Heimsmarkmiðasjóður atvinnulífs um þróunarsamvinnu
Úthlutað var í 12. styrkjum til fyrirtækja úr Heimsmarkmiðasjóði atvinnulífs vegna samstarfsverkefna í þróunarríkjum í desember 2024. Markmið sjóðsins er að hvetja til þátttöku og framlags atvinnulífsins til þróunarsamvinnu. Fyrirtækin sem um ræðir eru Hananja, VAXA Technologies, Íslenski sjávarklasinn og Kerecis.
Áframhaldandi undirbúningur að stofnun lyfjaverksmiðju í Malaví
Hananja hlaut 29.705.200 króna styrk til áframhaldandi undirbúnings við stofnun lyfjaverksmiðju í Malaví sem hlotið hefur nafnið Rephaiah. Sveinbjörn Gizurarson, prófessor í lyfjafræði, hóf undirbúning þess árið 2016 og hlaut 26,6 milljón króna styrk úr Heimsmarkmiðasjóði til þess árið 2021. Þeim hluta lauk í apríl fyrr á þessu ári með góðum árangri, en enn er nokkuð í land. Lokið er við að teikna verksmiðjuna, finna nauðsynlega innlenda samstarfsaðila, fá tilskilin leyfi og huga að tæknilegum undirbúningi. Verksmiðjan, sem áætlað er að muni koma til með að kosta 35 milljónir bandaríkjadala, á að framleiða lífsnauðsynleg lyf fyrir börn yngri en fimm ára og önnur lyf sem skortur er á í Malaví.
Næringaraukandi fæðuverkefni í Tansaníu
VAXA Technologies Iceland hlaut 30.000.000 króna styrk vegna verkefnis sem ætlað er að búa til grunnstaðal fyrir notkun á næringarbættum matvælum fyrir skólabörn á aldrinum 6-12 ára í Tansaníu með íslensku Ultra Spirulina mix (IUS-mix). Með verkefninu verður kannað hvernig neytendur taka þessari viðbót við hefðbundinn tansanískan mat. Matís hefur veg og vanda af gerð grunnstaðalsins og íslenskir læknar fylgjast með áhrifum fæðunnar á þroska, heilsu og vellíðan barnanna. Jafnframt á verkefnið að stuðla að aukinni þekkingu á mikilvægi næringar fyrir börn og veita þjálfun til að byggja upp innviði og ferla sem þarf til að innleiða verkefnið.
Þróun sjávarklasa á Kíribatí
Íslenski sjávarklasinn hlaut 26.548.694 króna styrk í tengslum við verkefnið „Global Ocean Clusters“ sem miðar að því að efla sjálfbærni og virði sjávarafurða á Kyrrahafseyjum. Unnið verður að því að þróa sjávarklasa með áherslu á fullnýtingu túnfisks í Kíribatí. Íslenski sjávarklasinn verður stuðningsaðili verkefnisins og byggir á reynslu sinni um 100% nýtingu fiskafurða. Stefnt er að því að verkefnið hafi jákvæð áhrif á matvælaöryggi, bláa hagkerfið og umhverfislega sjálfbærni en verkefnið samræmist jafnframt heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.
Meðhöndlun brunasára hjá börnum í Afganistan
Kerecis hlaut 24.210.400 króna styrk í alþjóðlegt samstarfsverkefni sem snýr að því að bæta meðferð brunasára í Afganistan en Kerecis framleiðir roð til sáragræðinga. Tækni fyrirtækisins hefur reynst afar vel í meðferð vefjaskaða, hvort sem um er að ræða þrálát sár eða sár af völdum bruna. Verkefnið sem um ræðir snýr að meðhöndlun brunasára afganskra barna á brunadeild Indira Gandhi-barnaspítalans, þeim að kostnaðarlausu. Börn í Afganistan verða ósjaldan fyrir alvarlegum bruna, meðal annars vegna opinna eldstæða sem notuð eru til matseldar. Markmiðið er einnig að þjálfa heilbrigðisstarfsfólk í Afganistan til notkunar á þeirri árangursríku meðferð sem sáraroð Kerecis byggir á, til að bæta meðhöndlun sjúklinga og byggja þannig upp langtímahæfni starfsfólks í sjúkraþjónustu.
Næsti umsóknarfrestur verður auglýstur á vormánuðum.
Gögn
Atvinnulífið getur lagt gríðarmikið af mörkum til heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Heimsmarkmiðasjóði er ætlað að hvetja íslenskt atvinnulíf til þátttöku í uppbyggingu efnahags þróunarríkja. Með því styrkari stoðum atvinnu- og viðskiptalífs í þessum löndum gefst um leið tækifæri til að efla samkeppnishæfni á framtíðarmörkuðum.
Umsóknir skal senda á netfangið [email protected]
Nánari leiðbeiningar í verklagsreglum sjóðsins
Markmið Heimsmarkmiðasjóðs er að hlúa að samstarfsverkefnum sem efla sjálfbæran hagvöxt. Verkefnin sem styrkt eru verða að fara fram í skráðum þróunarlöndum samkvæmt lista OECD DAC og utanríkisráðuneytisins. Verkefni geta fengið styrk fyrir allt að 50% af heildarkostnaði verkefnisins en að hámarki 30 m.kr. á þriggja ára tímabili. Verkefnin skulu vera í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og í samræmi við stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu 2024-2028 Íslands þar sem lögð er áhersla á skýra forgangsröðun og fagleg vinnubrögð þar sem árangur, skilvirkni og gagnsæi er sett í forgrunn. Mannréttindi, jafnrétti kynjanna, umhverfis- og loftslagsmál eru bæði sértæk og þverlæg áhersluatriði sem lögð eru til grundvallar í öllum verkefnum Íslands .
Fyrirtæki
Fyrirtæki sem eru opinberlega skráð sem slík og eru ekki ríkisaðilar geta sótt til sjóðsins. Sérstaklega er hvatt til þess að verkefni stuðli að þverlægum markmiðum þróunarsamvinnu Íslands um mannréttindi, sjálfbærni og jafnrétti kynjanna. Fyrirtæki geta tekið höndum saman með félagasamtökum, háskólum og öðrum slíkum aðilum við framkvæmd verkefna.
Samstarfslönd
Áherslan er annars vegar á lágtekju- og lágmillitekjuríki á lista þróunarsamvinnunefndar Efnahags- og framfarastofnunarinnar (DAC/OECD) um viðtökulönd opinberrar þróunaraðstoðar. Hins vegar er áherslan á smáeyþróunarríki (SIDS) á sama lista. Verkefni þarf að vinna í samvinnu við traustan samstarfsaðila í þróunarlandi.
Styrkfjárhæð
Styrkfjárhæð getur numið allt að 30 m.kr. yfir þriggja ára tímabil en getur ekki orðið meira en helmingur af heildarkostnaði verkefnis. Því þarf fyrirtækið og samstarfsaðilar þess í þróunarríkinu að leggja fram sama eða hærra framlag en styrkfjárhæðinni nemur svo sem í formi efnis, vinnu eða ráðgjafar.
Umsókn
Senda skal umsókn til utanríkisráðuneytisins á netfangið [email protected]. Fylla þarf út umsóknareyðublöð sem er að finna hér neðar, verkefnislýsingu og verk- og kostnaðaráætlun eins og fram kemur í verklagsreglum. Velkomið er að senda fyrirspurnir á netfangið [email protected].
Afgreiðsla
Utanríkisráðherra úthlutar styrkjum að fengnu áliti matshóps þriggja óháðra sérfræðinga á sviði fyrirtækjareksturs og þróunarsamvinnu.
Nánar í verklagsreglum sjóðsins
Skráðu þig á póstlistann á áskriftarsíðu stjórnarráðsins
Spurt og svarað
Gerð er krafa um staðfestan ársreikning af löggiltum endurskoðenda í samræmi við 8. gr. laga um alþjóðlega þróunarsamvinnu nr.121/2008 og leiðbeiningum Ríkisendurskoðunar um eftirlit með fjármunum, uppgjöri og áritun endurskoðenda í tengslum við þátttöku Íslands í sameiginlegum þróunarverkefnum. Samkvæmt Félagi löggiltra endurskoðenda um Áritanir og staðfestingar endurskoðenda getur áritun endurskoðenda verið mismunandi eftir því hvaða staðfesting frá endurskoðanda liggur að baki. Ársreikningar fyrirtækja (umsækjanda) verða skoðaðir m.t.t. stærðar styrkupphæðar sem sótt er um.
Framlög úr Heimsmarkmiðasjóði eru hluti af opinberri þróunaraðstoð Íslands og því þurfa verkefni sem hljóta styrk að vera gjaldgeng samstarfslönd samkvæmt lista OECD-DAC yfir viðtökuríki opinberrar þróunaraðstoðar.
Já, samkvæmt reglum sjóðsins geta einungis íslensk fyrirtæki sótt um styrk.
Samkvæmt 4. gr. reglnanna geta eingöngu skráð fyrirtæki sem ekki teljast ríkisaðilar, t.a.m. einstaklingsfyrirtæki, félög og sjálfseignarstofnanir, sótt um styrk í sjóðinn. Þessar takmarkanir eiga hins vegar ekki við samstarfsaðila sem geta t.d. verið félagasamtök, háskólar, o.s.frv. Styrkhæf verkefni þurfa að vera framkvæmd í samvinnu við samstarfsaðila í tilteknu þróunarlandi. Staðfest gögn frá samstarfsaðila sem og önnur gögn þurfa að vera til staðar til stuðnings umsóknar sbr. 5.gr. m.liðar. Hvað varðar 5.gr. f.liðar reglna þar sem fram kemur að ársreikningur umsækjanda skal staðfestur af löggiltum endurskoðenda nægir að ársreikningar minni fyrirtækja sé áritaður af löggildum endurskoðenda.
Notast skal við sama eyðublað fyrir forkönnunarstyrki og almenna styrki. Umsókn má vera fyllt út á ensku.
Hlutverk sjóðsins er að hvetja til þátttöku og framlags atvinnulífs til þróunarsamvinnu. Markmiðið er að draga úr fátækt og styðja við atvinnusköpun og sjálfbæran vöxt í fátækum ríkjum heims í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Styrkt verkefni skulu vera til hagsbóta og miða að því að skapa verðmæti í þróunarlöndum. Styrkt verkefni skulu jafnan styðja við heimsmarkmið nr. 8 um sjálfbæran hagvöxt og mannsæmandi atvinnutækifæri, sem og hafa tengingu við önnur þau heimsmarkmið sem Ísland leggur áherslu á í þróunarsamvinnu sinni.
Atvinnulíf og þróunarsamvinna
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.