Hoppa yfir valmynd
28. október 2024 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Sameinast um stórbætt aðgengi fatlaðs fólks að stafrænum lausnum

Lilja Dögg Jónsdóttir framkvæmdastjóri Almannaróms, Lilja Dögg Alfreðsdóttir ráðherra, Árni Árnason MMS og Eva Þengilsdóttir ÖBÍ. - mynd

Menningar- og viðskiptaráðherra, Almannarómur – miðstöð máltækni, ÖBÍ réttindasamtök og Miðstöð menntunar og skólaþjónustu (MMS) skrifuðu í dag undir viljayfirlýsingu þess efnis að vinna saman að því að stórbæta stafrænt aðgengi fatlaðs fólks, með hjálp íslenskra máltæknilausna. Á meðal þeirra verkefna sem unnið verður að er að koma á fót upplýsingagátt um helstu lausnir sem geta gagnast ýmsum hópum, styðja við stofnun raddbanka og setja aukinn kraft í þróun á talgervilslausnum sem styðja við íslensku.

Máltækniáætlun 2 var hrint af stað af menningar- og viðskiptaráðuneytinu á þessu ári, þar sem kveðið er á um gífurlega fjárfestingu til að stuðla við hagnýtingu á íslenskri máltækni. Þróun íslenskrar máltækni er gríðarlegt hagsmunamál fyrir ýmsa hópa fatlaðs fólks, sem eru í raun eiginlegir stórnotendur ýmissa máltæknilausna. Í því skyni réðst menningar- og viðskiptaráðuneytið í samstarfi við ÖBÍ réttindasamtök í greiningu á þörfum fatlaðs fólks fyrir lausnir sem byggja á máltækni. Niðurstöður greiningarinnar voru kynntar á hádegisfundi með hagsmunaaðilum í dag og grundvallast viljayfirlýsingin á þeim niðurstöðum.

„Sá gríðarlegi árangur sem hefur náðst í máltækni er að mörgu leyti fötluðu fólki og hagsmunasamtökum þeirra að þakka. Blindrafélagið var til dæmis frumkvöðull í íslenskri taltækni og hafði frumkvæði að því að fjármagna og láta smíða fyrstu íslensku talgervilsraddirnar árið 2012. Og nú þegar við erum að keyra þessa þróun áfram og ætlum að hagnýta hana, auðvitað fyrir íslenskt atvinnulíf og opinbera geirann, þá megum við ekki gleyma þeim hópum sem voru að mörgu leyti kveikjan að þessari vinnu. Við ætlum að nýta nýjustu máltækni til að bæta líf fatlaðs fólks á Íslandi,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.


Í viljayfirlýsingunni eru settar fram fimm afmarkaðar aðgerðir sem byggja á niðurstöðum greiningarinnar. Ábyrgðaraðili hverrar aðgerðar er tilgreindur í viljayfirlýsingunni og er markmiðið að unnið verði að framgangi þeirra næsta árið. Að ári verða hagsmunaaðilar kallaðir saman á ný til að fara yfir árangur við framkvæmd aðgerðanna. Aðgerðirnar eru eftirfarandi:

1. Upplýsingagátt
Unnið verður að því að koma á fót upplýsingagátt þar sem teknar verða saman helstu lausnir óháð því hvaða hópum þær gagnast. Það er lykilatriði að fólk geti með auðveldum hætti kynnt sér hvaða lausnir eru í boði og gætu gagnast þeim.
Ábyrgð: ÖBÍ

2. Lausnir í kennslu
Aðgengi að upplýsingum um lausnir sem nýta má í kennslu verður aukið. Þar er bæði átt við búnað en einnig smáforrit og aðrar lausnir. Unnið verður að því að þróa umhverfi til fjarnáms fyrir fjarkennslu íslensks táknmáls með þróun námsefnis sem hentar til tölvustuddrar tungumálakennslu.
Ábyrgð: MMS

3. Íslenskur talgervill - samtal við fyrirtæki um lausnir
Halda áfram þróun á talgervilslausnum með íslenskum röddum. Mikilvægt er að í boði sé lausn á öllum helstu miðlum. Ljóst er að Apple umhverfið er styst á veg komið þegar kemur að íslensku og afar mikilvægt að gera bragarbót þar á.
Ábyrgð: Almannarómur

4. Raddbanki fyrir íslenskar raddir
Leitast verður við að styðja við stofnun raddbanka hjá Háskóla Íslands. Mikilvægt er að greiða veg verkefnisins, ræða við þróunaraðila og kanna samstarfsmöguleika ólíkra aðila.
Ábyrgð: Almannarómur

5. Þýðingar á mikilvægum forritum
Stuðlað verður að auknum þýðingum á helstu forritum sem fatlað fólk notar í daglegu lífi og hefja samtal við þróunaraðila slíkra forrita. Dæmi um slík forrit eru leiðsöguforrit, skipulagsforrit og þjálfunar- og sjúkdómsgreiningarforrit.
Ábyrgð: ÖBÍ

Fundurinn var táknmálstúlkaður.

Fundurinn var táknmálstúlkaður.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta