Hoppa yfir valmynd

Frétt

16. desember 2024 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Velkomin: Útgefin ferðamálastefna og aðgerðaáætlun til 2030

Pétur Óskarsson formaður SAF, Pétur Óskarsson framkvæmdastjóri Íslandsstofu, Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra, Arnar Már Ólafsson ferðamálastjóri og Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar - myndBirgir Ísleifur Gunnarsson
 Fyrr á þessu ári samþykkti Alþingi tillögu til þingsályktunar, sem ferðamálaráðherra lagði fram, um ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til 2030. Ferðamálastefnan, og aðgerðaáætlun hennar, hefur nú verið gerð aðgengileg með sérstakri útgáfu sem kynnt var á fjölmennu útgáfuhófi hjá Samtökum ferðaþjónustunnar síðastliðinn föstudag.

Stefnan og aðgerðaáætlun var unnin í náinni samvinnu við atvinnulíf, grasrót og fagfólk úr ólíkum geirum en í kringum 100 einstaklingar höfðu beina aðkomu að gerð þingsályktunartillögu sem stefnan byggir á og ætla má að yfir þúsund haghafar hafi sett mark sitt á hana í samráðsferlinu.



 „Það skiptir miklu máli að vel takist til að móta ferðaþjónustunni hagfelld skilyrði til þess að vaxa og dafna með sjálfbærum hætti svo greinin geti áfram skapað aukin verðmæti og lífsgæði fyrir okkar samfélag. Nú er búið að varða margar lykilaðgerðir í nýrri ferðamálastefnu og við erum þegar byrjuð að hrinda mörgum þeirra í framkvæmd. Ég vil þakka öllum þeim sem komu að þessari vönduðu og yfirgripsmiklu vinnu innilega fyrir frábært samstarf,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.

Framtíðarsýn stefnunnar er að hér á landi sé rekin arðsöm og samkeppnishæf ferðaþjónusta sem starfi í sátt við bæði land og þjóð. Ferðaþjónustan stuðli að bættum lífskjörum og hagsæld á Íslandi og verði áfram ein af grundvallarstoðum íslensks efnahagslífs.

Meginmarkmið ferðamálastefnu er að tryggja framtíðarsýn ferðaþjónustu til lengri tíma og að styðja við sjálfbærni í ferðaþjónustu á öllum sviðum, þannig að íslensk ferðaþjónusta verði þekkt fyrir gæði og einstaka upplifun.

Við framkvæmd ferðamálastefnu er lögð áhersla á jafnvægi og samþættingu á milli eftirfarandi fjögurra lykilstoða: Efnahagur, samfélag, umhverfi og gestir. Undir hverri stoð er að finna þrjá áhersluþætti sem varða veginn til næstu ára:

Með aðgerðaáætlun, sem er hluti ferðamálastefnu, verður framtíðarsýn, áherslum og markmiðum ferðamálastefnu fylgt eftir til 2030 með skilgreindum, kostnaðarmetnum og tímasettum aðgerðum. Alls er þar um 43 aðgerðir að ræða sem skiptast niður á lykilstoðir ferðaþjónustu.

Vinna er vel á veg komin við að ýta þeim aðgerðum úr vör. Þannig má nefna að í september tók starfshópur um bætt öryggi ferðamanna til starfa (aðgerð E.7). Varðandi áherslu á rannsóknir þá hefur samstarfsvettvangur tekið til starfa um aukið samstarf stofnana um eflingu rannsókna á sviði ferðamála (aðgerð A.4) og um opið gagnarými fyrir ferðaþjónustu (aðgerð A.7). Fleiri aðgerðir á sviði rannsókna falla einnig undir þann samstarfsvettvang. Framangreindum aðgerðum fylgir fjármagn sem búið er að tryggja.

Verið er að ganga frá samningum við áfangastaðastofur á landsvísu, sem stoðkerfi ferðaþjónustunnar, um 50 m.kr. aukin árleg framlög til þeirra (aðgerð C.2) sem búið er að tryggja. Í samningum við áfangastaðastofur er einnig komið inn á aðgerð C.7 sem fjallar um samstarf um móttöku skemmtiferðaskipa.

Á sviði náms í ferðaþjónustu er búið að ganga frá skipan tveggja starfshópa og hafa þeir tekið til starfa. Annars vegar starfshóps um eflingu náms í ferðaþjónustu þvert á skólastig og aukið aðgengi að námi (aðgerð E.2) og hins vegar starfshóps um alþjóðlegt nám í afþreyingartengdri ferðaþjónustu með áherslu á sjálfbærni (aðgerð E.4).

Búið er að gera samning við Íslenska ferðaklasann um að leiða aðgerð D.4 um fræðslu og hvatningu um sjálfbæra og nærandi ferðaþjónustu. Auk þess hefur starfshópur hafið störf um aðgerð E.6 um endurskoðun á gæða- og umhverfisvottun fyrir íslenska ferðaþjónustu.

Í aðgerð C.10 er fjallað um uppbyggingu millilandaflugs til að styðja betur við dreifingu ferðamanna, og til að fylgja þeirri aðgerð eftir er búið að tryggja aukið fjármagn til Flugþróunarsjóðs og búið að ganga frá samningum við áfangastaðastofur á Norðurlandi og Austurlandi um markaðssetningu á viðkomandi svæðum.

Varðandi markaðssetningu á Íslandi þá er búið að undirrita samning við Íslandsstofu um markaðssetningu á Íslandi sem áfangastað ferðamanna (aðgerð B.2), með 200 m.kr. framlagi.

Búið er að tryggja aukna fjármögnun til að styrkja Framkvæmdasjóð ferðamannastaða og kemur það fram í úthlutunum sjóðsins á næsta ári (aðgerð C.3).

Búið er að óska eftir tilnefningum í starfshóp um endurskoðun á regluverki fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu og skilvirkt eftirlit (B.3) og í starfshóp um leyfisveitingar og eftirlit með skráningarskyldri heimagistingu (B.6).

Unnið er að skipan starfshópa til að fylgja eftir aðgerðum D.1 og D.2, varðandi þróun verkfærakistu til að meta þolmörk og bregðast við álagi og innleiðing álagsstýringar á áfangastöðum ferðamanna, en búið er að tryggja fjármagn til að fylgja þeim aðgerðum eftir.

Einnig er búið að samþykkja lagabreytingar um sérstakt innviðagjald á skemmtiferðaskip (aðgerð B.5).


Nánara yfirlit yfir þessar 43 aðgerðir í aðgerðaáætlun, og stöðu þeirra, er að finna á heimasíðu Ferðamálastofu og á síðunni www.ferdamalastefna.is. 





Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta