Fæðingar- og foreldraorlof
Um fæðingar- og foreldraorlof gilda lög um fæðingar og foreldraorlof. Lögin fjalla um rétt foreldra til greiðslna í fæðingar- og foreldraorlofi. Markmið laganna er að tryggja barni samvistir við foreldra sína sem og að gera bæði konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf.
Við fæðingu barns, ættleiðingu þess eða töku í varanlegt fóstur á hvort foreldri rétt á greiðslum í orlofi í sex mánuði en foreldrum er heimilt að framselja sex vikur sín á milli, og því getur annað foreldrið tekið fæðingarorlof í allt að sjö og hálfan mánuð en hitt í fjóra og hálfan. Sé um fjölburafæðingar að ræða eiga foreldrar sameiginlegan rétt til þriggja mánaða til viðbótar fyrir hvert barn umfram eitt.
Í lögunum eru heimildir til yfirfærslu réttinda á milli foreldra þegar annað foreldri getur ekki af nánar tilgreindum ástæðum nýtt sinn rétt til fæðingarorlofs. Þær heimildir eru:
- Þegar ekki hefur reynst mögulegt að feðra barn samkvæmt barnalögum.
- Þegar öðru foreldri er gert að sæta nálgunarbanni og/eða brottvísun samkvæmt lögum um nálgunarbann og/eða brottvísun.
- Þegar annað foreldrið hefur ekki rétt til töku fæðingarorlofs/fæðingarstyrks hérlendis né heldur sjálfstæðan rétt til töku orlofs í sínu heimaríki.
- Þegar umgengni annars foreldris við barnið er engin eða hún verulega takmörkuð, svo sem undir eftirliti einvörðungu, á grundvelli niðurstöðu lögmælts stjórnvalds eða dómstóla. Forsjárforeldri þarf að sækja um þessa tilfærslu réttinda til Vinnumálastofnunar sem tekur ákvörðun í málinu.
Þá eiga barnshafandi foreldrar rétt á sérstökum styrk vegna skerts aðgengis að fæðingarþjónustu í þeim tilvikum þegar foreldrið þarf að mati sérfræðilæknis að dvelja fjarri heimili sínu, fyrir áætlaðan fæðingardag, í tengslum við nauðsynlega þjónustu vegna fæðingar barnsins.
Fæðingarorlofssjóður sér um greiðslur til foreldra í fæðingarorlofi en sjóðurinn er í vörslu Vinnumálastofnunar. Reglurnar geta verið mismunandi eftir því hvort foreldri er á vinnumarkaði, í námi eða utan vinnumarkaðar. Séu verðandi foreldrar ósáttir við afgreiðslu sjóðsins á umsókn þeirra eða þeir telja að brotið hafi verið á rétti þeirra samkvæmt lögunum geta þeir kært ákvörðunina til úrskurðarnefndar velferðarmála.
Sjá einnig:
Lög
Stofnanir
Úrskurðarnefndir
Fæðingarorlofssjóður
Ættleiðingarstyrkur
Áhugavert
Málefni barna
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.