eða nýtingu. Þar er m.a. leitað svara við spurningum um gagnsæi, samræmi í löggjöf og stjórnsýslu, settar fram hugmyndir um næstu skref og vakin athygli á álitamálum er þessa þætti varða.
Ljóst er að löggjöf og stjórnsýsla varðandi jarðir, land og aðrar fasteignir er viðvarandi verkefni margra opinberra aðila, ráðuneyta, stofnanna og sveitarfélaga og brýn þörf á þverlægu samstarfi um þessi mál. Skýrsla stýrihópsins er mikilvægt framlag í því efni.
Í hópnum sátu fulltrúar frá forsætisráðuneyti, umhverfis- og auðlindaráðuneyti, dómsmálaráðuneyti, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, utanríkisráðuneyti, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, Skattinum, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Þjóðskrá, Skipulagsstofnun, Byggðastofnun auk tveggja sérfræðinga á sviði lögfræði.
Skýrsla stýrihóps um heildstæða löggjöf og stjórnsýslu varðandi jarðir, land og aðrar fasteignir