Ákvarðanir fjármála- og efnahagsráðuneytisins um framlög til stjórnmálasamtaka úr ríkissjóði
Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur undanfarið haft til skoðunar verklag og lagaskilyrði sem gilda um framlög til stjórnmálasamtaka. Þetta er gert í kjölfar þess að fram komu upplýsingar um að stjórnmálasamtök, sem úthlutað hefur verið framlögum úr ríkissjóði af hálfu ráðuneytisins á grundvelli laga um starfsemi stjórnmálaflokka, hafi ekki uppfyllt skilyrði um skráningu í stjórnmálasamtakaskrá.
Við skoðun ráðuneytisins var m.a. leitað utanaðkomandi lögfræðiráðgjafar og liggja niðurstöður fyrir um meginþætti málsins. Leitað var til ríkislögmanns og Flóka Ásgeirssonar lögmanns og eru álitsgerðir beggja meðfylgjandi.
Ljóst er að annmarkar voru á framkvæmd úthlutana af hálfu ráðuneytisins. Frá og með árinu 2022 var skilyrði að stjórnmálasamtök væru skráð í sérstaka stjórnmálasamtakaskrá og bættist það við skilyrðin um að stjórnmálasamtök sem náð hafa nægilegu atkvæðamagni, hafi uppfyllt upplýsingaskyldu til ríkisendurskoðanda og að ríkisendurskoðandi hafi birt ársreikning þeirra. Ráðuneytinu bar að gæta þess að fyrir lægi staðfesting frá ríkisskattstjóra á skráningu í stjórnmálasamtakaskrá. Hefði verið gætt að þessu hefði ráðuneytið getað leiðbeint um að skráningu væri ábótavant.
Skráningardagsetningar í stjórnmálasamtakaskrá eru sem hér segir:
- Samfylkingin 13. janúar 2022
- Framsóknarflokkurinn 19. janúar 2022
- Miðflokkurinn 24. janúar 2022
- Viðreisn 25. janúar 2022
- Píratar 16. mars 2022
- Sjálfstæðisflokkurinn 8. apríl 2022
- Sósíalistaflokkur Íslands 21. nóvember 2023
- Vinstrihreyfing – grænt framboð 25. september 2024
Greiðslur framlaga á umræddum árum fóru fram 31. janúar 2022, 25. janúar 2023, 24. janúar 2024 og 27. janúar 2025.
Í íslenskum rétti gildir sú meginregla að aðilar sem fá fyrir mistök greidda fjármuni án þess að eiga rétt til þeirra skuli endurgreiða þá. Frá þessari reglu eru þó undantekningar eftir því hverjar aðstæður og atvik eru.
Það er niðurstaða ráðuneytisins að hafi stjórnmálasamtök uppfyllt önnur skilyrði til úthlutunar en það sem varðar skráningu í stjórnmálasamtakaskrá, þá standi veigamikil rök gegn því að endurkröfuréttur sé fyrir hendi:
Framlögin eru liður í að tryggja starfsskilyrði og sjálfstæði stjórnmálasamtaka og efla lýðræði. Krafa um endurgreiðslu myndi kippa fjárhagslegum grundvelli undan starfsemi hlutaðeigandi samtaka, þvert gegn markmiðum laganna.
Um var að ræða misbrest í verklagi við úthlutun framlaga og bæði stjórnvöld og viðkomandi stjórnmálasamtök stóðu í þeirri trú að lagalegur réttur stæði til fjárframlaganna. Ef ekki hefði verið fyrir þennan misbrest hefði ráðuneytið haft tilefni til að leiðbeina stjórnmálasamtökum um skráningu, áður en fé var fyrst úthlutað úr ríkissjóði eftir lögfestingu skilyrðisins.
Loks mælir það gegn endurkröfurétti að lögin hafi verið framkvæmd á þessa vegu um nokkurt skeið og viðtakendur greiðslnanna hagað starfsemi sinni til samræmis við þá trú að framlögin væru lögmæt og endanleg.
Þegar framangreind atriði eru skoðuð heildstætt telst ekki til staðar réttur til að krefja um endurgreiðslu fjárframlaga sem hafa verið veitt undanfarin ár, án þess að skilyrði um skráningu á stjórnmálasamtakaskrá hafi verið uppfyllt.
Verklag ráðuneytisins við meðferð og úthlutun framlaga hefur verið endurskoðað. Jafnframt mun ráðuneytið beita sér fyrir því að lögin verði endurskoðuð m.t.t. þess hvernig úthlutun og eftirfyglni með skilyrðum er háttað.