Skýrsla starfshóps um framtíð heyrnarþjónustu
Starfshópur sem heilbrigðisráðherra skipaði í júlí á liðnu ári til að móta tillögur um skipulag heyrnarþjónustu til framtíðar hefur skilað skýrslu með umfjöllun sinni og tillögum um framtíðarskipulag þjónustunnar. Áhersla er lögð á notendavæna þjónustu sem taki mið af alvarleika heyrnarskerðingar notendanna og að þjónustan sé veitt í samræmi við það á viðeigandi þjónustustigi. Er þá tekið mið af stigun heilbrigðisþjónustu í fyrsta, annars og þriðja stigs þjónustu í samræmi við íslenska heilbrigðisstefnu til ársins 2030.
Alma D. Möller heilbrigðisráðherra segir mikinn feng að skýrslu hópsins. Hún veiti góða yfirsýn um stöðu heyrnarþjónustu við landsmenn og hvernig betur megi efla hana og skipuleggja í samræmi við þarfir notenda og vaxandi þjónustuþörf. Eins sé mikilvægt að laga hana að stigskiptri heilbrigðisþjónustu með áherslu á aðgengilega grunnþjónustu um allt land. Hún bendir á að mönnun þessarar þjónustu hafi lengi verið mikil áskorun. Það hafi því verið stór áfangi þegar Heyrnar- og talmeinastöð Íslands (HTÍ), Háskólinn í Örebro í Svíþjóð og Háskólinn á Akureyri gerðu með sér samning í fyrra sem gerir kleift að bjóða upp á háskólanám í heyrnarfræðum hér á landi. Eins hafi það verið mikil bót fyrir starfsemi HTÍ og viðskiptavini stöðvarinnar þegar stofnunin gat loksins flutt starfsemi sína í stærra og betra húsnæði í Hraunbæ í febrúar síðastliðnum. „Það er mikið verk að vinna við að endurskipuleggja og efla heyrnarþjónustu á öllum stigum og skýrsla starfshópsins er gott veganesti til þess“ segir ráðherra.
Einn af hverjum fimm með heyrnarskerðingu
Heyrnarskerðing er fötlun og vaxandi vandamál sem hefur áhrif á einn af hverjum fimm íbúum landsins. Meiri hlutinn, eða rúm 60% þeirra eru eldri en 50 ára. Með hækkandi aldri þjóðarinnar hefur heyrnarskerðing nær tvöfaldast á síðustu 45 árum. Áreiðanlegar tölur um fjölda heyrnarskertra á Íslandi liggja ekki fyrir en gögn úr nýlegri rannsókn um algengi heyrnarskerðingar benda til þess að 14,3% landsmanna (um 55.000 manns) séu með væga til mjög alvarlega heyrnarskerðingu. Út frá sömu gögnum má gera ráð fyrir að um 12.000 einstaklingar séu með miðlungs til alvarlega heyrnarskerðingu og um 800 manns með alvarlega eða mjög alvarlega heyrnarskerðingu. Reiknað er með að hérlendis muni um 35.000 manns þurfa á einhvers konar heyrnarþjónustu að halda árið 2030, einkum aldraðir. Huga þarf sérstaklega að þeim hópum sem eru með mikla heyrnarskerðingu og þurfa á samþættri sérfræðiþjónustu að halda, segir í skýrslu starfshópsins.Um 7% landsmanna þarfnast sértækra úrræða
Starfshópurinn leggur áherslu á að við framkvæmd heyrnarþjónustu þurfi að huga að þáttum eins og búsetu og aðgengi að sérfræðiþjónustu. Bent er á að um 7% íbúa landsins séu með það mikla heyrnarskerðingu að hún krefjist sérstakra úrræða, heyrnar- og/eða hjálpartækja, eða annarrar þjónustu, og að þeir dreifist um landið allt. Stærsti einstaki hópurinn eru aldraðir einstaklingar með aldurstengt heyrnartap, en mikilvægt sé að huga að öðrum hópum sem eru í viðkvæmri stöðu vegna heyrnarskerðingar eða heyrnarleysis. Til að mynda eru heyrnarskert börn í tæplega 80 grunnskólum vítt og breitt um landið. Að mati hópsins er mikilvægt að tryggja aðgengi að grunnþjónustu í nærumhverfi, m.a. í formi fræðslu, ráðgjafar og skimunar.