Mikilvæg stefnumörkun í málefnum norðurslóða
Málefni norðurslóða eru áhersluatriði í íslenskri utanríkisstefnu enda snerta þau hagsmuni Íslands með margvíslegum hætti. Stefna Íslands í málaflokknum byggist á þingsályktun frá 2011 og síðan hefur vitaskuld mikið vatn runnið til sjávar – bókstaflega raunar, því hlýnun loftslags er hraðari á norðurslóðum en víðast hvar og afleiðingarnar birtast meðal annars í bráðnun jökla og hafíss. Undanfarin tvö ár hefur Ísland einnig gegnt veigamiklu hlutverki með formennsku í Norðurskautsráðinu, sem er mikilvægasti vettvangur samstarfs og samráðs um málefni svæðisins.
Ný norðurslóðastefna
Í ljósi þessa var orðið tímabært að ráðast í endurskoðun á norðurslóðastefnunni og í því skyni skipaði ég þingmannanefnd með tilnefningum frá öllum þingflokkum. Nefndin hefur nú lagt lokahönd á tillögur sínar og það er mér fagnaðarefni að veita þeim viðtöku síðar í dag á fundi með formanni hennar, Bryndísi Haraldsdóttur. Á grundvelli tillagna nefndarinnar hyggst ég leggja fram þingsályktunartillögu um nýja norðurslóðastefnu sem miðast að því að tryggja hagsmuni Íslands í víðum skilningi.Það færi vel á því að Alþingi sameinaðist um nýja norðurslóðastefnu um líkt leyti og formennskutímabil Íslands í Norðurskautsráðinu tekur enda. Þrátt fyrir að heimsfaraldurinn hafi óhjákvæmilega sett mark sitt á formennskuna og vinnu Norðurskautsráðsins undanfarið ár hefur tekist með ágætum að laga starfið að breyttum aðstæðum.
Burt með drauganet
Fyrr í þessari viku ávarpaði ég fund embættismannanefndar ráðsins sem staðið hafði til að halda á Akureyri en færa þurfti á netið líkt og marga aðra fundi og viðburði í tengslum við formennskuna. Þar á meðal var alþjóðleg ráðstefna um plastmengun í norðurhöfum sem átti upphaflega að fara fram í Reykjavík síðastliðið vor en var haldin á netinu nú fyrr í þessum mánuði með þátttöku á fjórða hundrað manns víða að úr heiminum. Raunar má segja að það hafi átt vel við að um netráðstefnu hafi verið að ræða því þar tilkynntum við einmitt um að Ísland væri nú komið í hóp ríkja sem berjast gegn svokölluðum drauganetum, yfirgefnum og týndum veiðarfærum í hafinu. Heimsfaraldurinn kemur þannig ekki í veg fyrir að við getum tekist á við brýn úrlausnarefni eins og verndun hafsins.Vel heppnuð formennska Íslands
Vinnuhópar Norðurskautsráðsins hafa ótrauðir haldið áfram starfi sínu og þótt tafir hafi orðið á framkvæmd einstakra verkefna vegna faraldursins hefur að mestu leyti tekist að framfylgja formennskuáætlun Íslands. Samkvæmt henni hefur á formennskutímabilinu verið lögð áhersla á þrjú meginsvið: Málefni hafsins, loftslagsmál og endurnýjanlega orku, og fólk og samfélög á norðurslóðum. Við þetta má svo bæta eflingu Norðurskautsráðsins sjálfs. Sem dæmi um verkefni á þessum sviðum má nefna sérstaka veffundaröð embættismannanefndarinnar um málefni hafsins sem haldin var síðastliðið haust. Verkefnum um jafnréttismál á norðurslóðum og um möguleika til nýsköpunar og verðmætaaukningar í bláa lífhagkerfinu, sem Ísland hefur leitt innan vinnuhóps ráðsins um sjálfbæra þróun, verður einnig lokið samkvæmt áætlun, svo dæmi sé tekið.Formennskutímabili Íslands í Norðurskautsráðinu lýkur með ráðherrafundi sem haldinn verður í Reykjavík 19.-20. maí næstkomandi. Vegna heimsfaraldursins er því miður ljóst að meirihluti væntanlegra þátttakenda verði að fylgjast með fundinum í gegnum fjarfundabúnað. Ég er hins vegar bjartsýnn á að aðstæður leyfi að ráðherrar norðurskautsríkjanna og fulltrúar frumbyggjasamtakanna sem aðild eiga að ráðinu geti komið til fundarins í eigin persónu. Það verður mikilvægt tækifæri til að treysta enn frekar hið góða og uppbyggilega samstarf á vettvangi Norðurskautsráðsins um leið og við afhendum Rússum formennskukeflið sem við tókum við úr hendi Finna fyrir tveimur árum. Þar með innsiglum við enn á ný þetta einstaka samstarf þeirra ríkja og þjóða sem hagsmuna eiga að gæta á norðurslóðum.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 18. mars 2021.