Hoppa yfir valmynd
16. ágúst 2024 Dómsmálaráðuneytið

Skýrsla um spilahegðun og spilavanda fullorðinna Íslendinga á árinu 2023

Út er komin skýrsla um rannsókn á spilahegðun og spilavanda Íslendinga á árinu 2023. Rannsóknin er unnin fyrir fastanefnd um happdrættismál og fjármögnuðu happdrættisfélögin rannsóknina. Höfundur skýrslunnar er Daníel Þór Ólason.

Niðurstöður sýna meðal annars að rúmlega 69% þátttakenda spiluðu peningaspil a.m.k. einu sinni á síðustu 12 mánuðum fyrir könnun. Vinsælustu peningaspilin voru Lottó, flokkahappdrætti, skafmiðar og bingó. Ólíkt fyrri könnunum var enginn munur á heildarspilun karla og kvenna eða á þátttöku þeirra í peningaspilum á innlendum vefsíðum. Konur voru líklegri en karlar til að eiga miða í flokkahappdrætti en karlar voru hins vegar mun líklegri til að leggja fé undir í spilakössum, póker, íþróttaveðmálum og í peningaspilum á erlendum vefsíðum.

Rannsókn á viðhorfi Íslendinga til peningaspila bendir til þess að þjóðin sé aðeins neikvæðari í garð þeirra árið 2023 en 2011 en telji eftir sem áður ekki rétt að banna þau alfarið á Íslandi. 

Um 4% karla eiga við spilavanda að stríða samkvæmt rannsókninni en einungis um 0,5% kvenna. Þá  reyndist algengi hugsanlegrar spilafíknar vera 0,7%.

Frá árinu 2007 hefur Dr. Daníel Þór Ólason unnið fjórar faraldsfræðilegar rannsóknir á þátttöku í peningaspilum og á algengi spilavanda á meðal fullorðinna Íslendinga. Hafa rannsóknirnar verið unnar fyrir fastanefnd dómsmálaráðuneytisins á sviði happdrættismála en mikilvægt er að fylgjast reglulega með hugsanlegum breytingum á aðgengi að peningaspilum, mögulegum breytingum í tíðni spilunar peningaspila og algengi spilavanda hér á landi.

 

Spilahegðun og spilavandi fullorðinna Íslendinga á árinu 2023 – skýrslan á pdf-formi. 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta