Hoppa yfir valmynd
6. september 2024 Dómsmálaráðuneytið

Skýrsla ráðgjafa um möguleika á hagræðingu í rekstri Landhelgisgæslunnar

Í tilefni af fjölmiðlaumfjöllun og umræðu um skýrslu sem ráðgjafar Advance-ráðgjafafyrirtækisins unnu um málefni Landhelgisgæslunnar hefur dómsmálaráðuneytið ákveðið að birta skýrsluna opinberlega. Jafnframt eru birtar upplýsingar um tilurð skýrslunnar ásamt minnisblaði Landhelgisgæslunnar og úttekt Deloitte á tölulegum greiningum í skýrslunni.
Í september 2022 skipaði Jón Gunnarsson, þáverandi dómsmálaráðherra starfshóp til þess að kanna möguleika á hagræðingu í rekstri Landhelgisgæslunnar. Í hópnum sátu: Óskar Jósefsson, formaður, Tómas Dagur Helgason flugstjóri og flugrekstrarstjóri, Pétur Fenger og Hinrika Sandra Ingimundardóttir frá dómsmálaráðuneytinu og Georg Lárusson, forstjóri LHG.
Ráðgjafar frá ráðgjafafyrirtækinu Advance, undir forystu Óskars Jósefssonar og Tómasar Dags Helgasonar, unnu skýrslu með rekstrargreiningu á starfsemi Landhelgisgæslunnar. Aðrir í starfshópnum komu ekki að gerð skýrslunnar en hún var kynnt starfshópnum í september 2023.  
Landhelgisgæslan brást við skýrslunni í bréfi til ráðuneytisins þann 12. október 2023 (sjá meðfylgjandi). Auk þess fékk Landhelgisgæslan sérfræðinga hjá Deloitte til þess að fara yfir tölulegar greiningar og útreikninga sem fylgdu skýrslunni. Niðurstaða Deloitte var á þann veg að mörgu væri ábótavant við útreikninga og reikningslegar forsendur skýrslunnar og því væru niðurstöður ráðgjafa Advance ekki réttar í meginatriðum.
Starfshópurinn lauk störfum án þess að skýrslan hafi verið yfirfarin nánar og því stendur hópurinn ekki á bak við skýrsluna.
Samkvæmt upplýsingalögum telst skýrslan vinnugagn ráðherraskipaðs starfshóps og því ber ráðuneytinu ekki skylda til að afhenda skýrsluna.

8. gr. Vinnugögn.
Vinnugögn teljast þau gögn sem stjórnvöld eða [aðrir aðilar skv. I. kafla] 1) hafa ritað eða útbúið til eigin nota við undirbúning ákvörðunar eða annarra lykta máls. […]
Til vinnugagna teljast einnig eftirtalin gögn, enda fullnægi þau að öðru leyti skilyrðum 1. mgr.:
[…]
2. gögn sem unnin eru af nefndum eða starfshópum sem [aðilar skv. I. kafla] 1) hafa sett á fót með formlegri ákvörðun og fastmótuðu hlutverki,
3. gögn sem send eru milli aðila skv. 2. tölul. og annarra [aðila skv. I. kafla] 1) þegar starfsmenn þeirra eiga þar sæti.

Samkvæmt 11. gr. upplýsingalaga er heimilt að veita aðgang að gögnum í ríkari mæli en skylt er samkvæmt lögunum. Stjórnvöldum ber því að taka afstöðu til þess hvort veita eigi aðgang í ríkari mæli en skylt er. Niðurstaða þeirrar skoðunar er sú að skýrslan verður afhent.

 

Umsögn Landhelgisgæslu um skýrsluna

Í minnisblaði frá Landhelgisgæslunni er þetta sagt um skýrslu Advance:
„Landhelgisgæslan hefur ýmislegt út á vinnubrögð Advance að setja, sér í lagi þegar kemur að samantekt niðurstaðna og rökstuðningi, eða skorti á öllu heldur. Stofnunin fékk lokaafurð Advance aldrei til yfirferðar fyrir skil, eins og tíðkast í slíkri vinnu, heldur einungis vinnugögn í formi glærukynningar. Í lokaskýrslu sem Advance skilaði 28. september sl. virðist lítið hafa verið litið til rýni Landhelgisgæslunnar né fjölmargra samtala á fundum á verktíma. Í gegnum umfjöllunina skín víða skortur á skilningi á viðfangsefninu. […]
Endurskoðunarfyrirtækið Deloitte yfirfór útreikningana fyrir Landhelgisgæsluna og komst að því að villur var að finna í framsetningunni, bæði á útreiknuðum undirliggjandi flugstundakostnaði, sviðsmyndunum sjálfum og aðferðafræði sem blæs ranglega út fastan rekstrarkostnað. Ýmsar forsendur að baki útreikningum eru sömuleiðis taldar gagnrýniverðar, ekki síst forsenda um 35% kostnaðarábata við útboð reksturs flugvélar, án nokkurs rökstuðnings. Ólíkar sviðsmyndir, allt frá óbreyttum rekstri í útboðinn rekstur með 35% kostnaðarábata, eru síðan notaðar til að setja fram framangreinda fullyrðingu um 100 til 700 m.kr. núvirtan árlegan sparnað án frekari skýringa. Niðurstaða Deloitte er afgerandi: „munurinn á rekstrarkostnaði flugvélanna er umtalsvert minni en niðurstaða Advance eða á bilinu 8-45 m.kr. á ári, fyrir sambærilegar sviðsmyndir.“ Þá er vantalinn áætlaður kostnaður við kaup á eftirlitsbúnaði. Um ámælisverð vinnubrögð er að ræða af hendi Advance.
Til viðbótar við þessa stærstu og alvarlegustu rangfærslu eru fjölmargar aðrar staðreyndavillur, mistúlkanir og rangfærslur að finna í skýrslu Advance.“

Gögn sem fylgja:
Skýrsla Advance um LHG
Minnisblað LHG um skýrslu Advance. 
Greining Deloitte á reikningum og sviðsmyndum Advance

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta