Hoppa yfir valmynd
9. október 2024 Innviðaráðuneytið

Hugað að mikilvægi ljósvistar í drögum að nýjum kafla í byggingarreglugerð

Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra með fyrirlesurum á kynningarfundinum um ljósvist. Frá vinstri: Ásta Logadóttir, Herdís Björk Brynjarsdóttir, Svandís, Ólafur Árnason og Hildur Dungal. - mynd

Björt og vel upplýst híbýli fólks og aðgengi að birtu og sólarljósi í nærumhverfinu eru afar mikilvæg lýðheilsumál fyrir samfélagið. Um þetta voru allir fyrirlesarar sammála á kynningarfundi um ljósvist sem innviðaráðuneytið hélt í dag í Safnahúsinu.

Samhliða fundinum voru birt drög í samráðsgátt stjórnvalda að nýjum kafla um ljósvist og útsýni í byggingarreglugerð. Lagt er til að heildstæð umfjöllun um ljósvist verði innleidd í byggingarreglugerð enda sé hún mikilvæg út frá hollustu- og gæðakröfum sem gerðar eru til mannvirkja. Auk þess geti hún skipt miklu máli þegar hugað er að vistvænni mannvirkjagerð. Gert er ráð fyrir að breytingarnar öðlist gildi 1. mars nk. Hægt er að senda inn umsögn eða ábendingar til og með mið. 23. október nk.

Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra: „Það vantar meira húsnæði og það vantar strax. En það þýðir ekki að við megum gefa afslátt af gæðum húsnæðisins. Í því samhengi hef ég lagt áherslu á að rými og dvalarstaðir séu hannaðir með gæði og notagildi að leiðarljósi, þar á meðal að hugað sé að mikilvægi ljósvistar í híbýlum fólks, á sama tíma og hugað er að skilvirkni í uppbyggingu húsnæðis. Við þurfum sífellt að hafa það hugfast að heimili hannað í dag er framtíðarheimili næstu kynslóða,“ segir Svandís.

Á fundinum töluðu Dr. Ásta Logadóttir, verkfræðingur og lýsingarsérfræðingur, Ólafur Árnason, forstjóri Skipulagsstofnunar og Herdís Björk Brynjarsdóttir, lögfræðingur og teymisstjóri hjá HMS en hún kynnti helstu atriði í tillögunni að kaflanum um ljósvist. 

Helstu nýjungar í kafla um ljósvist og útsýni á byggingarreglugerð

Í drögum að reglugerð um breytingar á byggingarreglugerð, nr. 112/2012, er lagt til að bæta við nýjum kafla nr. 10.4 um ljósvist og útsýni. Meðal helstu nýjunga eru:

  • Heildstæð umfjöllun um ljósvist innleidd í byggingarreglugerð.
  • Hugtakið „ljósvist“ og hugtakið „vistarverur“ í því sambandi skilgreint í reglugerðinni. 
  • Markmið sett um að þess skuli gætt að byggingar og önnur mannvirki hafi eðlileg tengsl við útivistarsvæði á lóð og staðsetning vistarvera taki mið af dagsbirtu og útsýni þannig að góðrar ljósvistar gæti í vistarverum.
  • Mannvirki verði hönnuð og byggð þannig að tekið sé tillit til þarfa allra aldurshópa vegna ljósvistar og að hún sé í fullu samræmi við þá starfsemi sem fer fram við eða innan mannvirkis.
  • Skýr ákvæði sem gera kröfur til raflýsingar, daglýsingar í vistarverum, varðandi ljósmengun og um útsýni í vistarverum. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun skal gera leiðbeiningar um framkvæmd þessara ákvæða.

Reglugerðardrögin byggja á tillögum samráðshóps, sem HMS leiddi, að nýjum ákvæðum um ljósvist og liður í aðgerðum stjórnvalda samkvæmt þingsályktun um húsnæðisstefnu fyrir árin 2024-2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024-2028 sem samþykkt var á Alþingi í júní síðastliðnum. Er þar lögð áhersla á að grunngæði íbúðarhúsnæðis verði höfð að leiðarljósi í allri hönnun, þar á meðal dagsbirta.

Upptaka og glærur

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta