Leiðarvísir um mat á áhrifum á börn
Mennta- og barnamálaráðuneytið gaf út leiðarvísi um hagsmunamat út frá réttindum barna í allri stefnumótun stjórnvalda á degi mannréttinda barna hinn 20. nóvember 2024. Markmiðið með hagsmunamatinu er að stjórnvöld hugi markvisst að því hvaða áhrif ákvarðanir þeirra hafa á börn og réttindi þeirra og hvort og þá með hvaða hætti er nauðsynlegt að bregðast við þeim áhrifum.
Hagsmunamatið er hluti af innleiðingu barnasáttmálans hérlendis samkvæmt þingsályktun um barnvænt Ísland. Í þingsályktuninni kemur fram að hagsmunamat út frá réttindum barna skuli vera hluti af skyldubundnu ferli við undirbúning lagafrumvarpa, stefnumótandi ákvarðana og ákvarðana um réttindi einstakra barna.
Hagsmunamatið var unnið í samvinnu við umboðsmann barna sem leiðarvísir og eyðublað. Lögð var áhersla á að hafa leiðarvísinn aðgengilegan og einfaldan í notkun. Frumvörp, reglugerðir, stefnur og aðrar stefnumótandi ákvarðanir sem stjórnvöld taka skulu ávallt fara í gegnum barnvænt hagsmunamat þegar ákvarðanir hafa áhrif á börn.