Fundur Velferðarvaktarinnar 9. apríl 2025
72. fundur Velferðarvaktarinnar
haldinn í félags- og húsnæðismálaráðuneytinu og á Teams.
9. apríl 2025, kl. 14.00-16.00.
1. Vinnustofa Velferðarvaktarinnar
Farið var yfir helstu niðurstöður vinnustofu Velferðarvaktarinnar sem haldin var í byrjun mars sl. Þar fóru fulltrúar í vaktinni yfir hlutverk, fyrirkomulag og annað sem tengist störfum vaktarinnar í dag og sömuleiðis til framtíðar litið.
2. Þemaverkefni fyrir árið 2025
Á fyrrnefndum vinnufundi Velferðarvaktarinnar kom fram áhugi fyrir að velja sérstakt þemaverkefni fyrir árið. Ræddar voru ýmsar tillögur sem heyra til þeirra málefna sem Velferðarvaktin hefur látið sig varða. Í lokin var kosið um málefni og var niðurstaðan sú að farið yrði í þemaverkefni sem snýr að málefnum barna og barnafjölskyldna. Myndaður var vinnuhópur með fulltrúum innan vaktarinnar sem vinna mun verkefnið áfram. Boðað verður til fyrsta fundar hópsins í byrjun maí.
3. Rannsókn á fátækt
Kolbeinn Stefánsson og Halldór Gunnarsson frá Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands kynntu stöðuna á framhaldsrannsókn sem þeir vinna nú að en hún var sett af stað í kjölfar útgáfu skýrslunnar Fátækt og áætlaður samfélagslegur kostnaður árið 2023. Markmiðið með framhaldsrannsókninni er að skoða nánar fátækt meðal afmarkaða hópa en á fundinum ræddu Kolbeinn og Halldór sérstaklega um fátækt í hópi innflytjenda á Íslandi.
4. Tölum saman - vitundarvakning gegn félagslegri einangrun.
Líney Úlfarsdóttir, sálfræðingur og verkefnastjóri vitundavakningarinnar Tölum saman sem er vitundarvakning gegn félagslegri einangrun, kynnti verkefnið. Félags- og húsnæðismálaráðuneytið stendur fyrir vitundarvakningunni en markmiðið er að vekja athygli almennings á því hve alvarleg félagsleg einangrun getur verið og hvernig samfélagið getur verið hluti af lausninni.
5. Önnur mál
- Næsti fundur Velferðarvaktarinnar verður haldinn 10. júní nk.