Hoppa yfir valmynd
19. ágúst 2024 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Gjaldfrjáls námsgögn og tvöfalt meira fjármagn til námsgagnagerðar

Mennta- og barnamálaráðherra ávarpar málþing ráðuneytisins um framtíðarfyrirkomulag útgáfu námsgagna í febrúar - mynd

Fjárframlag til námsgagnagerðar tvöfaldast og námsgögn verða gjaldfrjáls fyrir framhaldsskólanema fram að 18 ára aldri. Aðgerðirnar eru liður í heildarendurskoðun á útgáfu námsgagna og menntastefnu stjórnvalda til ársins 2030. Nýtt frumvarp um námsgögn hefur verið samþykkt af ríkisstjórn til fyrirlagningar á Alþingi.

Ein af áherslum menntastefnu stjórnvalda er að í boði séu fjölbreytt námsgögn sem taka mið af möguleikum stafrænnar miðlunar og margbreytileika nemenda. Fyrirkomulag útgáfu námsgagna hefur sætt gagnrýni um hríð og þörfin á úrbótum brýn. Gott námsefni gegnir lykilhlutverki í að ná árangri í menntun. Aðgerðir sem nú eru að koma til framkvæmda marka mestu breytingar á útgáfu námsgagna í áraraðir.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, skipaði starfshóp um námsgögn í upphafi árs 2024. Starfshópnum var falið að greina áskoranir og tækifæri vegna fyrirhugaðrar lagasetningar um námsgögn sem ætlað væri að auka aðgengi að fjölbreyttum námsgögnum fyrir öll skólastig. Starfshópurinn hefur skilað tillögum sínum til ráðherra og byggir nýtt frumvarp um námsgögn m.a. á vinnu hópsins.

Meðal tillagna starfshópsins er aukið fjármagn til námsgagnasjóðs og þróunarsjóðs námsgagna. Fjárframlag til þessara sjóða verður tvöfaldað frá árinu 2025 samkvæmt ákvörðun ráðherra. Nemendur munu njóta aukins framboðs námsefnis í ákveðnum greinum strax á vorönn 2025. Markmiðið er að búa til fleiri, fjölbreyttari og vandaðri námsgögn fyrir kennara og skóla til að velja úr.

Nýtt frumvarp um námsgögn var lagt fram til umsagnar í Samráðsgátt stjórnvalda í vor eftir að starfshópurinn hafði kynnt bráðabirgðaniðurstöður sínar fyrir ráðherra. Samþykkt var á fundi ríkisstjórnar á föstudag að frumvarpið yrði lagt fram á Alþingi og hefur það nú verið sent þingflokkum stjórnarflokkanna til afgreiðslu. Helstu nýmæli eru að lagt er til að nemendum í framhaldsskóla fram að 18 ára aldri standi til boða gjaldfrjáls námsgögn en námsgögn eru núna gjaldfrjáls fyrir nemendur í leik- og grunnskólum. Stuðningurinn hefst við gildistöku laganna og verður innleiddur í áföngum þar til námsgögn verða að fullu gjaldfrjáls 1. janúar 2029.

Í frumvarpinu er mælt fyrir um ný heildarlög um námsgögn sem koma í stað núgildandi laga um námsgögn. Lagðar eru til ýmsar breytingar á stuðningi ríkisins við nýsköpun, þróun, gerð, þýðingu og útgáfu námsgagna á fjölbreyttu formi fyrir leik-, grunn-, framhaldsskóla og nú í fyrsta sinn fyrir tónlistarskóla einnig. Námsgögn sem njóta stuðnings námsgagnasjóðs eða þróunarsjóðs námsgagna skulu vera vönduð, í samræmi við aðalnámskrár og styðja við fjölbreyttar þarfir barna og ungmenna. Jafnframt er í frumvarpinu fjallað um heimild ráðherra til að setja gæðaviðmið um gerð og útgáfu námsgagna sem njóta stuðnings hins opinbera og um útgáfuáætlun námsgagna til fimm ára í senn sem ráðherra gefur út.

Í frumvarpinu felast einnig breytingar á uppbyggingu og hlutverki sjóða, m.a. breytingar á skipan og samsetningu stjórnar þróunarsjóðs námsgagna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum