Um kynjaða fjárlagagerð
Kynjuð fjárlagagerð
Lífshlaup karla og kvenna er um margt ólíkt og staða kynjanna einnig. Tekjuöflun og ráðstöfun opinbers fjár hefur því ólík áhrif á kynin. Kynjuð fjárlagagerð felst m.a. í að greina áhrif þessara ráðstafana á kynin. Samhliða er mikilvægt að líta til fleiri þátta, t.d. aldurs, búsetu, uppruna og fötlunar. Þannig má bæði stuðla að jafnrétti og efnahagslegri velferð enda hefur misrétti slæm efnahagsleg áhrif á samfélög.
Kynjuð fjárlagagerð er þannig liður í því að samþætta kynja- og jafnréttissjónarmið við alla stefnumótun og áætlanagerð sem gerð er á vegum ráðuneyta og opinberra stofnana líkt og kveðið er á um í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.
Með kynjaðri fjárlagagerð er jafnframt unnið að framgangi eftirtalinna heimsmarkmiða:
Kynjuð fjárlagagerð var lögfest með lögum um opinber fjármál sem tóku gildi árið 2016. Í 18. gr. laganna er kveðið á um að fjármálaráðherra, í samráði við ráðherra jafnréttismála, hafi forystu um að gerð sé áætlun um kynjaða fjárlagagerð sem höfð skuli til hliðsjónar við gerð frumvarps til fjárlaga. Jafnframt skuli gerð grein fyrir áhrifum frumvarpsins á markmið um jafna stöðu karla og kvenna.
Í samræmi við fyrrgreint ákvæði laga um opinber fjármál hefur verið mótuð fimm ára áætlun um kynjaða fjárlagagerð 2019-2023 sem nú er unnið eftir. Þá er í fjárlagafrumvarpi hvers árs fjallað um áhrif ráðstafana á tekju- og gjaldahlið á jafnrétti kynjanna. Auk þess er fjallað um kynjaða fjárlagagerð í fjármálaáætlun til fimm ára.
Kynjuð fjárlagagerð
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.