Hoppa yfir valmynd
1. október 2024 Innviðaráðuneytið

Fimmtán aðgerðir til að efla almenningssamgöngur milli höfuðborgarsvæðis og Keflavíkurflugvallar

Starfshópur um almenningssamgöngur milli höfuðborgarsvæðisins og Keflavíkurflugvallar kynnti í dag skýrslu með tillögum að fimmtán aðgerðum til að efla almenningssamgöngur á þessari leið fyrir árið 2030 á grunni framtíðarsýnar um almenningssamgöngur til ársins 2040. Meðal aðgerða er að bæta þjónustu núverandi strætóleiða, efla aðgengi ólíkra hópa að almenningssamgöngum, undirbúa framtíðaraðstöðu fyrir almenningssamgöngur á Keflavíkurflugvelli og undirbúa orkuskipti.

Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra: „Það er afar þýðingarmikið að efla almenningssamgöngur um allt land til að mæta þörfum íbúa, fyrirtækja og ferðafólks. Á milli höfuðborgarsvæðisins og Keflavíkurflugvallar verður að tryggja öflugar og grænar almenningssamgöngur og tengja stærsta alþjóðaflugvöll landsins við samfélagið. Við þurfum að hrinda í framkvæmd aðgerðum sem geta bætt þjónustu á þessari leið þegar í stað, samhliða því að undirbúa og fjármagna aðgerðir sem felast í að efla innviði almenningssamgangna. Nauðsynlegt er að auka sýnileika almenningssamgangna við flugstöðina, huga að undirbúningi að framtíðaraðstöðu fyrir almenningssamgöngur við Keflavíkurflugvöll og tengja vel við stoppistöðvar almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu.“

Svandís segir fyrsta skrefið að fylgja tillögu hópsins að stofna nýjan samráðsvettvang hagsmunaaðila til að vinna að eflingu almenningssamganga á þessari leið. „Við ætlum þó að ganga skrefinu lengra og fela slíkum samráðsvettvangi að vinna að eflingu almenningssamgangna um allt land,“ segir hún.

Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra á kynningarfundinum.

Tillaga að framtíðarsýn

Starfshópurinn telur mikilvægt að styðja við almenningssamgöngur til að draga úr kolefnisspori þeirra og samgangna almennt til framtíðar og mæta auknum fjölda ferðamanna án þess að hafa neikvæð áhrif á samgöngur og umhverfi. Hópurinn leggur til eftirfarandi framtíðarsýn og leiðarljós fyrir almenningssamgöngur milli höfuðborgarsvæðisins og Keflavíkurflugvallar: „Starfræktar verði öflugar og grænar almenningssamgöngur milli höfuðborgarsvæðis og Keflavíkurflugvallar með það að leiðarljósi að:“

  • Vagnar gangi fyrir grænni orku.
  • Innviðir við Keflavíkurflugvöll og á höfuðborgarsvæðinu styðji grænar almenningssamgöngur.
  • Ferðir verði tíðar, greiðfærar og áreiðanlegar – án tafa og krókaleiða.
  • Auðvelt verði að ferðast með farangur, vagna, hjólastóla og reiðhjól.
  • Almenningssamgöngur verði öruggur kostur og aðgengi tryggt fyrir alla.
  • Greiðslukerfi sé notendavænt.
  • Aðstaða fyrir farþega verði til fyrirmyndar.
  • Góðar tengingar við aðrar almenningssamgöngur.

Fimmtán aðgerðir í takt við markmið

Starfshópur um almenningssamgöngur milli höfuðborgarsvæðisins og Keflavíkurflugvallar leggur til sex markmið og fimmtán aðgerðir sem ljúka á fyrir árið 2030. Aðgerðunum er ætlað að efla og styrkja almenningssamgöngur til og frá Keflavíkurflugvelli til framtíðar:

Markmið 1: Efla almenningssamgöngur svo að þær þjóni betur íbúum, starfsfólki og ferðamönnum

  • Bæta þjónustu landsbyggðarstrætóleiðar 55 svo að hún þjóni notendum betur.
  • Endurskoða reglulega upplýsingagjöf um almenningssamgöngur.
  • Samþætta greiðsluleiðir milli landsbyggðar- og þéttbýlisstrætó.
  • Tryggja greiðar skiptingar úr einum vagni í annan, óháð rekstraraðila.
  • Tryggja fólki með hreyfihömlun/fötlun aðgengi að almenningssamgöngum til og frá Keflavíkurflugvelli. 

Markmið 2: Afla betri gagna um ferðavenjur starfsfólks og flugfarþega

  • Framkvæma árlegar ferðavenjukannanir meðal starfsfólks og flugfarþega á Keflavíkurflugvelli.
  • Gerð verði reglulega samantekt á farþegafjölda strætó, áætlunarrúta og annarra hópbifreiða.

Markmið 3: Fyrirmyndar aðstaða fyrir farþega

  • Bæta aðgengi almenningssamgangna á Keflavíkurflugvelli og öðrum lykil stoppistöðvum.
  • Undirbúningur að framtíðaraðstöðu fyrir almenningssamgöngur við Keflavíkurflugvöll og á höfuðborgarsvæðinu haldi áfram.

Markmið 4: Almenningssamgöngur séu samkeppnishæfar við aðra ferðamáta

  • Samnýting forgangsakreina Borgarlínu/strætó á höfuðborgarsvæðinu verði skoðuð.
  • Við verðlagningu samgangna við Keflavíkurflugvöll verði horft til landrýmis, umhverfisáhrifa og fleiri þátta.

Markmið 5: Almenningssamgöngur séu grænar

  • Undirbúa orkuskipti almenningssamgangna.
  • Stuðla að því að almenningssamgöngur verði grænar.

Markmið 6: Samstarf hagsmunaaðila um áframhaldandi uppbyggingu og þróun almenningssamgangna

  • Reglulegu samráði helstu hagsmunaaðila (s.s. Isavia, Vegagerðin, Kadeco, Innviðaráðuneyti, Strætó bs., SSH, SSS) um almenningssamgöngur til og frá Keflavíkurflugvelli verði komið á laggirnar.
  • Hagsmunaaðilar komi sér saman um sameiginlega framtíðarsýn um eflingu almenningssamgangna geri sér samkomulag um aðgerðir.

Um starfshópinn

Í starfshópnum sem innviðaráðherra skipaði í fyrra sátu fulltrúar frá innviðaráðuneytinu, Kadeco, Isavia, SSH, SSS, og Strætó bs. og Vegagerðinni. Hópurinn hafði það hlutverk að greina leiðir til að bæta almenningssamgöngur milli höfuðborgarsvæðisins og Keflavíkurflugvallar með umhverfisvænum hætti og leggja fram tillögur til úrbóta. Við vinnuna var allt í senn horft var til leiðakerfis, þjónustustigs, verðskrár, staðsetningar og umgjörðar biðstöðva, kolefnisspors. 

  • Daði Baldur Ottósson verkefnisstjóri starfshóps um almenningssamgöngur milli höfuðborgarsvæðisins og Keflavíkurflugvallar - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta