Hoppa yfir valmynd

Gjafsókn

Reglur um gjafsókn kveða á um í hvaða tilvikum kostnaður við dómsmál einstaklings er greitt úr ríkissjóði. Reglurnar er að finna í lögum um meðferð einkamála. Sótt er um gjafsókn til dómsmálaráðuneytisins sem óskar umsagnar gjafsóknarnefndar um umsóknina. Gjafsókn er ekki veitt nema gjafsóknarnefnd mæli með gjafsókn.

Hvað er gjafsókn?

Gjafsókn er notað bæði um gjafsókn og gjafvörn. Gjafsókn er veitt vegna mála sem rekin eru fyrir íslenskum dómstólum. Þannig verður gjafsókn ekki veitt vegna mála sem rekin eru fyrir stjórnvöldum eða erlendum dómstólum. Gjafsókn er aðeins veitt einstaklingum en ekki lögaðilum, s.s. fyrirtækjum eða félögum. Hver sá einstaklingur sem getur átt aðild að dómsmáli hér á landi, án tillits til ríkisborgararéttar, getur átt rétt til gjafsóknar. Gjafsókn verður ekki veitt eftir að dómur hefur verði kveðinn upp.

Gjafsókn skuldbindur ríkið til að greiða þann málskostnað sem gjafsóknarhafi hefur sjálfur af máli, þ.e. þóknun lögmanns o.fl. Gjafsókn má þó takmarka þannig að hún nái aðeins til tiltekinna þátta málskostnaðar eða geti hæst numið tiltekinni fjárhæð. Þóknun lögmanns gjafsóknarhafa fyrir flutning máls skal ákveðin í dómi eða úrskurði.

Ríkið verður því ekki skuldbundið til að greiða þá þóknun sem málflytjandi gjafsóknarhafa kann að áskilja sér heldur aðeins þá fjárhæð sem dómari ákveður handa honum. Gjafsóknarhafa eða lögmanni hans ber að snúa sér til sýslumannsins á Vesturlandi, vegna uppgjörs til dæmdrar málflutningsþóknunar og útlagðs kostnaðar.

Gjafsóknarhafi er undanþeginn öllum greiðslum í ríkissjóð vegna þess máls sem gjafsókn tekur til, þar á meðal greiðslum fyrir opinber vottorð og önnur gögn sem verða lögð fram í máli. Gjafsókn nær einnig til kostnaðar af fullnustu réttinda gjafsóknarhafa með aðför og nauðungarsölu, nema annað sé tekið fram í gjafsóknarleyfinu. Gjafsókn breytir engu um að gjafsóknarhafa verði sjálfum gert að greiða gagnaðila sínum málskostnað.

Hvaða skilyrði þarf að uppfylla?

Efnahag umsækjanda þarf að vera þannig háttað að kostnaður af gæslu hagsmuna hans í máli yrði honum fyrirsjáanlega ofviða.

Við mat á því hvort gjafsókn verði veitt vegna efnahags umsækjanda skal miða við að stofn til útreiknings tekjuskatts og útsvars og fjármagnstekjur nemi ekki hærri fjárhæð en samtals kr. 4.417.918. Sé umsækjandi í hjúskap eða sambúð ber að hafa hliðsjón af tekjum maka og skulu samanlagðar árstekjur ekki nema hærri fjárhæð en sem nemur kr. 7.167.608. Þegar umsækjandi er yngri en 18 ára skal höfð hliðsjón af samanlögðum tekjum foreldra. Hækka skal viðmiðunarmörk tekna um kr. 530.460 fyrir hvert barn undir 18 ára aldri, þ.m.t. stjúp- og fósturbörn, sem búa hjá umsækjanda eða hann elur að mestum hluta önn fyrir.

Þó má veita einstaklingi gjafsókn þótt tekjur hans séu yfir viðmiðunarmörkum í vissum tilvikum:

a. þegar framfærslukostnaður er óvenjulega hár af einhverjum ástæðum,
b. aflahæfi umsækjanda er verulega skert til frambúðar vegna varanlegrar örorku,
c. umsækjandi, maki hans eða sambúðaraðili á ekki íbúðarhúsnæði og leigukostnaður er verulegur,
d. samanlagðar tekjur umsækjanda og maka hans eru yfir viðmiðunarmörkum en tekjur hans sjálfs eru undir þeim mörkum og telja verður að málið varði hann aðallega,
e. umsækjandi er yngri en 18 ára og sérstakar ástæður mæla með því þótt tekjur foreldra séu yfir tekjumörkum,
f. málskostnaður verður fyrirsjáanlega hár miðað við efnahag umsækjanda,
g. frá launatekjum er heimilt að draga vaxtagjöld vegna eigin húsnæðis ef vaxtagjöld eru óvenjulega há. Við mat á fjárhagsstöðu er jafnframt heimilt að leggja við þær vaxta­bætur sem umsækjandi og maki hans fá greiddar.

Synja má einstaklingi um gjafsókn þótt tekjur hans séu undir viðmiðunarmörkum, m.a. í eftirfarandi tilvikum,

a. umsækjandi, maki hans eða sambúðaraðili á peningainnistæðu, hlutabréf, skuldabréf, fasteign, lausafé eða aðrar eignir sem skipt geta máli þegar metin er greiðslugeta hans til að kosta málsókn sína sjálfur,
b. eignir umsækjanda, maka hans eða sambúðaraðila umfram skuldir eru verulegar,
c. aðilar að dómsmáli eru fleiri en einn og hlutur gjafsóknarbeiðanda er tiltölulega lítill miðað við aðra málsaðila.

Gjafsókn verður aðeins veitt ef nægilegt tilefni er til málshöfðunar eða málsvarnar og eðlilegt megi teljast að öðru leyti að gjafsókn sé kostuð af almannafé.

Málið þarf að vera þess eðlis að eðlilegt sé að málskostnaður verði greiddur af almannafé og málsefnið þarf að vera nægilega skýrt og málsókn nauðsynleg og tímabær.

Að jafnaði er ekki veitt gjafsókn í málum þar sem ágreiningsefnið er eins og að neðan greinir nema sérstakar ástæður mæli með því:

a. varðar viðskipti umsækjanda er tengjast verulega atvinnustarfsemi hans og hann hefur með aðgerðum sínum eða aðgerðaleysi komið sér í þá aðstöðu sem málsókninni er ætlað að bæta úr,
b. þegar ágreiningsefnið er milli nákominna,
c. þegar um er að ræða mál sem varðar óverulega hagsmuni og ekki er eðlilegt hlutfall milli þeirra og líklegs málskostnaðar,
d. og þegar umsækjandi hefur sýnt af sér verulegt tómlæti sem hefur í för með sér sönnunar­vanda.

Þegar metið er hvort málsefnið er nægilega skýrt og málsókn nauðsynleg og tímabær eru eftirtalin atriði höfð til hliðsjónar:

a. hvort málatilbúnaður sé nægilega skýr þannig að ætla megi að málið sé tækt til efnis­meðferðar fyrir dómstóli,
b. hvort leitast hafi verið við að leysa málið utan réttar, þ. á m. fyrir úrskurðar­nefndum,
c. hvort gagnaöflun utan réttar sé lokið og málshöfðun sé nauðsynleg og tímabær.

Þá er litið til þess hvort málsefnið sé þannig að nokkrar líkur séu á því að málið vinnist fyrir dómi, þá er m.a. að horft til þess hvort dómstólar hafi áður leyst úr sambærilegu ágreiningsefni.

Lögbundin gjafsókn

Gjafsókn verður enn fremur veitt þegar mælt er fyrir um það í öðrum lögum. Sækja þarf um slíka gjafsókn til dómsmálaráðuneytisins.

Lögskylt er samkvæmt 230. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að veita gjafsókn í málum þar sem settar eru fram kröfur um bætur fyrir handtöku, leit á manni eða í húsi, hald á munum rannsókn á heilsu manns, gæsluvarðhald og aðrar aðgerðir sem hafa frelsissviptingu í för með sér.

Samkvæmt 60 gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, skulu foreldrar, fósturforeldrar og barn sem gengur inn í mál skv. 55. gr. laganna hafa gjafsókn fyrir héraðsdómi og Hæstarétti. Ef mál er höfðað skv. 34. gr. laganna til endurskoðunar á fyrri niðurstöðu dóms, sbr. 3. mgr. 34. gr., fer um rétt aðila til gjafsóknar samkvæmt almennum reglum.

Samkvæmt 66. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur gilda almennar gjafsóknarreglur um málssókn og málsvörn fyrir Félagsdómi.

Samkvæmt 23. gr. ættleiðingarlaga nr. 130/1999 skal stefnandi hafa gjafsókn í dómsmáli vegna ættleiðingar skv. 22. gr. laganna.

Í 1. mgr. 4 . gr. laga nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið er heimilað að veita málsaðila, sem ekki hefur krafist þess að álits verði aflað, gjafsókn vegna þess þáttar málsins.

Samkvæmt d-lið 10. gr. laga nr. 85/1997 um umboðsmann Alþingis, getur umboðsmaður lagt til að gjafsókn verði veitt í máli sem heyrir undir starfssvið umboðsmanns og hann telur rétt að lagt verði fyrir dómstóla til úrlausnar.

Samkvæmt 11. gr. barnalaga nr. 76/2003, skal greiða þóknun lögmanns stefnanda sem dómari ákveður úr ríkissjóði, svo og annan málskostnað, þegar barn er stefnandi faðernismáls. Ákvæði 11. gr. eiga jafnframt við í dómsmálum til vefengingar á faðerni barns, þegar barn er stefnandi vefengingarmáls, sbr. 22. gr laganna. Orðalag greinarinnar er með sama sniði og 17. gr. lögræðislaga, en málskostnaður greiðist úr ríkissjóði í málum sem rekin eru á grundvelli lögræðislaga án þess að gjafsókn hafi verið veitt.

Hvernig er sótt um gjafsókn?

Umsókn um gjafsókn skal senda dómsmálaráðuneytinu. Umsókn skal vera skrifleg, leggja fram nægjanlega tímanlega, og eigi síðar en þremur vikum fyrir aðalmeðferð máls. Heimilt er að vísa frá umsókn sem berst svo skömmu fyrir aðalmeðferð máls að tóm gefst ekki til gagnaöflunar og að veita rökstudda umsögn.

Umsókn um gjafsókn má senda í gegnum rafræna gátt á island.is. Umsóknarform er að finna undir flokknum Dómstólar og réttarfar, island.is/flokkur/domstolar-og-rettarfar. Einnig er hægt að senda með Signet Transfer eða með tölvupósti.

Ráðuneytið framsendir umsókn síðan til gjafsóknarnefndar. Ráðuneytið getur ekki veitt gjafsókn nema gjafsóknarnefnd mæli með því.

Afgreiðslutími umsókna er um 12 vikur.

Hvað á að koma fram í umsókn?

Í umsókn um gjafsókn skal koma fram fullt nafn, kennitala, staða og heimilisfang umsækjanda og gagnaðila. Einnig skal upplýst fyrir hvaða dómi málið er eða verður rekið og hvaða lögmaður fari með það fyrir umsækjanda.

Umsókn skal vera ítarlega rökstudd og þar skal meðal annars fjallað um:

  1. helstu málsatvik, málsástæður og lagarök,
  2. hvort nægilegt tilefni sé til málshöfðunar eða málsvarnar,
  3. fjölskylduhagi umsækjanda, framfærslubyrði og hvort efnahag hans sé þannig komið að kostnaður við rekstur dómsmáls verði honum fyrirsjáanlega ofviða,
  4. hver sé áfallinn málskostnaður og hver væntanlegur málskostnaður verði, þar með talinn kostnaður við öflun matsgerða og annarra sönnunargagna.
  5. á hvaða gjafsóknarheimild umsókn er reist.

Þegar gjafsókn er lögbundin þarf aðeins að greina í umsókn þau atriði sem getur í 1. og 5. lið.

Hvaða gögn eiga að fylgja umsókn?

Með umsókn um gjafsókn skulu fylgja:

  1. helstu málsskjöl,
  2. staðfest ljósrit skattframtala umsækjanda og maka eða sambúðarmanns næstliðin tvö ár,
  3. gögn um tekjur umsækjanda og maka eða sambúðarmanns á því tímabili sem liðið er frá síðasta skattframtali,
  4. önnur gögn sem þýðingu hafa, svo sem væntanleg kröfugerð, afstaða gagnaðila og upplýsingar um réttaraðstoðar- eða málskostnaðartryggingu ef umsækjandi nýtur slíkrar tryggingarverndar.

Þegar gjafsókn er lögbundin skal aðeins láta fylgja með þau gögn sem rakin eru í 1. og 4. lið.

Sjá einnig:

Skýrsla um gjafsókn

Umfjöllun um gjafsókn og opinbera réttaraðstoð í lokaskýrslu verkefnið um kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð:

Síðast uppfært: 26.8.2024
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta