Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

11. febrúar 2021 Guðlaugur Þór Þórðarson

Grannríkjasamstarfið gulls ígildi

Við sjáum merki þess að heimsfaraldurinn hafi magnað upp aðrar áskoranir á alþjóðavettvangi, að friðarhorfur versni og að þróunar- og mannúðarmálum fari hrakandi. Það kallar á meiri alþjóðasamvinnu, ekki minni. Baráttan við kórónuveiran vinnst svo endanlega með þróun og dreifingu bóluefnis um víða veröld, því enginn er óhultur fyrr en allir eru óhultir. Veiran virðir engin landamæri og eina leiðin til að stemma stigu við útbreiðslu hennar er að ríki heims vinni saman að sóttvörnum en standi um leið vörð um utanríkisviðskipti og vöruflutninga. Það hefur að mestu tekist sem er alls ekki sjálfgefið. 
Við þessar aðstæður er mikilvægt að hafa trausta fótfestu. Það höfum við Íslendingar með aðild að alþjóðastofnunum og -samningum, en ekki síður í gegnum virkt svæðasamstarf og tvíhliða samskipti við önnur ríki. Norrænt samstarf og samvinna Norðurlanda og Eystrasaltsríkja (NB8) skiptir þar miklu máli. 

Fjarfundir frekar en flugferðir

Í fyrra tók ég þátt í 31 ráðherrafundum með Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum. Þetta er metfjöldi og hefur mikill meirihluti verið fjarfundir á netinu. Að mínu mati hefur reynslan af fjarfundum verið svo góð að full ástæða er til að halda þeim áfram. Ég hef þess vegna lagt til við kollega mína á Norðurlöndum að taka höndum saman við að hvetja stofnanir og aðra til að fjölga fjarfundum og minnka þannig kolefnisspor, spara og færa alþjóðasamskipti inn í 21. öldina. Ég hef nýtt alla þessa fundi til að útskýra hagsmuni Íslands fyrir samstarfsríkjum og óska liðveislu í einstökum málum. Ég hef einnig lagt mig fram um að hlusta og læra af reynslu annarra enda þarf hvort tveggja til að ná árangri í alþjóðasamskiptum: Að standa með sjálfum sér og þekkja hagsmuni annarra. 

Ísland í forystu grannríkjasamstarfs

Ísland gegndi formennsku í Norðurlanda- og NB8-samstarfinu áður en heimsfaraldurinn brast á. Á formennskuárinu bar hæst tveggja daga ráðherrafund Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna í Borgarnesi í september 2019 og svo sameiginleg norræn ákvörðun tveimur mánuðum síðar um tillögu mína að fela Birni Bjarnasyni að gera tillögur um aukið samstarf á sviði utanríkis- og öryggismála, svipað og Thorvald Stoltenberg gerði í frægri skýrslu áratug fyrr. Þessi samstaða lýsir miklu trausti í garð okkar Íslendinga og hin svokallaða “Bjarnason Report“ hefur verið lofuð sem góður grunnur að frekara samstarfi, nú síðast á vel heppnuðum fjarfundi á vegum Norðurlandaráðs fyrr í þessari viku. Með þessu frumkvæði Íslands höfum við sýnt að við erum ekki bara þátttakendur í Norðurlandasamstarfinu heldur getum við líka mótað áherslur þess og framtíðarstefnu. 
Við höfum einnig gegnt formennsku í Norðurskautsráðinu í tæp tvö ár. Þeirri formennsku lýkur á ráðherrafundi sem vonandi fer fram hérlendis í maí með þátttöku Bandaríkjanna, Rússlands og Kanada, auk Norðurlandanna og fjölda áheyrnarríkja og annarra. Ég nefni þetta hér því vel undirbúin og fagmannlega framkvæmd formennska í norrænni samvinnu, í NB8-samstarfinu og í Norðurskautsráðinu hefur styrkt stöðu Íslands og þjónað íslenskum hagsmunum. 

Staða Íslands sterk

Alls staðar í þessu fjölbreytta samstarfi höfum við lagt áherslu á mannréttindi, öryggismál þ.m.t. netöryggi, á hagsmuni á norðurslóðum og umhverfismál. Viðskiptasamstarf er svo ávallt í forgrunni. Þar er mikilvægt að hafa í huga að samanlagt eru Norðurlöndin eitt stærsta „viðskiptaríki“ Íslands þegar litið er til inn- og útflutnings á vörum og þjónustu, sjónarmun á eftir Bandaríkjunum. Í gegnum fótfestu okkar í samstarfi Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna er staða Íslands því sterk. Og þegar efnahagslífið fer aftur á fullt þegar farsóttin rénar bendir margt til þess að viðskipti milli þessara vinaríkja muni aukast enn frekar. Sú vinna sem við í ráðuneytinu höfum lagt í undanfarin misseri við að búa í haginn fyrir vaxandi utanríkisviðskipti á því án efa eftir að koma sér vel.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 11. febrúar 2021

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta