Sameining Landmælinga Íslands, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Ramý
Á næstu misserum verður miðlað reglulega upplýsingum til starfsfólks stofnana umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins um hvernig vinnu við sameiningu eða breytingar á skipulagi stofnana ráðuneytisins miðar. Í stað þess að senda starfsmönnum tilkynningar í sérstökum tölvupósti verður tekinn upp sá háttur að senda „krækju“ á fréttabréf sem er vistað á vefsíðu.
Eitt ár að baki
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur á undanförnum mánuðum unnið að sameiningu þeirra stofnana sem starfa á vegum ráðuneytisins. Kynnt hefur verið ákvörðun um að sameina tíu af stofnunum ráðuneytisins í þrjár og er vinna við lagafrumvörp eftirfarandi stofnana langt á veg komin:
- Náttúruverndar- og minjastofnun (Vatnajökulsþjóðgarður, Þjóðgarðurinn á Þingvöllum, náttúruverndarsvið Umhverfisstofnunar og Minjastofnun)
- Náttúruvísindastofnun (Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn (Ramý), Veðurstofa Íslands, Landmælingar Íslands og ÍSOR)
- Loftslagsstofnun (Orkustofnun og Umhverfisstofnun)
Sameiningunni er m.a. ætlað að ná þeim markmiðum að:
- Til verði stærri, kröftugri og faglega öflugri stofnanir sem geti tekist á við áskoranir til framtíðar og unnið að markmiðum Íslands í umhverfismálum.
- Efla þekkingar- og fræðasamfélag og nýsköpun í opinberum rekstri.
- Fjölga störfum á landsbyggðinni og störfum óháð staðsetningu
- Nýta betur þekkingu og innviði og auka sveigjanleika til að takast á við stór verkefni.
- Einfalda áætlanagerð og auka rekstrarhagkvæmni.
- Tryggja aðkomu nærsamfélaga að þjóðgörðum og friðlýstum svæðum.
Nú hefur ráðuneytið ákveðið að sú tilgáta sem lagt var upp með í byrjun að búa til öfluga Náttúruvísindastofnun nái ekki fram að ganga að þessu sinni nema að hluta og þarfnist sú leið frekari skoðunar. Því er ekki gert ráð fyrir að Veðurstofan og ÍSOR verði sameinuðu öðrum stofnunum í þessum áfanga en áfram verður unnið að því að efla samstarf stofnananna og skoða samþættingu eða flutning einstakra verkefna.
Þrjár öflugar stofnanir í stað tíu
Starfsmenn telja tækifæri í sameiningu og auknu samstarfi
Stofnanaskipulag umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins til skoðunar
Sérstaða ÍSOR
Starfsemi Íslenskra orkurannsókna (ÍSOR) er ólík starfsemi annarra framangreindra stofnana þar sem hún er B-hluta stofnun og tekjur hennar eru alfarið byggðar á tekjum af samningsbundnum verkefnum á samkeppnismarkaði. Vegna þessa hefur umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið haft til skoðunar framtíðarfyrirkomulag ÍSOR í samhengi við fyrirliggjandi tillögur um sameiningu stofnana.
Niðurstaða þeirrar vinnu er sú að ef ÍSOR verður hluti af Náttúruvísindastofnun í A-hluta þá myndi reynast erfitt að halda samkeppnisrekstri að fullu aðgreindum frá öðrum ríkisrekstri. Slík staða myndi mögulega koma niður á skilvirkni nýrrar stofnunar og getu hennar til að samnýta þann þekkingarauð sem í henni býr.
Sú tilgáta sem lagt var upp með í byrjun að búa til öfluga Náttúruvísindastofnun nær því ekki fram að ganga að þessu sinni og þarfnast frekari skoðunar.
Sameining Landmælinga Íslands, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Ramý
Í ljósi þess að vinna við að greina leiðir að því meginmarkmiði að til verði ný og öflug Náttúruvísindastofnun tekur nokkurn tíma er lagt til að strax verði hafist verði handa við að sameina Náttúrufræðistofnun Íslands, Landmælingar Íslands og Ramý. Með þessari sameiningu myndi strax nást hagræðing og einföldun hvað varðar stjórnun og innri þjónustu.
Gert er ráð fyrir að leggja fram frumvarp á Alþingi um sameiningu NÍ, LMÍ og Ramý haustið 2023 með það að markmiði að ný stofnun taki til starfa á árinu 2024. Innleiðing á sameiningu þessa þriggja stofnana gæti hafist strax á haustmánuðum 2023 en lagt verði upp með að sameinaðar stofnanir yrðu lagðar niður og að starfsmenn þeirra nytu forgangs til starfa í nýjum stofnunum.
Starfsmenn hinnar nýju stofnunar mun verða um 80 talsins með starfsstöðvar í Garðabæ, Akranesi, Akureyri, Breiðdalsvík og við Mývatn. Líkt og fyrr er mikilvægt að í ferlinu öllu verði staðið vörð um mikilvæga þekkingu og sérhæfingu starfsmanna stofnananna og að stuðlað verði að enn frekari þekkingaruppbyggingu og nýsköpun. Einnig er mikilvægt að kynna vel þau tækifæri sem felast í eflingu starfsstöðva á landsbyggðinni.
Þrátt fyrir sameiningu framangreindra þriggja stofnana verður áfram unnið að því að leita leiða við að til verði öflug Náttúruvísindastofnun, en fram að því verður lögð áhersla á aukið samstarfs og samvinnu allra þessara fimm stofnana.
Samruni Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar og Háskólans á Akureyri skoðaður
Viðræður eru fyrirhugaðar milli Háskólans á Akureyri og Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar um samruna stofnananna, en það er mat umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins og háskóla-, iðnaðar og nýsköpunarráðuneytisins að ótvíræður faglegur ávinningur gæti orðið af sameiningunni. HA og SVS eiga nú þegar í margvíslegu samstarfi um kennslu og rannsóknir og vinna þétt saman innan Háskóla norðurslóða. Hin nýja stofnun gæti eflt Akureyri sem miðstöð um norðurslóðamál og fjölgað alþjóðlegum framhaldsnemendum í heimskautafræðum, auk þess að vera stjórnvöldum til ráðgjafar um málefni norðurslóða, einkum varðandi viðbrögð við loftslagsvá og á sviði sjálfbærrar þróunar. Stefnt er að því að samruni HA og SVS gæti orðið að veruleika á árinu 2024.
Stýrihópur ráðuneytisins
Undanfarin misseri hefur stýrihópurinn sem hefur yfirumsjón með verkefninu átt yfir 40 fundi og hittist nú vikulega til að funda um framgang vinnu við að breyta skipulagi stofnananna. Stýrihópurinn hefur einnig átt reglulega fundi með forstöðumönnum þeirra stofnana sem eiga í hlut, auk margvíslegra kynningarfunda og funda með starfsmönnum stofnana.
Mannauðshópur
Mikil vinna hefur líka verið í gangi í mannauðshópnum sem vinnur nú að margvíslegri kortlagningarvinnu. Til að mynda við að kortleggja réttindi starfsfólks og ráðningarstöðu,mannauðstefnur, jafnlaunastefnur, vinnutímastyttingu og annað verklag innra starfs stofnananna til að athuga hversu sambærilegt það er. Einnig stendur yfir greining stofnanasamninga, jafnlaunavottun og launamála.
Frumvörp
Áformaskjal um sameiningu fór í samráðsgátt stjórnvalda í lok maí og var mögulegt að senda inn umsagnir vegna áformanna til 14. júní sl. Alls bárust ráðuneytinu 19 umsagnir vegna áformanna. Gert var ráð fyrir að þrjú frumvörp um sameiningu færi í samráðsgáttina á næstu vikum. Með þeim breytingum sem nú hafa verið ákveðnar varðandi sameiningu Náttúrufræðistofnunar Íslands, Náttúrurannsóknarmiðstöðvarinnar við Mývatn (Ramý) og Landmælinga Íslands verða einhverjar tafir og er nú gert ráð fyrir að frumvörpin fari í samráðsgáttina í ágúst nk.
Sameining stofnana umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins
Húsnæðismál
Framundan er svo kortlagning á húsnæði stofnananna, þar sem m.a. verður skoðað hvernig staðan er annars vegar varðandi leigu á húsnæði og hins vegar húsnæði í eigu ríkisins, sem og hver nýting húsnæðisins er. Framkvæmdasýslan - Ríkiseignir er þegar lögð af stað í þetta verkefni.
Upplýsingatækni og tölvumál
Góður gangur er enn fremur í vinnu við stöðumat á upplýsingatæknimálum stofnana, ásamt mati á kostnaði og möguleikum til hagræðingar. Einnig er vinna í gangi við kortlagningu og greiningu leyfisferla OS og UST til að ná megi heilstæðri mynd af þeim. Gert ráð fyrir að fyrsta áfanga þeirrar vinnu ljúki nú í sumar.
Samstarfsverkefni
Samstarfsverkefni eru þegar farin í gang hjá nokkrum stofnunum í gang í tengslum við áform um sameiningu eða breytt skipulag stofnana. Verkefnin eru mikilvæg og fjalla um vöktun náttúrunnar, samþættingu leyfisveitinga vegna virkjana og vatnamála, jarðfræðikortlagningu, landupplýsingakerfi, samþættingu leyfisveitinga í náttúruvernd, losunarbókhald, fjarkönnun og sameiginlegar eftirlitsferðir. Auk þess er í deiglunni samstarf nokkurra stofnana um skjalamál.
Annað
Næsta fréttabréf verður gefið út í lok sumars og stefnt er á að fundur verði haldinn með öllum starfsmönnum í september.
Spurningum og ábendingum skal beint til mannauðstjóra/forstöðumanna stofnana. Einnig er hægt að senda fyrirspurnir og ábendingar til mannauðsstjóra ráðuneytisins sem safnar saman spurningum og sendir spurningar og svör til stofnana sem þau geta dreift til starfsfólks.