Ávarp Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur utanríkisráðherra á fundi útflutnings- og markaðsráðs Íslandsstofu 4. mars
Kæru samstarfsfélagar,
Það er mér mikil ánægja að vera hér í dag þegar við kynnum og ræðum drög að endurskoðaðri langtímastefnu fyrir íslenskan útflutning. Sú niðurstaða sem við kynnum í dag er afrakstur samvinnu margra aðila og ég vil þakka öllum þeim sem komu að þessari vinnu en alls komu um 400 manns um allt land og úr öllum atvinnugreinum að endurskoðun stefnunnar.
Eitt af meginmarkmiðum útflutningsstefnunnar er að Ísland verði leiðandi í sjálfbærum útflutningi. Við ætlum að nýta okkar einstöku náttúruauðlindir á sjálfbæran hátt og leggja áherslu á grænar lausnir. Með því að fjárfesta í nýsköpun og tækni getum við aukið samkeppnishæfni okkar og skapað ný tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki.
Við höfum greint þá atvinnugeira þar sem við teljum Ísland búa yfir styrkleikum sem geta gert okkur kleift að skara fram úr. Endurnýjanleg orka og grænar lausnir, nýsköpun og tækni, skapandi greinar, ferðaþjónusta og sjávarútvegur eru meðal þeirra sviða sem við ætlum að leggja sérstaka áherslu á.
Framkvæmd stefnunnar krefst víðtækrar samvinnu milli stjórnvalda, atvinnulífs og annarra hagsmunaaðila. Íslandsstofa gegnir mikilvægu hlutverki við framkvæmd stefnunnar, en allir þurfa að leggja sitt af mörkum svo árangur náist. Stjórnvöld þurfa að skapa það regluverk sem þarf og tryggja viðskiptasambönd á lykilmörkuðum. En fyrst og fremst er það atvinnulífið sjálft sem þarf að sækja tækifærin og gera þau að veruleika. Þannig náum við saman að styrkja útflutning og styðja við áframhaldandi sjálfbæran hagvöxt á Íslandi.
Það er öllum ljóst að mikil óvissa ríkir í alþjóðasamstarfi og sviptingar á alþjóðavettvangi sem við sjáum ekki fyrir endann á. Ísland er langt frá því að vera ónæmt fyrir þessum vendingum, þar með talið íslenskt viðskiptaumhverfi. Á umbrotatímum sem þessum getur reynt á frumkvæði íslenskra útflutningsgreina, að leita nýrra tækifæra og aðlaga sig að breyttum aðstæðum. Sem utanríkisráðherra mun ég leggja á það höfuðáherslu að vinna að hagsmunum Íslands í þessum ólgusjó.
Ég vil þakka öllum þeim sem hafa lagt sitt af mörkum til þessarar stefnu og þá sérstaklega ykkur, fulltrúum í útflutnings- og markaðsráði. Ykkar drifkraftur og vinnusemi eru undirstaða árangurs okkar. Ég hlakka til að heyra ykkar álit og tillögur í kjölfar kynningarinnar og vona að við getum saman mótað stefnu sem styður við vöxt og velmegun Íslands.