Föstudagspósturinn 31. janúar 2020
Heil og sæl.
Tvær vikur eru liðnar frá síðasta föstudagspósti og því er af nógu að taka hvað starfsemi utanríkisþjónustunnar varðar.
Þar sem Bretland gengur formlega úr Evrópusambandinu (ESB) í dag er undirbúningur hafinn að framtíðarsambandi Íslands og Bretlands. Frétt þess efnis birtist síðasta föstudag þar sem fram kom að íslensk stjórnvöld hafi á undanförnum mánuðum undirbúið viðræður við Breta um hvernig framtíðarsambandi ríkjanna verður háttað. Þórir Ibsen, sendiherra, verður aðalsamningamaður og formaður samninganefndar Íslands. Hann ræddi við fréttastofu RÚV í gær ásamt Jóhönnu Jónsdóttur, varaformanni samninganefndar Íslands, um þessi mál. Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, ræddi einnig við RÚV í beinni útsendingu um markmið Íslands sem stefnir að því að ná samningum fyrir árslok.
Fyrr í vikunni undirrituðu utanríkisráðherrar Íslands, Noregs og Liechtenstein samning við Bretland vegna útgöngu Bretlands úr Evrópska efnahagssvæðinu (EES). Bretland gengur úr ESB á grundvelli útgöngusamnings en samningurinn við Ísland og hin EFTA-ríkin innan EES leysir úr viðeigandi útgönguskilmálum með sambærilegum hætti og gert er í útgöngusamningi Bretlands og ESB.
Að sögn utanríkisráðherra er um afar þýðingarmikinn áfanga að ræða. „Ljóst var frá upphafi að margt sem Bretar og ESB sömdu um varðandi útgönguna ætti einnig við um okkur vegna aðildar okkar að EES-samningnum. Þetta þýðir að við stöndum jafnfætis aðildarríkjum ESB þegar kemur að því að leysa úr þessum málum,“ Guðlaugur Þór meðal annars.
Sendiráð Íslands í Lundúnum og Brussel gegna að sjálfsögðu mikilvægu hlutverki í viðræðunum og undirbúningi þeirra. Sendiráðið í Lundúnum hefur í nógu að snúast en þann 25. janúar var komið að Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, að halda kyndli Íslendinga á lofti í jafnréttismálum. Lilja hélt fyrirlestur í lávarðadeild breska þingsins og fjallaði um þrjár meginástæður þess að staða kvenna á íslenskum vinnumarkaði er jafn góð og raun ber vitni.
Málefni tengd útgöngu Breta úr ESB voru einnig ofarlega á baugi í sendiráði okkar í Brussel. Fastafulltrúar Íslands, Noregs og Liechtenstein undirrituðu í gær samning um breytingu á samningi ríkjanna um Eftirlitsstofnun EFTA og EFTA dómstólinn sem tryggir réttindi EES borgara og Breta á aðlögunartímabilinu vegna útgöngu Bretlands úr ESB til loka árs 2020.
Þrátt fyrir að málefni tengd útgöngu Bretlands úr ESB séu vitanlega fyrirferðarmikil í dagskrá ráðherra átti utanríkisráðherra einnig fund með forsvarsmönnum stærstu fyrirtækja í sjávarútvegi í Japan og íslenskum útflytjendum þar sem rætt var um mikilvægi viðskipta þessara þjóða.
Sjávarútvegsmál voru einnig á dagskrá hjá sendiráði okkar í Japan en á dögunum afhenti Elín Flygenring, sendiherra Íslands þar í landi, fyrirtækinu Yamaishi Co. Ltd. verðlaun fyrir framúrskarandi fiskvöru unna úr íslensku hráefni á árlegri verðlaunahátíð samtaka japanskra fiskframleiðenda sem fram fór í Tókýó.
Utanríkisþjónustan heldur að sjálfsögðu mörgum boltum á lofti. Í gær var greint frá því að mikilvægt skref hefði verið tekið í átt að bættum aðgangi íslenskra fjárfesta og viðskiptaaðila að bandaríska markaðnum með framlagningu frumvarps um vegabréfsáritanir fyrir slíka aðila. Verði frumvarpið samþykkt mun það auðvelda íslenskum fyrirtækjum að senda stjórnendur og fjárfesta tímabundið til starfa í landinu. Framlagning frumvarpsins kemur í kjölfar fjölda funda utanríkisráðherra með lykilþingmönnum Bandaríkjaþings.
Og við höldum okkur í Norður-Ameríku en í tilefni þess að 20 ár voru liðin frá stofnun aðalræðisskrifstofu Íslands í Manitoba í Kanada, með útsendum starfsmanni í utanríkisþjónustunni, ákvað ráðherra í fyrra að fela Halldóri Árnasyni fyrrverandi formanni Þjoðræknisfélagsins og Snorrasjóðs, að gera úttekt á starfseminni og bera fram tillögur um það sem betur mætti fara. Úttektin, sem hefur verið kynnt í ríkisstjórn og utanríkismálanefnd verið upplýst um, leiðir í ljós að íslensk stjórnvöld skuli áfram reka aðalræðisskrifstofu í Winnipeg.
Í tilefni þess að fyrsta heildarþýðing fornaldarsagna Norðurlanda á dönsku er komin út stóðu sendiráð Íslands í Danmörku og bókaforlagið Gyldendal fyrir útgáfuhófi sem haldið var í gær. Útgáfan ber heitið Oldtidssagerne og er í heilum átta bindum en tvö bindi á ári hafa birst á undanförnum fjórum árum. Um frumlegan sagnaflokk er að ræða þar sem víkingar, valkyrjur, drekar, dvergar og tröll koma við sögu.
Á mánudaginn síðastliðinn hélt sendiherra Íslands í Svíþjóð, Estrid Brekkan, fyrirlestur innan fyrirlestraraðarinnar „Ástandið í heiminum vorið 2020“ fyrir Háskóla 3ja æviskeiðsins í Uppsala sem telur um 4.000 meðlimi og er opinn þeim sem hafa náð 58 ára aldri eða hafa af öðrum ástæðum farið fyrr á eftirlaun. Fyrirlesturinn bar titilinn „Ísland fyrr og nú“.
Í Noregi heimsótti Ingibjörg Davíðsdóttir sendiherra íslenska fyrirtækið Arctic Trucks sem hefur í yfir 20 ár einnig starfað í Noregi.
Í París tók fastafulltrúi Íslands hjá UNESCO, Kristján Andri Stefánsson, sendiherra í Frakklandi, þátt í pallborðsumræðum um stöðu jafnréttismála innan UNESCO og framlagi kvenna til starfsemi stofnunarinnar og sjálfbærrar þróunar. Viðburðurinn var haldinn í vikunni og var skipulagður af formanni Afríkuhópsins, Rachel Ogoula Akiko, sendiherra Gabon, og bar heitið „Celebrating Women in the UNESCO family“.
Þá var Kristján Andri einnig í beinni útsendingu á sjónvarpsstöðinni FranceInfo í gær þar sem hann sat fyrir svörum hjá Jean Paul Chapel, þekktum fjölmiðlamanni þar í landi, og ræddi við hann um efnahags- og umhverfismál þar sem einkum var komið inn á uppbyggingu efnahagslífsins og hlut ferðaþjónustu í því. Auk þess var rætt um hagnýtingu orkuauðlinda, uppbyggingu orkuveita í strjálbýlu landi og markmið Íslands í loftlagsmálum - einkum hvað varðar orkuskipti í samgöngum.
Setu Íslands í manrréttindaráðinu er nú lokið en fastanefndin í Genf slær ekki slöku við. Undanfarna daga hefur nefndin tekið þátt í jafningjarýni ráðsins og veitti hún meðal annars Gíneu tilmæli um að afglæpavæða samkynhneigð, stöðva barnabrúðkaup og auka vernd blaðamanna og annarra mannréttindafrömuða frá ofbeldi og ofsóknum.
Í sendiráði Íslands í Kína er kórónaveiran vitanlega ofarlega í huga fólks. Óvissuástandi hefur verið lýst yfir á Íslandi vegna kórónaveirunnar vegna mögulegra áhrifa á lýðheilsu og hefur samstarf stofnana verið aukið, og upplýsingamiðlun og vöktun efld eftir þörfum. Hafa Íslendingar í Kína verið hvattir til að skrá sig hjá borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins svo sé hægt sé að hafa samband ef staðan breytist.
Starfsfólk sendiráðsins í Peking fékk raunar klapp á bakið frá námsmanni við háskóla í Peking, Ísey Dísu Hávarsdóttur, sem er ásamt kærasta sínum á ferðalagi í Balí, en búið er að fresta fyrsta skóladegi. „Fólkið sem vinnur hjá sendiráðinu stendur sig frábærlega í því að passa upp á að allir séu upplýstir um gang mála og hafa bent okkur á ýmsar hagnýtar upplýsingar,“ sagði Ísey í samtali við mbl.is.
Með lokum samnorrænu sýningarinnar „Ocean Dwellers“ lauk ári íslenskrar formennsku í norrænu sendiráðunum í Berlín sem tengjast formennskunni í ráðherranefndinni. Um 250 manns voru viðstaddir umræður um hafið og framtíðarþróun í tengslum við loftslagsbreytingar.
Í gær sögðum við svo frá því að Stefán Jón Hafstein, sendiherra við stofnanir Sameinuðu þjóðirnar í Róm, hafi skrifað í vikunni undir formlega samstarfsyfirlýsingu milli Íslands og Alþjóðasjóðs um þróun landbúnaðar (IFAD) um sérfræðiaðstoð Íslendinga við verkefni sjóðsins. Samkomulagið felur meðal annars í sér að IFAD sé boðið að leita eftir sérfræðiaðstoð á ýmsum sviðum þar sem Ísland stendur sterkt að vígi.
Þann 21. janúar hélt utanríkisráðuneytið málþing um framtíð þróunarsamvinnu. Frummælandi var D. Susanna Moorehead, nýr formaður þróunarsamvinnunefndar Efnahags- og framfarastofnunarinnar sem í ræðu sinni hvatti Ísland til þess að halda áfram að vera leiðandi á sviði jafnréttisbaráttu og öðrum framlagsríkjum til eftirbreytni. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra sótti fundinn og kom einnig inn á jafnréttismál í ávarpsorðum sínum.
Við endum föstudagspóstinn á gleðifréttum frá lífskjaralista Sameinuðu þjóðanna. Sé tekið tillit til þess hversu lítill ójöfnuður er hér á landi telst Ísland vera í öðru sæti á lífskjaralista Sameinuðu þjóðanna, á eftir Noregi. Þróunaráætlun Sameinuðu þjóðanna (UNDP) birti fyrir nokkru lífskjaralista fyrir árið 2019 – í skýrslunni Human Development Report – en ójöfnuður er þema skýrslunnar. Á lífskjaralistanum er Ísland í 6. sæti – og hækkar úr 12. sæti frá árinu áður. Samkvæmt sérstökum lista þar sem áhrif ójöfnuðar á lífskjör er reiknaður út færist Ísland upp í annað sætið. Það sýnir að ójöfnuður er minni í íslensku samfélagi en flestum öðrum.