Hoppa yfir valmynd
09. október 2020 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 9. október 2020

Heil og sæl!

Eflaust hafa margir boltaunnendur vaknað með bros á vör í dag eftir sigur karlalandsliðs Íslands á Rúmeníu í gær í umspili um laust sæti á EM í knattspyrnu á næsta ári. Það er engum blöðum um það að fletta að landsliðin okkar hafa veitt gríðarlega landkynningu á síðustu árum og því er ekkert nema gleðiefni að við skulum halda þeim glugga áfram opnum en Ísland leikur úrslitaleik um sæti á EM gegn Ungverjalandi 12. nóvember nk. Nóg um það.

Við hefjum að þessu sinni leik á Alþingi en í vikunni kynnti Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra hluta utanríkisráðuneytisins í fjármálaáætlun og tók í kjölfarið þátt í fjörugum umræðum við þingmenn um utanríkismál vítt og breitt.

Nóg annað hefur verið á dagskrá í vikunni.

Í dag bárust þær gleðiréttir að Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) hefði hlotið friðarverðlaun Nóbels fyrir baráttu stofnunarinnar gegn hungri, fyrir að stuðla að bættum aðstæðum fyrir friði á átakasvæðum, og fyrir aðgerðir til að afstýra því að hungur sé notað sem vopn í átökum.

Utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra sendi WFP heillaskeyti í morgun og óskaði stofnunni auk þess til hamingju á Twitter.

„Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna hefur um langt skeið verið ein af áherslustofnunum Íslands í neyðar- og mannúðaraðstoð og friðarverðlaun Nóbels eru að mínum dómi mjög verðskulduð viðurkenning fyrir ómetanlegt starf á átakasvæðum sem stuðlar að friði,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson.

Congratulations to our partners @WFP on winning the 2020 #NobelPeacePrize. The award is a powerful reminder of the linkages between food security and peace. 🇮🇸 is proud to support the lifesaving food assistance you provide.


Áfram heldur 75. allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í New York. Nefndarstarf hófst í vikunni og stóð fastanefnd Íslands í ströngu ef ekki stórræðum. Í dag flutti Jörundur Valtýsson fastafulltrúi yfirlitsræðu í 1. nefnd um afvopnunarmál fyrir hönd Norðurlandanna og fór vel á því í ljósi úthlutunar friðarverðlauna Nóbels fyrr í dag. Á þriðjudag átti Ísland hlut að sameiginlegu ávarpi 39 ríkja í almennri umræðu í þriðju nefnd allsherjarþingsins (mannréttindanefndinni) þar sem lýst var þungum áhyggjum af ástandi mannréttinda í héruðunum Xinjiang og Tíbet í Kína og þróun nýverið í Hong Kong. Í ávarpinu er rifjað upp að fimmtíu sérstakir erindrekar á vegum mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna hafi sent frá sér ákall í júní sl. þar sem farið var fram á það við stjórnvöld í Kína að virða mannréttindi, ekki síst í Xinjiang og Tíbet. Er tekið undir þetta ákall. Í Xinjiang-héraði hafa kínversk stjórnvöld verið gagnrýnd fyrir að neyða meira en milljón manns í eins konar „pólitískar endurmenntunarbúðir“. Lýsa ríkin þrjátíu og níu áhyggjum af fregnum af grófum mannréttindabrotum í þessu samhengi.

Áfram höldum við í mannréttindamálum en á miðvikudag samþykkti Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna ályktun Íslands um stuðning mannréttindaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna við Filippseyjar. Ályktunin leggur grunninn að uppbyggingu mannréttinda í landinu með stuðningi stofnana Sameinuðu þjóðanna. Ályktunin sem var lögð fram í samstarfi við Filippseyjar í nýliðnum mánuði var samþykkt samhljóða á fundi mannréttindaráðsins í vikunni og kveður á um að filippseysk stjórnvöld skuldbindi sig til að vinna með mannréttindafulltrúanum að umbótum. Auk fulltrúa Íslands og Filippseyja tóku fulltrúar Evrópusambandsins, Mexíkó og Japans til máls við atkvæðagreiðsluna og lýstu yfir stuðningi við ályktunina. Öllu skipti þó að stjórnvöld á Filippseyjum láti verkin tala.

Við sögðum einnig frá því í vikunni að frá og með 1. janúar 2021 munu reglur Evrópska efnahagssvæðisins (EES) um frjálsa för fólks ekki lengur gilda um Bretland og því þurfa þeir Íslendingar sem flytja til Bretlands eftir þann tíma að sækja um vegabréfsáritun og uppfylla ákveðin skilyrði samkvæmt nýju innflytjendakerfi breskra stjórnvalda til þess að fá að dvelja í landinu. Áfram verður þó heimilt að heimsækja Bretland án vegabréfsáritunar.

Í París afhenti Unnur Orradóttir sendiherra Emmanuel Macron forseta Frakklands trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands gagnvart Frakklandi og Andorra. Ræddu þau Unnur og Macron um mikilvægi alþjóðasamvinnu, sérstaklega á tímum heimsfaraldurs sem setti svip sinn á afhendinguna en smitvarnir voru áberandi í Elysée-höll.

Síðustu daga hefur Ísland gerst aðili að nokkrum mikilvægum samevrópskum yfirlýsingum á vettvangi fastaráðs Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE). Á fastaráðsfundi ÖSE í gær voru árásir á almenna borgara í Ngorno-Karabakh fordæmdar í yfirlýsingu ESB, sem Ísland gerðist aðili að. Ísland gerðist einnig aðili að yfirlýsingu ESB til stuðnings fjölmiðlum í Hvíta-Rússlandi á fastaráðsfundinum, en þar eru stöðugar árásir stjórnvalda á skoðana- og málfrelsi fordæmdar. Í tilefni af 18. alþjóðadegi gegn dauðarefsingu, sem verður á morgun, var Ísland meðflytjandi að yfirlýsingu nokkurra ríkja, þar sem m. a. er skorað á Bandaríkin og Hvíta-Rússland að afnema dauðarefsingu. Á fastaráðsfundinum gerðist Ísland einnig aðili að yfirlýsingu ESB um stöðu mála í Moldóvu, þar sem lýst er áhyggjum yfir stöðu mannréttinda, skoðana- og samkomufrelsis og fjölmiðlafrelsis í Transnistríu. Fastafulltrúi Íslands lýsti svo stuðningi við aðild Kýpur að samningnum um opna lofthelgi á lokadegi endurskoðunarráðstefnu samningsins í dag. Var Ísland meðflytjandi í yfirlýsingu rúmlega 30 aðildarríkja um stuðning við aðild Kýpur. Tyrkland hefur beitt neitunarvaldi gegn aðildinni síðan 2002.

Í Genf heldur ferlið áfram við val á nýjum framkvæmdastjóra Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO). Harald Aspelund, fastafulltrúi Íslands gagnvart alþjóðastofnunum í Genf, á sæti í þriggja manna nefnd sem hefur umsjón með valferlinu. Niðurstöður annarrar umferðar kynntar á sérstökum fundi WTO í gær og stendur endanlegt val á milli fulltrúa Nígeríu, Dr. Ngozi Okonjo-Iweala, og Suður-Kóreu, Fr. Yoo Myung-hee.

Myndin af þríeykinu er svo góð að hún á skilið að birtast hér:

Genf: Val á nýjum framkvæmdastjóra Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) stendur nú yfir. Harald Aspelund, fastafulltrúi...

Posted by Utanríkisráðuneytið - utanríkisþjónusta Íslands on Thursday, 8 October 2020

 

Fleira var um að vera í Genf en á laugardaginn síðasta stýrði Harald fundi WTO um viðskiptastefnu Zimbabwe þar sem Ísland tók upp valdeflingu kvenna í viðskiptum. Í hádeginu stýrði hann fundi Vesturlandahópsins (WEOG) um mannréttindaráðið þar sem ályktun Íslands um Filippseyjar var rædd sérstaklega og seinni partinn tók hann þátt í umræðu um stöðu mannréttinda í Súdan fyrir hönd Norðurlandanna þar sem rædd var þróun mála þar í landi.

Á vef sendiráðs okkar í Moskvu segir frá ráðstefnunni Northern Sustainable Development Forum um sjálfbærni á norðurslóðum sem haldin var í lok september í Yakutsk. Er þetta í annað sinn sem hún er haldin og komu þátttakendur úr röðum vísindafólks, stjórnmálamanna og frjálsra félagasamtaka frá Norðurskautsríkjunum. Í ljósi aðstæðna fór ráðstefnan að mestu leyti fram á netinu. Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður og formaður Íslandsdeildar þingmannaráðstefnunnar og norðurskautsmál, kynnti meginþætti norðurslóðastefnu Íslands sem snúa að sjálfbærri þróun, loftslags- og umhverfismálum og fólki búsettu á norðurslóðum. 

Á Facebook-síðu sendiráðs okkar í Kampala er í dag vakin athygli á þjóðhátíðardegi Úganda en 58 ár eru nú liðin frá því að ríkið varð sjálfstætt. Í tilefni dagsins var brúin Source of the Nile upplýst með fánalitum Úganda.

 

Today the source of the Nile bridge in Jinja is lit in the colors of the national flag in honor of Uganda 58th year of...

Posted by Embassy of Iceland in Kampala on Thursday, 8 October 2020

Sendiráð okkar víðs vegar um heim voru dugleg að kynna Friðarsúluna í Viðey í vikunni. Þetta listaverk Yoko Ono er til minningar um John Lennon, eiginmann hennar sem hefði orðið áttræður í dag. Verkið er hugsað sem leiðarljós fyrir heimsfrið og er boðskapurinn vafalaust hollt veganesti inn í helgina á þeim umrótatímum sem við lifum en við endum þessa yfirferð á tilvitnun í Yoko Ono um Friðarsúluna:

„Ég vona að friðarsúlan muni lýsa upp heitar óskir um heimsfrið hvaðanæva að úr veröldinni og veita hvatningu, innblástur og samstöðu í heimi þar sem nú ríkir ótti og ringulreið. Sameinumst um að gera friðsæla veröld að veruleika.“

 

10月9日アイスランド時間21時(日本時間10日朝6時)より、今年もオノ・ヨーコ氏によるイマジンピースタワーが点灯されます。 イマジンピースタワーはオノ・ヨーコ氏が平和を願って創ったアート作品で、主に10/9~12/8のレノン氏の誕生日から...

Posted by Embassy of Iceland in Tokyo / 駐日アイスランド大使館 on Friday, 9 October 2020

Með kærleikskveðju,

uppló

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta