Rétt þjónusta á réttum stað – skýrsla starfshóps
Starfshópur sem fjallað hefur um stöðu eins af meginmarkmiðum heilbrigðisstefnu um að veita rétta þjónustu á réttum stað, hefur skilað Ölmu D. Möller heilbrigðisráðherra skýrslu með niðurstöðum sínum og tillögum. Gylfi Ólafsson formaður starfshópsins ásamt fleiri fulltrúum hópsins kynntu ráðherra skýrsluna á fundi í ráðuneytinu í gær.
Alþingi samþykkti árið 2019 þingsályktun um heilbrigðisstefnu til ársins 2030. Í henni ályktar Alþingi að leiðarljós stefnunnar sé að almenningur á Íslandi búi við örugga og hagkvæma heilbrigðisþjónustu þar sem aðgengi allra landsmanna sé tryggt. Sett eru fram sjö meginviðfangsefni til að sú framtíðarsýn sem birtist í stefnunni verði að veruleika. Eitt þeirra viðfangsefna er að notendum heilbrigðisþjónustu sé tryggð rétt þjónusta á réttum stað. Í því felst að skapa kerfi sem tryggir samfellda þjónustu við notendur á réttu þjónustustigi þar sem jafnframt er gætt að hagkvæmni og jafnræði við veitingu þjónustunnar.
Um mitt síðasta ár skipaði heilbrigðisráðherra starfshóp sem hann fól að greina hver sé staðan á því markmiði heilbrigðisstefnu að notendur heilbrigðisþjónustu fái þá þjónustu sem þeir þarfnast, á réttu þjónustustigi og að þjónustan sé samfelld. Í skipunarbréfi ráðherra til nefndarinnar var bent á að margt hafi breyst frá því að heilbrigðisstefnan var sett og margvíslegar áskoranir blasi við sem kalli á skýra sýn og nýja nálgun við úrlausn verkefna og veitingu heilbrigðisþjónustu.
Í heilbrigðisstefnunni eru talin 13 stefnumið sem þarf að uppfylla til að ná settu marki um rétta þjónutu á réttum stað. Hlutverk starfshópsins var að greina hvað áunnist hefur í þessu skyni og jafnframt að gera tillögur um aðgerðir sem nauðsynlegar eru til að ná þeim árangri sem að er stefnt. Hópnum var einnig falið að skoða hvernig skipting heilbrigðisþjónustu í fyrsta, annars, og þriðja stigs heilbrigðisþjónustu birtist þar sem mörk milli þjónustustiga eru ekki skýr og hvernig sú flokkun nýtist við að leiða notendur þjónustunnar í gegnum kerfið þar sem fyrsta stigs þjónusta á að vera fyrsti viðkomustaður.
Meginniðurstaða starfshópsins
Í megindráttum er það niðurstaða starfshópsins að almennt sé íslenska heilbrigðiskerfið gott, heilbrigðisstefnan einnig og að mál þróist í rétta átt. „Að langmestu leyti er rétt þjónusta veitt á réttum stað. Stærsta einstaka undantekningin frá þessu er öldrunarþjónusta“ segir í skýrslu hópsins.
Skýrsla starfshópsins verður nú rýnd í ráðuneytinu. Í framhaldi af því verða teknar ákvarðanir um frekari vinnu á grundvelli skýrslunnar og næstu skref.