Föstudagspósturinn 2. júní 2023
Heil og sæl,
Föstudagarnir koma á færibandi þessa dagana. Við tökum því að sjálfsögðu fagnandi og njótum þess að líta yfir viðburði vikunnar í utanríkisþjónustunni.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra var stödd í Noregi í vikunni þar sem hún átti tvíhliða fundi með utanríkisráðherra, þróunarsamvinnuráðherra, varnarmálaráðherra og ráðherra utanríkisviðskipta en eins og við vitum heyra allir þessir málaflokkar undir utanríkisráðherra á Íslandi. Á fundunum báru hæst þau djúpstæðu áhrif sem innráðsarstríð Rússlands í Úkraínu hefur haft á fjölda málaflokka í alþjóðlegu samstarfi en einnig var rætt um samvinnu Íslands og Noregs á ýmsum sviðum og hvernig dýpka megi samstarfið enn frekar.
Heimsóknin kemur til af óformlegum utanríkisráðherrafundi Atlantshafsbandalagsins sem fór fram á miðvikudag og fimmtudag en á fundinum gafst utanríkisráðherrunum tækfifæri til þess að bera saman bækur sínar fyrir leiðtogafund bandalagsins sem haldinn verður í Vilníus í Litháen 11. - 12. júlí. Auk þess að hittast á fundinum komu utanríkisráðherrar bandalagsríkjanna, ásamt boðsríkinu Svíþjóð saman til vinnukvöldverðar. Fyrir fundinn tóku Haraldur Noregskonungur og Hákon krónprins á móti utanríkisráðherrunum í konungshöllinni Ósló. Þá tóku ráðherrarnir þátt í minningarathöfn um fórnarlömb hryðjuverka og öfgahyggju sem haldin var við minningarreit um þau sem létust í hryðjuverkaárásunum í Ósló og Útey 22. júlí 2011.
Sameiginlega viðbragssveitin (Joint Expeditionary Force, JEF) sem Bretar leiða ásamt Norðurlöndunum, Eystrasaltsríkjunum og Hollandi setur í æfingaskyni upp færanlega herstjórnarmiðstöð á öryggissvæðinu í Keflavík í júní. JEF er samstarfsvettvangur líkt þenkjandi Norður-Evrópuríkja um öryggis- og varnarmál með áherslu á norðurslóðir, Norður-Atlantshafið og Eystrasaltið. „Við höfum markvisst verið að auka og þétta samstarf við okkar grannríki í öryggis og varnarmálum og er JEF samstarfið mjög mikilvægur hluti af því. Þannig tryggjum við í sameiningu skjótvirkt og sveigjanlegt viðbragð í hugsanlegu hættuástandi,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.
Þá samþykkti ríkisstjórnin á fundi sínum síðastliðinn föstudag að veita 5 milljónum króna til Háskóla Íslands vegna verkefnis um menningarsamstarf við Úkraínu. Utanríkisráðuneytið hyggst styrkja verkefnið um 4 milljónir króna.
Þá beinum við sjónum að sendiskrifstofunum.
Sendiherra Íslands í Moskvu sem einnig fer með fyrirsvar gagnvart Moldóvu, Árni Þór Sigurðsson, tók þátt í heimsókn Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra þangað, þar sem hún sótti leiðtogafund hins pólitíska bandalags Evrópuríkja (European Political Community, EPC) sem fram fór skammt frá Chisinau, höfuðborg Moldóvu.
Sendiherra Íslands í Berlín María Erla Marelsdóttir, sem er sendiherra Íslands gagnvart Tékklandi, og staðgengill sendiherra, Ágúst Már Ágústsson tóku nýlega þátt í móttöku í Prag sem haldin var sameiginlega af sendiráðum Norðurlandanna og Eystrasaltslandanna ásamt sendiráði Úkraínu. Tilefni móttökunnar var að sýna samstöðu með Úkraínu á þessum erfiðu tímum og auka tengslin við aðila í Tékklandi. Ríkin sem buðu í móttökuna voru með kynningarborð og hélt kjörræðismaður Íslands í Prag, Klará Dvořáková utan um íslenska borðið af miklum myndarskap. Þá heimsóttu sendiherra og staðgengill íslenska bakaríið Artic Bakehouse sem staðsett er á nokkrum stöðum í Prag og nýtur mikilla vinsælda.
Frá fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum í New York bárust þær fréttir að forseti 78. allsherjarþings SÞ hafi nú verið kjörinn. Hann tekur við embætti í september. Ísland var sömuleiðis kjörið í embætti varaforseta þingsins og mun því fundarhamarinn góði, Ásmundarnautur, vera í öruggum höndum.
We have a President-elect. Many and warm congratulations to H.E. Dennis Francis of @Trinbago_UN 🇹🇹 on his election by 👏👏 to become President of #UNGA78. You will have 🇮🇸 full support in our common pursuit of peace, prosperity, progress and sustainability 🇺🇳 pic.twitter.com/T2HQQ0f02m
— Jorundur Valtysson 🇮🇸 (@jvaltysson) June 1, 2023
Kennarar og nemendur Matvæla- og næringarfræðideildar Háskóla Íslands hafa verið í heimsókn í Malaví undanfarnar tvær vikur. Hópurinn er í Malaví til þess að kynna sér landið, starfsumhverfi og áskoranir, þá sérstaklega hvað varðar næringu og fiskvinnslu. Í Mangochi héraði sótti hópurinn heim fiskvinnslur, heilsugæslustöð og skóla þar sem þau fylgdust með matreiðslu heimaræktaðra skólamáltíða og kennslustund í næringarfræði.
Yfir eitt þúsund stelpur og strákar á aldrinum 12-14 ára tóku þátt í fótboltamótum á vegum Ascent Soccer í samstarfshéruðum Íslands Mangochi og Nkhotakota. Ascent Soccer er knattspyrnuakademía sem er starfrækt í Lilongwe og býður ungu og efnilegu knattspyrnufólki tækifæri til að sækja sér nám samhliða því að æfa við bestu aðstæður sem völ er á í Malaví. Gaman er að segja frá því að 3. flokkur Ascent mun koma til Íslands í sumar til að taka þátt á Rey Cup og er undirbúningur langt á veg kominn. Verður þetta í fyrsta sinn sem ungmennalið frá Malaví sækir mót utan álfunnar.
Sendiráðið í Peking stóð fyrir ferðaþjónustukynningu í samvinnu við Hiwing Air Travel, í tilefni af 20 ára samstarfsafmæli með Icelandair. Fleiri en 80 fulltrúar frá 38 ferðaskrifstofum sóttu kynninguna, auk fulltrúa frá SAS, Air China, Juneyao Air og utanríkis- og ferðamálaráðuneytum Kína.
Celebrating 20 years of successful cooperation between @Icelandair and Hiwing Air Travel with lively tourism promotion event at the Embassy of #Iceland 🇮🇸 in China 🇨🇳 @MFAIceland pic.twitter.com/bY49Ujh7XX
— Thorir Ibsen (@ThorirIbsen) May 30, 2023
Vikan var viðburðarrík hjá sendiráði Íslands í Ottawa en dagana 29. maí til 1. júní voru forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid forsetafrú í Kanada í boði Mary Simon, landstjóra Kanada, í fyrstu ríkisheimsókn Íslands til landsins frá árinu 2000. Með þeim í för var Lilja Alfreðsdóttir, viðskipta- og menningarmálaráðherra. Heimsóknin hófst á mánudaginn með opnunarathöfn á sólríkum degi í landstjórasetrinu Rideau Hall í höfuðborginni Ottawa, sem er einmitt fæðingarstaður Elizu Reid forsetafrúar.
Forsetahjónin héldu síðan til Halifax í Nova Scotia og St. John’s í Newfoundland og Labrador ásamt sendinefnd sem var meðal annars skipuð Hlyni Guðjónssyni sendiherra og ýmsum fulltrúum úr viðskiptalífinu, sérstaklega á sviði grænnar orku, heilsutækni og nýsköpun í bláa hagkerfinu, sem voru helstu áhersluefni heimsóknarinnar, auk lýðheilsu ungmenna og varðveislu tungumála. Forsetahjónin og sendinefndin tóku þátt í fjölda viðburða og funda sem miðuðu að því að stuðla að samvinnu á þessum sviðum og styrkja enn frekar margþætt tengsl landanna. Þrátt fyrir óheppilega seinkun á flugi til Toronto á síðasta degi þótti heimsóknin hafa heppnast stórkostlega vel og vera táknræn fyrir áframhaldandi vináttu og samstarf þjóðanna tveggja.
Iceland’s first State Visit since 2000 is off to the races. Thank you to @GGCanada and @JustinTrudeau for the warm welcome and a productive first day for @PresidentISL, @elizajreid, and our entire delegation. pic.twitter.com/PaWkBN6FvQ
— Iceland in Canada 🇮🇸 (@IcelandinCanada) May 29, 2023
Sendiráðið í Varsjá tók þátt í alþjóðlegri ráðstefnu um sjálfbæra þróun, þar sem meðal annars var fjallað um Ísland. Fulltrúi okkar, Emiliana Konopka, ræddi þar um þátttöku ungra Íslendinga í því að skapa sjálfbærara samfélag.
Sendiráðið í Ósló greindi að sjálfsögðu frá heimsókn ráðherra og sendinefndar í vikunni á sínum samfélagsmiðlum en sem fyrr segir sótti hún þar óformlegan fund utanríkisráðherra bandalagsríkja Atlantshafsbandalagsins og fundaði með samstarfsráðherrum sínum í Noregi.
Í Tókýó tók sendiherrann Stefán Haukur Jóhannesson þátt í málþingi um jafnrétti í tilefni af úttekt á stöðu mannréttinda í Japan. Þar lagði sendiherrann áherslu á þátt karlmanna í jafnréttisbaráttunni.
昨日、ステファン大使は公益財団法人ジョイセフが衆議院会館で開催した国連「UPR審査」 ジェンダー・SRHR(性と生殖に関する健康と権利)に関する人権改善勧告院内勉強会に参加し、#ジェンダー平等 とSRHR、有害な男性性の撤廃と、平等に向けて男性の参画の重要性に焦点を当てた提言を展開しました。 https://t.co/VafhiqrfaE
— IcelandEmbTokyo (@IcelandEmbTokyo) June 1, 2023
Í Strassborg tóku Lettar formlega við formennskunni í ráðherranefnd Evrópuráðsins en eins og frægt er orðið afhenti Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra Edgars Rinkēvičs, þáverandi utanríkisráðherra Lettlands, sem nú er orðinn forseti landsins (skjótt skipast veður) fundarhamar í lok leiðtogafundarins í Reykjavík og var hann notaður nokkrum sinnum á fundinum.
Our dear Latvian friends have taken over the Presidency of the @coe Committee of Ministers 🇱🇻👏
— Iceland at CoE 🇮🇸 (@IcelandCoE) May 31, 2023
Follow @LatviaCoE for everything on the Latvian Presidency! #LVCoE2023 pic.twitter.com/3R8pUUBT0h
Sendiráð Íslands í London deildi fréttum af því að Ísland hefði hafið þátttöku í þjálfunarverkefni fyrir úkraínska hermenn. Bretland leiðir verkefnið sem miðar að því að þjálfa leiðbeinendur í bráðameðferð á stríðssvæðum. Leiðbeinendurnir geta svo miðlað þekkingu sinni áfram til annarra hermanna en reynslan hefur leitt í ljós að rétt viðbrögð á vígvellinum geta aukið mjög lífslíkur og batahorfur þeirra sem særast í átökum.
Þá greindi sendiráð Íslands í London líka frá því að íslensk list væri í fyrsta sinn til sýnis í Caodgan Fine Arts á norrænni sumarsýningu sem mun standa yfir dagana 9. - 22. júní.
Í Washington gíraði Bergdís Ellertsdóttir sendiherra sig upp fyrir Pride göngu en þar í borg er júnímánuður tileinkaður réttindabaráttu hinsegin fólks.
Norræn sendiráð í Washington fylktu liði í göngunni.
Happy #PrideMonth2023 ! Follow along with the #Nordic Embassies leading up to the DC #PrideParade! Nordics stand in support of inclusion and acceptance, not only during Pride Month, but every day 🇮🇸🇩🇰🇳🇴🇫🇮🇸🇪 🌈🏳️🌈 #Nordics4Equality #pridemonth #loveislove pic.twitter.com/rWG0XuGfgY
— Iceland in US 🇮🇸 (@IcelandInUS) June 1, 2023
Föstudagspósturinn verður ekki lengri að sinni.
Upplýsingadeildin minnir að endingu á Heimsljós, fréttaveitu okkar um þróunar- og mannúðarmál og óskar ykkur góðrar helgar!