Staða framkvæmdaáætlunar um byggingu hjúkrunarrýma
Heilbrigðisráðuneytið hefur birt skýrslu með uppfærðri stöðu framkvæmdaáætlunar um byggingu hjúkrunarrýma til ársins 2028. Á framkvæmdaáætluninni eru alls 934 rými, þar af fjölgun rýma um 724, en bætt aðstaða í 210 rýmum.
Heildarfjöldi hjúkrunarrýma á landinu í september 2024 er 2.987 rými, bæði almenn og sérhæfð en þar að auki eru 113 dvalarrými. Það gerir 225 hjúkrunarrými á hverja 1000 íbúa 80 ára og eldri. Flestir sem flytja inn á hjúkrunarheimili koma þangað eftir 80 ára aldur og búa rúmlega 20% þess aldurshóps á hjúkrunarheimili. Nauðsynlegt er að halda áfram uppbyggingu hjúkrunarheimila í ljósi fyrirsjáanlegrar fjölgunar aldraðra á næstu árum og áratugum.
Í skýrslunni er gerð grein fyrir þarfagreiningunni sem framkvæmdaáætlunin byggir á, birtar upplýsingar um hvel lengi fólk með færni- og heilsumat bíður að jafnaði eftir hjúkrunarrými, greint eftir heilbrigðisumdæmum og upplýsingar um meðallengd búsetu fólks á hjúkrunarheimilum.
Samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofu Íslands mun fjöldi landsmanna sem eru 80 ára og eldri tæplega tvöfaldast til ársins 2040, líkt og fram kemur í skýrslunni. Því sé ljóst að veruleg fjölgun hjúkrunarrýma nægi ekki ein og sér til að mæta þörf aldraðra fyrir þjónustu, heldur þurfi jafnframt að styrkja þjónustu við aldraða í heimahúsum og gera fólki kleift að búa lengur heima í sjálfstæðri búsetu. Í þessum tilgangi var verkefnið Gott að eldast sett á fót en það miðar að því að bæta lífsgæði aldraðra og auka sjálfstæði þeirra. Verkefnið byggir á nánu samstarfi ríkis, sveitarfélaga og annarra aðila til að tryggja að þjónusta sé bæði skilvirk og í takt við breyttar þarfir samfélagsins. Þetta kallar á nýsköpun í þjónustu og aukna áherslu á forvarnir og heilsueflingu fyrir eldri aldurshópa.