Verkefnisstjórn um undirbúning Sundabrautar
Innviðaráðherra hefur skipað verkefnisstjórn um undirbúning Sundabrautar. Verkefnisstjórnin hefur það hlutverk að hafa umsjón með og fylgja eftir undirbúningi framkvæmdarinnar. Bygging brautarinnar er umfangsmikið og flókið verkefni enda er hún ein dýrasta einstaka vegaframkvæmd sögunnar hér á landi. Fyrir liggur að Sundabraut mun hafa í för með sér mikinn samfélagslegan ávinning og því er mikilvægt að undirbúningur framkvæmdarinnar sé í traustum skorðum. Mikilvægt er að tryggja að unnið verði markvisst að undirbúningi framkvæmdarinnar, þar á meðal mati á umhverfisáhrifum, útfærslu valkosta og samkomulagi við Faxaflóahafnir og fyrirtæki í Sundahöfn. Hagsmunaaðilar eru margir og mikilvægt að gott samráð verði viðhaft á öllum stigum verkefnisins.
Skipunartími verkefnisstjórnarinnar takmarkast við ákvörðun ráðherra eða embættistíma hans.
Verkefnisstjórnin er svo skipuð:
Guðmundur Valur Guðmundsson, formaður, fulltrúi Vegagerðarinnar,
Bergþóra Þorkelsdóttir, fulltrúi Vegagerðarinnar,
Sóley Ragnarsdóttir, fulltrúi innviðaráðuneytis,
Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir, fulltrúi Reykjavíkurborgar,
Haraldur Benediktsson, fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga.