Skýrsla starfshóps um breytingar á gildandi fyrirkomulagi launa æðstu embættismanna
Verkefni starfshópsins er tvíþætt:
- Að leggja mat á gildandi viðmið þeirra sem fá laun ákvörðuð samkvæmt lagaákvörðun m.t.t. mögulegra breytinga á því og hvort nýtt viðmið geti tekið gildi við endurákvörðun launa þessa hóps þann 1. júlí 2024.
- Að leggja mat á gildandi fyrirkomulag á ákvörðun launa forstöðumanna m.t.t. mögulegra breytinga á því og þá hvernig því verði vel fyrir komið og það verði í traustu formi til framtíðar.
Gert er ráð fyrir því að starfshópurinn skili af sér tillögum, þ.m.t. ábendingum um helstu lagabreytingar sem tillögur hópsins kalla á og drögum að frumvarpi í samræmi við þær tillögur. Að öðrum kosti skili starfshópurinn af sér tillögum um aðra valkosti, ólíkar leiðir eða ítarlegri greiningu, eftir því sem við á.
Starfshópurinn hefur nú skilað skýrslu með tillögum sínum um breytt viðmið við launaákvarðanir æðstu embættismanna. Í meðfylgjandi skýrslu hópsins er gerð ítarleg grein fyrir mögulegum breytingum á fyrirkomulagi gildandi launaákvarðana þjóðkjörinna fulltrúa og tiltekinna embættismanna.
Samandregin niðurstaða starfshópsins er:
- Starfshópurinn leggur til að laun æðstu embættismanna verði áfram ákvörðuð á grundvelli niðurstöðu starfshóps um málefni kjararáðs frá 2018, sbr. lög nr. 79/2019.
- Viðmiðun launabreytinga á grundvelli laga nr. 79/2019 verði breytt til samræmis við meginniðurstöðu dóms Hæstaréttar í máli nr. 39/2023 um að launaviðmiðun (fyrir dómara) skuli vera lögbundin en ekki háð afskiptum framkvæmdavaldsins, eða teljist óskýr. Sama viðmiðun gildi gagnvart dómurum að þessu leyti og öðrum æðri embættismönnum.
- Launabreytingar æðstu embættismanna miðist við breytingar á launum afmarkaðra sambærilegra launahópa hjá ríkinu en taki ekki mið af meðaltalsbreytingum hjá öllum ríkistarfsmönnum eða verði leiðandi gagnvart þeim sem hafa rétt til að semja um kaup og kjör.
- Ráðstafanir til að hækka lægstu laun eða til leiðréttingar gagnvart einstökum starfsstéttum leiði ekki til hækkana launa æðstu embættismanna umfram aðra sambærilega hópa. Þannig skeri launahækkanir æðstu embættismanna sig ekki úr og þeir teljist „deila kjörum með þjóðinni“ í þeim skilningi að þeir fylgi samanburðarhópum sem samningsrétt hafa gagnvart ríkinu, en njóti ekki meiri hækkana.
- Stjórnendur og sérfræðingar innan opinberrar stjórnsýslu hjá ríkinu (starfsflokkunarkerfið ÍSTARF, atvinnugreinaflokkun ÍSAT) teljast að mati starfshópsins besti samanburðarhópurinn. Störfin eru innan hins almenna stjórnkerfis, að jafnaði fastmótuð og viðvarandi, starfsmenn jafnan háskólamenntaðir og taka laun samkvæmt kjarasamningum BHM. Er litið til þess að æðstu embættismenn, nytu þeir samningsréttar, myndu almennt taka laun samkvæmt slíkum kjarasamningum.
- Viðmiðunarhópurinn telst nægilega stór og fjölbreyttur til að breytingar á launakjörum teljist jafnan marktækar.
- Stuðst yrði við útreikninga á faglegum forsendum launavísitöluútreikninga, með sömu grunnaðferðafræði og nú er notuð við útreikninga launavísitölu samkvæmt lögum nr. 89/1989.
- Launabreytingar myndu fyrst taka gildi á útreikningsstímabili eftir gildistöku slíkra lagabreytinga svo þær teldust ekki afturvirkar.
- Lögfesting viðmiðunar, ásamt ítarlegum skýringum í athugasemdum í frumvarpi til laga, ætti að fullnægja kröfum um skýra, afdráttarlausa og sanngjarna viðmiðun launabreytinga, án aðkomu framkvæmdavaldsins.