Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

20. nóvember 2019 Guðlaugur Þór Þórðarson

Norrænt varnarsamstarf í áratug

Norræna varnarsamstarfið (NORDEFCO) fagnar nú tíu ára afmæli sínu. Samstarfið er náið og tekur til aðgerða sem leiða til betra öryggis á Norðurlöndum. Núna erum við að bæta við frekari úrræðum til að vera betur í stakk búin til að takast á við hættuástand.

Norðurlöndin eru tengd gegnum landfræðilega legu sína, sögu, menningu og gildi, en jafnframt berum við sameiginlega ábyrgð á að varðveita frið og stöðugleika í okkar heimshluta. Við erum öll háð aðgengi að vörum, höfnum, starfhæfum og samtengdum innviðum og flutningsleiðum sem tengjast yfir landamæri okkar. Sameiginlegir hagsmunir okkar eru að tryggja öryggi í Norður-Evrópu.

Við lifum válega tíma þar sem nýjar áskoranir og ógnir valda óöryggi hjá fólki. Þess vegna þurfum við að vera reiðubúin til að verja lýðræðissamfélög okkar. Ef meiri háttar öryggisvá steðjaði að Norðurlöndunum, myndi það hafa áhrif á okkur öll. Í því skyni að uppfylla sameiginlega ábyrgð okkar á öryggismálum í heimshlutanum, þurfum við að halda áfram að efla sameiginlega viðbúnaðargetu okkar. Á fundi ráðherra sem fara með varnarmál höfum við því lýst yfir stuðningi við samráðsvettvang NORDEFCO sem ætlað er að bæta upplýsingaskipti okkar og samráð ef upp kemur hættuástand eða átök.

Tilgangur norræna varnarsamstarfsins er að efla varnargetu hvers og eins aðildarríkis, kanna samlegðaráhrif og greiða leið skilvirkra, sameiginlegra lausna. Þessi sýn hefur verið leiðarljós vinnu okkar frá upphafi og er enn í dag grundvöllur norræna varnarsamstarfsins.

Ólögmæt innlimun Krímskaga í Rússland árið 2014 og áframhaldandi íhlutun í austanverðri Úkraínu hefur leitt til verra ástands öryggismála í okkar heimshluta og leitt þar til hernaðaruppbyggingar. Framganga Rússa heldur áfram að auka á spennu í alþjóðasamskiptum. Netárásir, upplýsingaöflunaraðgerðir og njósnir eru aðrar öryggisógnir sem við stöndum öll frammi fyrir. Núverandi staða öryggismála hefur haft áhrif á öll ríki okkar, sem og á hið norræna varnarsamstarf okkar.

Við berum öll ábyrgð á að viðhalda friði og öryggi í okkar heimshluta. Þetta gerir að verkum að samstarf okkar er enn nauðsynlegra en áður.

Nú þegar við fögnum tíu ára afmæli NORDEFCO er ljóst að sameiginleg viðleitni okkar hefur leitt til margra áþreifanlegra og árangursríkra lausna. Fyrst í stað var aðaláhersla okkar á að skapa skilvirkar og hagkvæmar lausnir með gagnkvæmum ávinningi, ekki aðeins í nærumhverfi okkar, heldur einnig á alþjóðavísu. Við komum á samstarfi um samnýtingu úrræða á sviði flugstarfsemi (Nordic Tactical Air Transport (NORTAT)) og efldum samstarf okkar innan alþjóðlegra hernaðaraðgerða, til dæmis í Afganistan. Þetta samstarf hefur haldið áfram nýverið í Malí. Við þróuðum hið árangursríka Cross Border Training æfingaverkefni með því að nýta okkur loftrými Finnlands, Noregs og Svíþjóðar.

Síðan árið 2014 hefur samstarf okkar orðið sífellt aðgerðamiðaðra og þá með áherslu á stöðu öryggismála í nærumhverfi okkar. Á síðastliðnum árum höfum við komið upp öruggum samskiptaleiðum milli höfuðborga okkar, við höfum auðveldað aðgengi að yfirráðasvæðum hvers annars og við höfum gripið til ráðstafana til að bæta stöðumat með því að þróa getu til að miðla loftrýmiseftirlitsupplýsingum. Við höfum einnig náð samkomulagi um ráðstafanir sem gera norrænum loftförum kleift að nota lendingarstaði í öðrum norrænum ríkjum, til dæmis þegar þörf krefur vegna veðurfarsástæðna. Annað dæmi um náið samstarf okkar er loftrýmisæfingin Arctic Challenge Exercise fyrr á þessu ári, sem metin var sem hágæðaæfing og framkvæmd í náinni samvinnu við Bandaríkin. Þessar norrænu æfingar styðja við áframhaldandi öryggis- og varnarmálasamstarf milli NATO og samstarfsríkja þess, samanber Trident Juncture 2018 æfinguna sem haldin var í fyrra.

Við samþykktum framtíðarsýn fyrir NORDEFCO til 2025 árið 2018 og þau markmið sem þar koma fram eru leiðarvísir fyrir starf okkar í framtíðinni. Þar kemur fram sá sameiginlegi skilningur að alvarlegar öryggisógnir á Norðurlöndum hefðu áhrif á okkur öll, og að við þurfum að vera undirbúin og með búnað til að bregðast sameiginlega við jafnt í friði, við hættuástand og í átökum.

Með því að koma á fót samráðsvettvangi vegna hættuástands hjá NORDEFCO náum við einnig að efla samstarfsgetu okkar við slíkar aðstæður. Þessi nýi vettvangur gerir okkur kleift að komast að sameiginlegu stöðumati við aðstæður á borð við hættuástand eða átök. Aðildarríki NORDEFCO geta átt í samráði við hvert annað hvenær sem svæðisbundnum stöðugleika, friðhelgi yfirráðasvæðis eða öryggi þeirra er ógnað. Þennan vettvang má einnig nýta til að skiptast á skoðunum og samræma afstöðu gagnvart alþjóðaviðburðum í uppsiglingu sem áhrif gætu haft á Norðurlöndunum eða þar sem norrænu ríkin hafa sameiginlegra hagsmuna að gæta.

Við munum halda áfram að efla vægi NORDEFCO sem vettvangs fyrir umræðu um stefnumótun í öryggis- og varnarmálum og fyrir skilvirkt, áþreifanlegt samstarf. Náið samstarf Norðurlandanna í varnarmálum eykur hernaðargetu okkar og styrkir samstarfshæfni okkar. Við sameiginlegar æfingar og þjálfun eflum við innlenda getu hvers og eins og hæfni okkar í að standa sameiginlega að verkefnum. Samtímis sendum við skýr skilaboð til mögulegra árásaraðila um að við munum verjast ef þörf krefur.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra
Trine Bramsen, varnarmálaráðherra Danmerkur
Antti Kaikkonen, varnarmálaráðherra Finnlands
Frank Bakke-Jensen, varnarmálaráðherra Noregs
Peter Hultqvist, varnarmálaráðherra Svíþjóðar

Greinin birtist á vefsíðu Fréttablaðsins og í fleiri norrænum miðlum 20. nóvember 2019

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta