Brottnám barna
Ísland er aðili að tveimur milliríkjasamningum sem ætlað er að tryggja hagsmuni barns sem flutt hefur verið með ólögmætum hætti úr einu samningsríki til annars. Samningar þessir eru Evrópuráðsamningur um viðurkenningu og fullnustu ákvarðana varðandi forsjá barna og endurheimt forsjár barna sem gerður var í Lúxemborg 20. maí 1980, Evrópusamningurinn, og samningur um einkaréttarleg áhrif af brottnámi barna til flutnings milli landa sem gerður var í Haag 25. október 1980, Haagsamningurinn.
Markmið samninganna
Markmið samninganna að leysa vandamál sem upp koma þegar börn eru flutt með ólögmætum hætti frá einu landi til annars eða þeim er haldið á ólögmætan hátt gegn vilja forsjárforeldris. Gildissvið samninganna takmarkast þó ekki við foreldra sem fara með forsjá barns í hefðbundinni merkingu þess hugtaks. Þeir geta einnig tekið til annarra, hvort sem um er að ræða einstaklinga, stofnanir eða opinbera aðila sem hafa svipaðan rétt til að annast barn og forsjá felur í sér, sbr. c-lið 1. gr. Evrópusamningsins og a-lið 1. mgr. 3. gr. og a-lið 5. gr. Haagsamningsins. Báðir samningarnir eiga við um börn sem ekki hafa náð 16 ára aldri.
Samkvæmt báðum samningunum skulu samningsríki stuðla að framgangi umgengnisréttar, sbr. 11. gr. Evrópusamningsins og 21. gr. Haagsamningsins. Haagsamningurinn skuldbindur þó ekki samningsríki til að hlutast til um afhendingu á barni til fullnustu á umgengnisrétti en samkvæmt Evrópusamningnum skulu samningríki viðurkenna og fullnægja ákvörðunum um umgengnisrétt á sama hátt og ákvörðunum um forsjá. Þau hafa þó heimild til að gera breytingar á inntaki umgengnisréttarins með tilliti til aðstæðna.
Í lögum nr. 160/1995 um viðurkenningu og fullnustu erlendra ákvarðana um forsjá barna, afhendingu brottnuminna barna o.fl. (brottnámslögum) er mælt fyrir um hvernig hagað skuli meðferð máls vegna brottnáms barns til Íslands eða hald barns á Íslandi.
Evrópusamningurinn
Evrópusamningurinn er viðurkenningar- og fullnustusamningur. Það er grundvallarregla samkvæmt samningnum, sbr. 7. gr. hans, að forsjárákvörðun, sem tekin er í einu samningsríki, skuli viðurkenna og fullnægja í öðru samningsríki án tillits til þess hvort brottflutningur eða hald á barni feli í sér ólögmæta athöfn. Forsjárákvörðun, sem tekin er í samningsríki, fær sömu réttaráhrif hér á landi og ákvörðun um forsjá sem tekin er hér á landi og gagnkvæmt.
Haagsamningurinn
Haagsamningurinn skuldbindur samningsríkin til að hlutast til um að börnum, sem flutt eru með ólögmætum hætti til aðildarríkis eða er haldið þar, verði skilað án tillits til þess hvort fyrir hendi sé fullnustuhæf ákvörðun. Það er skilyrði fyrir beitingu Haagsamningsins að brottnám eða hald á barni sé ólögmætt samkvæmt lögum þess ríkis þar sem barnið var búsett rétt áður en það var flutt á brott eða hald hófst, sbr. 3. gr. hans. Með afhendingu er ekki tekin afstaða til þess hver sé réttmætur forsjáraðili, sbr. 19. gr. samningsins, heldur er á því byggt að úr því eigi að leysa í landi þar sem barn hefur búsetu. Með því að gerast aðili að samningnum skuldbinda ríkin sig til að afhenda brottnumið barn, komi fram umsókn um afhendingu þess.
Hlutverk ráðuneytisins
Á grundvelli 5. gr. laga um viðurkenningu og fullnustu erlendra ákvarðana um forsjá barna, afhendingu brottnuminna barna o.fl. nr. 160/1995 er dómsmálaráðuneytið móttökustjórnvald í málum á grundvelli Haagsamningsins og Evrópusamningsins. Dómsmálaráðuneytið skal taka við erindum á grundvelli samninganna og framsenda þau hlutaðeigandi yfirvöldum, eiga samvinnu við móttökustjórnvöld í öðrum ríkjum sem eru aðilar að samningunum og gegna að öðru leyti þeim skyldum sem móttökustjórnvaldi ber að gegna samkvæmt samningunum. Hlutverk ráðuneytisins sem móttökustjórnvald er fyrst og fremst til milligöngu og aðstoðar en því er ekki ætlað að taka afstöðu til efnisatriða máls. Því ber skylda til að framsenda erindi réttum yfirvöldum til meðferðar, nema það sé alveg augljóst að ekki sé grundvöllur til að reka mál samkvæmt samningunum, sbr. 4. mgr. 4. gr. Evrópusamningsins og 27. gr. Haagsamningsins. Samkvæmt samningunum má beina beiðni til móttökustjórnvalds í hvaða samningsríki sem er, sbr. 1. mgr. 4. gr. Evrópusamningsins og 1. mgr. 8. gr. Haagsamningsins. Ráðuneytið skal svo fljótt sem unnt er senda beiðni áfram til móttökustjórnvalds í öðru samningsríki ef það telur að barnið dveljist þar, sbr. 2. mgr. 5. gr. Evrópusamningsins og 9. gr. Haagsamningsins. Beiðandi getur líka snúið sér beint til þess yfirvalds sem er bært til að fjalla um málið án milligöngu móttökustjórnvalds.
Ráðuneytið á að sjá til þess að beiðni erlendis frá um aðstoð á grundvelli samninganna verði send réttum yfirvöldum til meðferðar. Hér á landi eru það viðkomandi héraðsdómar, sbr. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/1995. Nauðsynlegt er að ráðuneytið útvegi beiðanda lögmann til þess að koma fram fyrir hönd hans í málinu fyrir dómi. Ráðuneytið skal einnig framsenda íslenskar beiðnir til móttökustjórnvalds í hlutaðeigandi erlendu samningsríki.
Í umsókn til móttökustjórnvalds um aðstoð á grundvelli samninganna er nauðsynlegt að fram komi upplýsingar um nafn barns og nöfn foreldra þess og beiðanda. Enn fremur upplýsingar um líklegan dvalarstað barns og aðstæður sem liggja að baki umsókn. Nauðsynleg gögn þurfa að fylgja umsókn og veita þarf upplýsingar um hvort önnur mál varðandi barnið séu til meðferðar hjá yfirvöldum. Sérstök umsóknareyðublöð hafa verið útbúin vegna beggja samninganna til nota í þessu sambandi. Beiðanda ber ekki skylda til að afla sjálfur upplýsinga um dvalarstað barns. Hins vegar hvílir sú skylda á móttökustjórnvaldi að afla þeirra upplýsinga, annað hvort sjálft eða með aðstoð annars yfirvalds, sbr. a-lið 1. mgr. 5. gr. Evrópusamningsins og a-lið 2. mgr. 7. gr. Haagsamningsins.
Það sem hafa þarf í huga við fyrirhugaðan flutnings barns til Íslands
Mikilvægt er fyrir foreldri, sem býr í öðru landi, og sem hyggst flytja til Íslands með barn sitt, að tryggja að það sé gert með lögmætum hætti. Þetta á ekki síst við ef aðstæður eru þær að foreldrar eru að slíta samvistum, t.d. við skilnað, eða af öðrum orsökum þannig að verið sé að skipa réttarstöðu barnsins til frambúðar. Það eru lög og reglur í heimaríki barnsins, en ekki íslenskar lagareglur, sem skera úr um hvort heimilt er að flytja barnið til Íslands. Það er því ráðlegt að afla upplýsinga frá yfirvöldum viðkomandi ríkis eða frá lögmanni sem þekkir til löggjafar í viðkomandi ríki.
Aðstoð sem stendur foreldrum til boða
Foreldrar sem eru aðilar brottnámsmáls geta fengið ráðgjöf og leiðbeiningar um lög og reglur sem málefnið varða í dómsmálaráðuneytinu.
Til að fá frekari upplýsingar er unnt að hringja í dómsmálaráðuneytið í síma 545-9000 eða senda tölvupóst á netfangið: [email protected].
Sjá einnig:
Frekari upplýsingar
Haagsamningurinn
Evrópusamningurinn
Málefni barna
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.