Skýrsla um mönnunarviðmið í hjúkrun
Mönnunarviðmið í hjúkrun á bráðalegudeildum sjúkrahúsa skulu byggja á gagnreyndri þekkingu og skýru kerfisbundnu verklagi sem er samræmt milli stofnana. Þau þurfa að byggja á umfangi og gæðum þjónustunnar, starfsumhverfinu og hæfni og þekkingu starfsfólks og veita sveigjanleika sem nauðsynlegur er í daglegum rekstri. Ábyrgð og vald stjórnenda við ákvörðun mönnunarviðmiða þarf að vera skýrt. Þetta er meginniðurstaða vinnuhóps sem Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra fól að leggja fram mönnunarviðmið í hjúkrun á bráðalegudeildum Sjúkrahússins á Akureyri og Landspítala. Formaður vinnuhópsins var Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur lagt áherslu á opinbera stefnumótun varðandi mönnun heilbrigðisstétta og að gerðar verði mönnunaráætlanir til framtíðar. Í skýrslu vinnuhópsins segir að til þess að þetta sé mögulegt hér á landi verði að hafa viðmið um mönnun sem séu endurmetin reglulega.
Vinnuhópurinn skoðaði mönnunarviðmið í nokkrum löndum þar sem þau hafa verið innleidd, kynnti sér niðurstöður rannsókna og leitaði eftir ráðleggingum og áliti sérfræðinga og fagfólks. Einnig gerði vinnuhópurinn greiningu á gögnum úr RAFAELA® hjúkrunarþyngdarflokkunarkerfinu sem notað er á Landspítala og á Sjúkrahúsinu á Akureyri.
Mönnunarviðmið í hjúkrun snúast fyrst og fremst um öryggi og gæði þjónustunnar. Hérlendis gildir almennt að heilbrigðisstofnanir setja sjálfar mönnunarviðmið út frá umfangi starfseminnar og fjárhagsramma. „En það er ekki nóg, áreiðanlegar mælingar á hjúkrunarþörf sjúklinga eru nauðsynlegar þegar kemur að því að áætla mönnun, skipuleggja þjónustu, tryggja gæði hennar og öryggi sjúklinga“ segir í skýrslu vinnuhópsins.
Tillögur vinnuhópsins um næstu skref:
- Hafin verði vinna við að innleiða umgjörð um mönnunarviðmið í hjúkrun byggð á niðurstöðum vinnuhópsins.
- Stofnaður verið innleiðingarhópur með fulltrúum viðkomandi stofnana.
- Innleiðing mönnunarviðmiða í hjúkrun verði kostnaðargreind.
- Skilgreindir verði mælikvarðar um mönnun í hjúkrun, útkomu sjúklinga og starfsfólks sem hægt er að mæla með kerfisbundnum og samræmdum hætti.
- Gerð verði rannsókn á tengslum mönnunar og afdrifum sjúklinga á þeim deildum sem tillögurnar ná til.
- Þróað verði mælaborð til að birta daglegar upplýsingar um mönnun og hjúkrunarálag.
- Hafin verði vinna við að skilgreina viðbragð við ónógri mönnun
- Skoðað verði hvaða mælitæki á hjúkrunarþyngd henti best á öðrum heilbrigðisstofnunum en Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra fagnar skýrslunni og þeirri vinnu sem að baki henni liggur: ,,Þetta snýst um að tryggja gæði, öryggi og aðbúnað sem eru lykilþættir í heilbrigðisþjónustu í nútíð og framtíð. Því legg ég ríka áherslu á að þetta mál verði unnið áfram í samvinnu við fagfólk heilbrigðisþjónustunnar og heilbrigðisstofnanir."