Hoppa yfir valmynd
21. janúar 2025 Matvælaráðuneytið

Viðburðaríkt ár í matvælaráðuneyti

Fréttaannáll matvælaráðuneytisins 2024. - mynd

Árið 2024 var viðburðaríkt í matvælaráðuneytinu og einkenndist af mikilsverðum áföngum á málefnasviðum ráðuneytisins ásamt tíðum ráðherraskiptum. Af þeim 127 fréttum sem birtar voru á árinu er hér að finna yfirlit yfir þær helstu auk myndrænnar samantektar.

Í janúar tók Land og skógur til starfa, ný stofnun sem fer með málefni landgræðslu og skógræktar. Í sama mánuði var áfangaskýrslu um verndun hafsvæða innan íslenskrar lögsögu skilað og nýtt hafrannsóknaskip Íslendinga, Þórunn Þórðardóttir HF-300 var sjósett. Samkomulag við Landbúnaðarháskóla Íslands vegna kynbóta á byggi, hveiti og höfrum var einnig undirritað og í febrúar var var kynnt skýrsla um mat á kolefnisspori matvælaframleiðslu á Íslandi, aðgerðaáætlanir landbúnaðar- og matvælastefnu settar í samráð. Vinna var einnig hafin við útfærslu fyrir samræmt söfnunarkerfi dýraleifa á landsvísu.

Í lok janúarmánaðar fór Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra í tímabundið veikindaleyfi og gegndi Katrín Jakobsdóttir embætti matvælaráðherra samhliða störfum sínum sem forsætisráðherra á meðan veikindaleyfi stóð. Svandís tók við embætti innviðaráðherra í ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar 9. apríl og tók þá Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir við embætti matvælaráðherra og gegndi því til 17. október þegar breytingar urðu á skipan ráðherraembætta í ríkisstjórn. Á þeim tímapunkti tók Bjarni Benediktsson við matvælaráðuneytinu og sat sem matvælaráðherra til 21. desember þegar ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins var mynduð og Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Reykjavíkur kjördæmis norður, var skipuð í embætti atvinnuvegaráðherra en nafn matvælaráðuneytisins mun breytast í atvinnuvegaráðuneyti 1. mars 2025.

Í mars voru Landbúnaðarverðlaun matvælaráðuneytisins afhent bændum á Stóru-Mörk undir Eyjafjöllum. Landbúnaðarháskóli Íslands skilaði skýrslu um stuðningskerfi íslensks landbúnaðar til ráðuneytisins í sama mánuði og nýr vefur loftslagsvæns landbúnaðar var opnaður.

Að gerðu samkomulagi milli forsætis- og matvælaráðherra og ráðuneytisstjóra í viðkomandi ráðuneytum fluttust ráðuneytisstjórar 15. apríl milli forsætis- og matvælaráðuneytis. Bryndís Hlöðversdóttir, ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu, tók þá við embætti ráðuneytisstjóra í matvælaráðuneytinu og Benedikt Árnason, ráðuneytisstjóri í matvælaráðuneytinu, tók við embætti ráðuneytisstjóra í forsætisráðuneytinu.

Reglugerð um sjálfbæra landnýtingu var undirrituð í maímánuði. Samningur um landgræðsluskóga var einnig endurnýjaður til enda árs 2029, styrkir til aðlögunar að lífrænum framleiðsluháttum voru veittir og drög að landsáætlun um útrýmingu á sauðfjárriðu voru sett í samráðsgátt. Elín Björg Ragnarsdóttir var jafnframt skipuð í embætti fiskistofustjóra í lok mánaðarins.

Í byrjun júní úthlutaði Matvælasjóður rúmum 491 milljónum og viðbragðshópur vegna áhrifa kuldatíðar á landbúnað tók til starfa. Í júlí var landsáætlun um útrýmingu á sauðfjárriðu undirrituð og í ágúst var aðgerðaáætlun um eflingu lífrænnar framleiðslu gefin út auk skýrslu um verndun hafsins. Í sama mánuði var Gréta Bergrún Jóhannesdóttir skipuð formaður stjórnar Matvælasjóðs, opnað var fyrir umsóknir um nýliðunarstuðning í landbúnaði, opnaður var vefur um líforkuver á Dysnesi í Eyjafirði og aðgerðaáætlanir matvælastefnu og landbúnaðarstefnu voru gefnar út.

Þóra Jóhanna Jónasdóttir var skipuð í embætti yfirdýralæknis í byrjun október og í nóvember var settur á laggirnar starfshópur til að fara yfir tjón bænda vegna kuldatíðar og skoða stuðningsaðgerðir. Í sama mánuði var samþykkt að ráðist yrði í kortlagningu á gæðum ræktunarlands á landsvísu. Í desember stóð matvælaráðuneytið fyrir könnun á viðhorfi gagnvart hinsegin fólki í landbúnaði og sjávarútvegi og sameiginleg nefnd fríverslunarsamnings EES EFTA-ríkjanna við Bretland samþykkti í sama mánuði að íslenskt lambakjöt yrði verndað afurðaheiti í Bretlandi.

Þann 22. desember tók Hanna Katrín Friðriksson við lyklavöldum í matvælaráðneytinu sem atvinnuvegaráðherra sem er til samræmis við breytingar á skipulagi og verkefnum Stjórnarráðsins sem munu taka gildi 1. mars 2025, heiti matvælaráðuneytis verður þá atvinnuvegaráðuneyti.

Athygli er vakin á að hægt er að vera í áskrift að fréttum á vef stjórnarráðsins. Tilkynningar eru sendar á netfang þegar nýtt efni í flokknum er birt á vefnum.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta