Samantekt um áherslur og aðgerðir í varnarmálum
Miklar breytingar hafa orðið á öryggisumhverfi Íslands á síðustu árum í kjölfar allsherjarinnrásar Rússlands í Úkraínu og í ljósi vaxandi spennu í alþjóðasamskiptum.
Íslensk stjórnvöld hafa við þessar aðstæður lagt ríka áherslu á virka þátttöku Íslands í alþjóðasamvinnu sem miðar að því að standa vörð um lýðræði, mannréttindi og alþjóðalög. Samhliða þessu hefur markvisst verið unnið að því að efla þátttöku í varnarsamvinnu og efla innlendan viðbúnað til að mæta þessum nýju öryggisáskorunum.
Utanríkisráðuneytið hefur unnið stutta samantekt um helstu áfanga í vinnu að öryggis- og varnarmálum síðustu ár. Þar kemur fram að búið er efla þátttöku í starfi og verkefnum Atlantshafsbandalagsins, stórauka norrænt varnarsamstarf og aðra svæðisbundna samvinnu og efla samstarf við helstu grannríki í Norður-Evrópu.