Fundur Velferðarvaktarinnar 21. maí 2024
68. fundur Velferðarvaktarinnar
haldinn í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu og á Teams
21. maí 2024, kl. 13.15-15.00.
1. Spjall með félags- og vinnumarkaðsráðherra
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, var gestur fundarins. Guðmundur Ingi byrjaði á að segja frá helstu málum og verkefnum sem unnið hefur verið að í ráðuneytinu síðustu misseri og hafa snertingu við viðfangsefni Velferðarvaktarinnar. Má þar nefna lög um greiðsluaðlögun, breytingar á örorkulífeyriskerfinu, samþykkt fyrstu landsáætlunar í málefnum fatlaðs fólks, stofnun nýrrar mannréttindastofnunar o.fl.
Að yfirferð lokinni bauð ráherra upp á kaffispjall og svaraði spurningum sem brunnu á fulltrúum Velferðarvaktarinnar. Ráðherra var spurður út í ýmis mál þ.m.t. húsnæðismál, hlutdeildarlán, smálán, kjör eldra fólks o.fl.
2. Breytingar í þjónustuþegahópi umboðsmanns skuldara
Ásta Helgadóttir, umboðsmaður skuldara, kynnti nýjar upplýsingar varðandi starfsemina þ.m.t. samsetningu hópsins sem þangað leitar, tegund fjárhagsvanda o.s.frv.
Sjá glærur.
3. Starf Fjölskylduhjálpar Íslands
Ásgerður Jóna Flosadóttir, stofnandi og formaður Fjölskylduhjálparinnar, kynnti starfsemina. Ásgerður sagði þörfina fyrir mataraðstoð hafa aukist síðustu ár og að fjöldi matargjafa hlypi á þúsundum ár hvert. Fjölskylduhjálpin vinnur einnig sérstaklega gegn matarsóun og stofnaði matarbanka fyrir tveimur árum. Starfsemin byggist að mestu leyti upp á sjálfboðaliðastarfi en Ásgerður sagði reksturinn vera orðinn erfiðan.
4. Breytingar á fyrirkomulagi stjórnskipulags- og samhæfingar stjórnkerfisins vegna Grindavíkur
Birna Sigurðardóttir, sérfræðingur í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu, kynnti væntanlegar breytingar með áherslu á félagsleg málefni. Ákveðið var að fá frekari kynningu í haust þegar reynsla verður komin á verkefnið.
Sjá glærur.
5. Verkefni framundan
Formaður kynnti:
- Fyrirhugaða rannsókn á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar um börn sem alast upp í fjölskyldum með viðvarandi lágar tekjur. Í skýrslunni á að beina sjónum að því hvaða aðgerðir samfélagið getur helst gripið til þannig að börn og ungmenni geti tekið þátt og þroskast óháð félagslegri og efnahagslegri stöðu foreldra.
- Rannsókn á stöðu kvenna á aldrinum 50-66 ára með örorkulífeyri, sem eftirsóknarvert er að Velferðarvaktin komi að. Leist fulltrúum vel á það samstarf. Tryggingastofnun fer með framkvæmd rannsóknarinnar.
Næsti fundur verður haldinn 3. september.