Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

07. júní 2022 Þórdís KRG - UTN

Samstaða um öryggi

Vestræn ríki hafa staðið þétt saman í fordæmingu  á ólögmætri innrás Rússlands í Úkraínu. Pólitísk samstaða ríkir um þvingunaraðgerðir og framlög til mannúðaraðstoðar, hergagna og búnaðar. Atlantshafsbandalagið hefur jafnframt brugðist við af festu og sannað gildi sitt sem máttarstoð öryggis og varna bandalagsríkjanna.

Innrásin hefur líka orðið til þess að ríki Evrópu endurskoða fyrirkomulag öryggis- og varnarmála. Aðildarumsókn Finnlands og Svíþjóðar að Atlantshafsbandalaginu er skýrasta birtingarmynd þess. Ísland fagnar ákvörðunum Finnlands og Svíþjóðar verður allt kapp lagt á að fullgilda aðildarsamninga ríkjanna eins skjótt og þeir hafa verið undirritaðir.

Ísland gegnir um þessar mundir formennsku í Norðurhópnum, samráðsvettvangi tólf Norður-Evrópuríkja í varnar- og öryggismálum. Varnarmálaráðherrar þeirra funda hér á landi í vikunni og verður breytt staða öryggismála og viðbrögð við innrás Rússlands í Úkraínu í brennidepli. Í Norðurhópnum eru tíu aðildarríki að Atlantshafsbandalaginu, ásamt Finnlandi og Svíþjóð.

Í formennskunni í Norðurhópnum, sem Ísland gegnir nú í fyrsta sinn, felst dýrmætt tækifæri til að efla innsýn og skilning samstarfsríkja okkar á fyrirkomulagi öryggis og varna Íslands sem endurspeglar sérstöðu okkar sem herlaust ríki. Liður í fundardagskránni er heimsókn ráðherranna á öryggissvæðið á Keflavíkurflugvelli þar sem þeir kynna sér varnarinnviði.

Varnarinnviðir á öryggissvæðunum eru mikilvægasta framlag Íslands til fjölþjóðasamstarfs í öryggis- og varnarmálum. Undanfarin ár hefur verið unnið að uppfærslu varnarmannvirkja, -búnaðar og aðstöðu. Gistiaðstaða hefur verið bætt fyrir liðssveitir bandalags- og samstarfsríkja sem hingað koma til að sinna verkefnum á borð við loftrýmisgæslu, kafbátaeftirlit og æfingar. Ísland rekur einnig loftvarnakerfi Atlantshafsbandalagsins sem hefur lykilþýðingu í að efla stöðuvitund bandalagsins á Norður-Atlantshafi og á norðurslóðum.

Fundur Norðurhópsins kristallar að öll þátttökuríkin leggja af mörkum til varna okkar heimshluta og er Ísland þar engin undantekning.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 7. júní 2022

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta