Hoppa yfir valmynd
30. apríl 2021 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 30. apríl 2021

Heil og sæl.

Tvær vikur eru nú liðnar frá síðasta föstudagspósti og því af nógu að taka úr starfsemi utanríkisþjónustunnar frá því síðast.

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, og Anthony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna áttu símafund síðastliðinn miðvikudag. Í samtali sínu ræddu þeir fyrirhugaða heimsókn Blinkens hingað til lands vegna ráðherrafundar Norðurskautsráðsins sem haldinn verður í Reykjavík 20. maí næstkomandi. Þá ræddu þeir einnig tvíhliða samskipti Íslands og Bandaríkjanna.

„Fyrirhuguð heimsókn Tony Blinken hingað til lands sýnir ekki aðeins áhuga nýrrar ríkisstjórnar í Bandaríkjunum á Norðurskautsráðinu heldur einnig vilja hennar til að halda áfram þeirri góðu samvinnu sem Ísland og Bandaríkin hafa átt um árabil. Slíkar heimsóknir veita mikilvægt tækifæri til að efla tengsl ríkjanna enn frekar, þeim báðum til hagsbóta,“ sagði Guðlaugur Þór eftir fundinn.

Ráðherra tók auk þess þátt í sérstökum hringborðsumræðum um loftslagsmál í síðustu viku í tengslum við leiðtogafund forseta Bandaríkjanna, Joe Biden, með stærstu ríkjum heims. Til hringborðsumræðunnar boðaði John Kerry, sérstakur erindreki Bandaríkjastjórnar í loftslagsmálum og fyrrverandi utanríkisráðherra. Guðlaugur Þór skrifaði auk þess grein um loftslagsmál, sem birtist í Morgunblaðinu í gær, þar sem hann sagði ekki lengur nóg að tala um loftslagsbreytingar, heldur væri kominn tími aðgerða.

Þá urðu þau tímamót í vikunni að Íslandsstofa og systurstofa hennar í Svíþjóð, Business Sweden, gerðu með sér samkomulag sem tryggir íslenskum fyrirtækjum aðgang að alþjóðlegu neti viðskiptafulltrúa Business Sweden, en Guðlaugur Þór kynnti samkomulagið í ávarpi á ársfundi Íslandsstofu á miðvikudag.

Fyrr í mánuðinum gerðist Ísland aðili að samstarfsvettvangi líkt þenkjandi ríkja í Norður-Evrópu um öryggis- og varnarmál, sem Bretar leiða undir merkjum sameiginlegrar viðbragðssveitar (e. Joint Expeditionary Force, JEF). Sturla Sigurjónsson, sendiherra Íslands í London, undirritaði samkomulag þess efnis, ásamt Ben Wallace, varnarmálaráðherra Bretlands, og í gær tók Guðlaugur Þór þátt í fjarfundi varnamálaráðherra í samstarfinu. „Sú stefna sem Bretar hafa nú markað til næstu ára hefur það að markmiði að geta séð fyrir framtíðaráskoranir á sviði öryggis- og varnarmála og brugðist við þeim. Öryggisumhverfi Evrópu hefur gerbreyst á undanförnum árum og okkar nánustu bandalags- og vinaríki hafa séð sig knúin til að auka framlög sín til varnarmála, Eystrasaltsríkin og Svíþjóð eru dæmi um það. Þetta skiptir miklu máli fyrir öryggi og varnir Íslands á viðsjárverðum tímum,“ sagði Guðlaugur Þór.

Líkt og Guðlaugur Þór benti á í grein sinni í Fréttablaðinu í vikunni hafa norðurslóðir verið í brennidepli undanfarin ár og voru einmitt tvær þingsályktunartillögur tengdar norðurslóðum til umræðu á Alþingi í vikunni; annars vegar þingsályktunartillaga um endurskoðaða norðuslóðastefnu og hins vegar um aukið samstarf Grænlands og Íslands á grundvelli tillagna Grænlandsnefndar.

Norðurslóðir voru einnig áberandi í dagskrá ráðherra síðustu tvær vikur. Á ráðstefnu áheyrnaraðila Norðurskautsráðsins 21. apríl síðastliðinn áréttaði Guðlaugur Þór gildi laga og réttar á norðurslóðum og vægi Norðurskautsráðsins í samstarfi um svæðið. Degi síðar flutti ráðherra ávarp og sat fyrir svörum á vefviðburði um sjálfbæra framtíð á norðurslóðum, sem haldinn var í samvinnu við Arctic Initiative hjá Harvard Kennedy School og Polar Institute hjá Woodrow Wilson Center í Bandaríkjunum, og þá tók ráðherra þátt í rafrænu útgáfuhófi á miðvikudag vegna skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) um efnahagslega kosti góðra loftgæða á norðurslóðum. Útgáfuhófið var haldið í samstarfi formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu og OECD.

Tvíhliða samráðsfundur Íslands og Frakklands um Evrópumál fór fram í síðustu viku. Nikulás Hannigan, skrifstofustjóri viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, og David Cvach, skrifstofustjóri Evrópumála í utanríkisráðuneyti Frakklands leiddu fundinn. Á fundinum var meðal annars rætt um áherslur Íslands hvað varðar markaðsaðgang fyrir fisk og landbúnaðarsamning Íslands og ESB. Ítrekuð var andstaða Íslands við það að bóluefnaútflutningur til EFTA-ríkjanna innan EES sæti eftirliti en það telst vera brot á EES-samningnum.

En snúum okkur þá að sendiskrifstofunum okkar um allan heim.

Það hefur verið í nógu að snúast hjá starfsfólki okkar í sendiráði Íslands í Malaví, en þar hefur fjöldi heimamanna tekið þátt í þjálfun í því að stjórna svokölluðum rakarastofuráðstefnum. Tilgangur rakarastofuráðstefnanna er að skapa körlum svigrúm til að ræða jafnréttismál og hvernig þeir geta beitt sér gegn kynjamisrétti og stuðað að kynjajafnrétti í sínu nærumhverfi.

 

 

Þá setti Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna, með stuðningi frá Íslandi, upp bólusetningamiðstöð í Dzaleka flóttamannabúðunum í Malaví þar sem 43 þúsund flóttamönnum verður boðin bólusetning gegn COVID-19.

Þann 28. apríl fór fram fundur sameiginlegu EES-þingmannanefndarinnar með Evrópuþinginu. Þar sem Ísland er í formennsku fastanefndar EFTA kom það í hlut sendiherra Íslands í Brussel, Kristjáns Andra Stefánssonar, að ávarpa fundinn fyrir hönd EES-EFTA ríkjanna. Í ávarpinu fór hann meðal annars yfir málefni tengd COVID-19, innleiðingu EES gerða, innri markaðinum og þátttöku í áætlunum ESB.

Fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum í New York tók í vikunni þátt í umræðum um sjálfbæra matvælaframleiðslu, og lagði þar áherslu á skólamáltíðir og heimsmarkmið 14 um líf í vatni, með áherslu á nauðsyn þess að berjast gegn ólöglegum, óheftum og óskráðum veiðum.

Ragnhildur Arnljótsdóttir, fastafulltrúi Íslands hjá Evrópuráðinu, undirritaði á dögunum endurnýjaðan evrópskan samframleiðslusamning við EURIMAGES fyrir Íslands hönd. EURIMAGES er sjóður á vegum Evrópuráðsins sem veitir styrki til samframleiðslu evrópskra kvikmynda en fjölmargar íslenskar íslenskar kvikmyndir hafa hlotið styrki úr sjóðnum.

Í Heimsljósi var vakin athygli á því að í þessum mánuði eru liðin fimmtíu ár frá því fyrstu lögin um opinbera alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands voru samþykkt á Íslandi. Ólafur Björnsson hagfræðingur og þingmaður Sjálfstæðisflokksins var aðalhvatamaðurinn að stofnuninni og flutti allmargar þingsályktunartillögur um þróunarsamvinnu, allt frá árinu 1965.

Fleira var það ekki í bili.

Góða helgi!

Upplýsingadeild

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta