Hoppa yfir valmynd

Félagsþjónusta sveitarfélaga

Sveitarfélög sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Félagsþjónusta sveitarfélaga heyrir undir félagsmálaráðuneytið sem hefur eftirlit með því að sveitarfélögin veiti lögbundna þjónustu. 

Markmið félagsþjónustunnar

Markmið félagsþjónustu sveitarfélaga skv. 1. grein laganna er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi íbúanna og stuðla að velferð á grundvelli samhjálpar. Það skal meðal annars gert með því að bæta lífskjör þeirra sem standa höllum fæti, tryggja uppeldisskilyrði barna, veita aðstoð til þess að fólk geti búið sem lengst á eigin heimili, stundað atvinnu og lifað sem eðlilegustu lífi. Einnig skal gripið til aðgerða til að koma í veg fyrir félagsleg vandamál. Við framkvæmd félagsþjónustunnar skal einstaklingurinn hvattur til að bera ábyrgð á sjálfum sér og öðrum, sjálfsákvörðunarréttur hans virtur og hann styrktur til sjálfshjálpar. 

Hér má finna leiðbeiningar fyrir sveitarfélög um stuðningsþjónustu samkvæmt lögum nr. 40/1991, um félagsþjónustu
 sveitarfélaga, með síðari breytingum
(júní 2020).

Hvað felst í félagsþjónustu sveitarfélaga?

Með félagsþjónustu sveitarfélaga er átt við fjölbreytta þjónustu við einstaklinga og fjölskyldur. Sérstök áhersla er lögð á málefni barna, ungmenna, fatlaðs fólks og aldraðra. Sveitarfélagi ber meðal annars að veita félagslega ráðgjöf, félagslega heimaþjónustu og stuðning vegna húsnæðis-, vímuefna- og fjáhagsvanda. Félagsleg ráðgjöf felur í sér að veita upplýsingar og leiðbeiningar um félagsleg réttindamál annars vegar og stuðning vegna félagslegs og persónulegs vanda hins vegar. Ráðgjöfin tekur meðal annars til fjármála, húsnæðismála og uppeldismála og skal veitt í samvinnu við aðra sem bjóða upp á velferðarþjónustu, svo sem skóla og heilsugæslustöðvar. Áhersla hefur verið lögð á að veita þjónustu sniðna að þörfum einstaklingsins, á eigin heimili eins lengi og unnt er.

Aukin áhersla hefur verið lögð á aðstoð í húsnæðismálum heimilanna og hefur ráðherra gefið út leiðbeinandi reglur um sérstakan húsnæðisstuðning sem veittur er á grundvelli 45. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Stjórn og skipulag

Félagsþjónusta sveitarfélaga heyrir undir félagsmálaráðuneytið sem hefur eftirlit með því að sveitarfélögin veiti lögbundna þjónustu.

Sveitarstjórn ber að kjósa félagsmálaráð eða félagsmálanefnd sem fer með stjórn og framkvæmd félagsþjónustu í viðkomandi sveitarfélagi. Sveitarstjórn er heimilt er að fela stofnun að sjá um framkvæmd þjónustunnar. 

Félagsmálastjórar hafa umsjón með félagsþjónustu sveitarfélaganna um allt land.  Víða um landið hafa fleiri en eitt sveitarfélag sameinast um félagsmálastjóra.

Félagsmálanefnd, eða önnur nefnd samkvæmt ákvörðun sveitarstjórnar, veitir leyfi til daggæslu barna í heimahúsum. Sveitarfélög bera ábyrgð á því að höfð sé umsjón og eftirlit með starfsemi dagforeldra og er kveðið á um fyrirkomulag þessarar þjónustu í reglugerð um daggæslu barna í heimahúsum.

Ríkið hefur gert þjónustusamning við fáein sveitarfélög um samþættingu heilbrigðis- og félagsþjónustu. Í þessum tilvikum fer sveitarfélagið með samþætta stjórnun félags- og heilbrigðisþjónustu á sínu svæði

Reglur sveitarfélaganna um félagsþjónustu

Sveitarfélögunum ber að setja sér reglur um fjárhagsaðstoð, samanber 21. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga og reglur um félagslega heimaþjónustu, samanber 29. gr. sömu laga . Mörg sveitarfélög hafa sett sér þessar reglur og má nálgastþær á heimasíðum sveitarfélaganna.

Ákvörðun um aðstoð

Félagsmálanefndir eða starfsmenn félagsþjónustunnar, í umboði nefndanna, taka ákvörðun aðstoð sem sótt er um. Ákvörðun félagsmálanefnda er hægt að skjóta til úrskurðarnefndar velferðarmála innan fjögurra vikna frá tilkynningu um ákvörðun.

Aðstoð við erlenda ríkisborgara í sérstökum aðstæðum

Félagsmálaráðuneytið hefur gefið út reglur um fjárhagsaðstoð sveitarfélaga í sérstökum tilvikum við erlenda ríkisborgara, sem ekki eiga lögheimili á Íslandi. Reglurnar eru settar í samræmi við 15. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga og fjalla um aðstoð til einstaklinga sem ekki hafa möguleika á að fara úr landi eða framfleyta sér tímabundið hér á landi án aðstoðar íslenskra stjórnvalda. Ráðuneytið setur sérstök viðmið um fjárhagsaðstoð, sbr. 3. gr. reglnanna. Viðmiðin eru endurskoðuð einu sinni á ári, samanber breyting (1.) nr. 110/2017.

Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar annast endurgreiðslur til sveitarfélaga á grundvelli reglnanna.

Félagsþjónusta sveitarfélaga

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 21.6.2022
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta