C. Upplýsing |
Lýsing á aðgerð
C.3 Ein upplýsingagátt fyrir allt landið varðandi upplýsingar um þjónustu við eldra fólk og réttindi þess
Að hægt verði að nálgast með einföldum hætti upplýsingar, viðeigandi umsóknareyðublöð og almenna ráðgjöf um allt það sem varðar þjónustu við eldra fólk, bæði félagsþjónustu og heilbrigðisþjónustu. Hægt verði að nota netspjall eða símtal gerist þess þörf.
Mælikvarðar:
- Í samstarfi við Ísland.is verði unnið að þróunarverkefni til þriggja ára um upplýsinga- og ráðgjafargátt fyrir allt landið með upplýsingum um þjónustu við eldra fólk og réttindi þess.
- Þar verði hægt að nálgast eftir póstnúmerum upplýsingar og umsóknareyðublöð, en auk þess verði hægt að fá almenna ráðgjöf varðandi réttindi og þjónustu.
- Byrjað verði með tvo ráðgjafa sem sinni almennri ráðgjöf. Ráðgjafarnir verði í sambandi við aðra aðila, svo sem félagsþjónustu sveitarfélaga og heilbrigðisþjónustuna.
- Samhliða ráðgjöfinni verði gögnum safnað um helstu atriði sem eldra fólk og aðstandendur þess þurfa ráðgjöf um og stuðning við.
- Á grunni þeirra upplýsinga sem safnað verði gegnum ráðgjöfina verði lagt mat á framtíðarskipulag ráðgjafar/hagsmunagæslu fyrir eldra fólk.
Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið.
Tímabil: 2024–2027.
Staða verkefnis
Árið 2023 var gerður samningur við Stafrænt Ísland um samstarf við þróun nýs lífsviðburðar, "Að eldast". Tveir starfsmenn voru ráðnir í tímabundið hlutastarf til að vinna að efnissköpun fyrir lífsviðburðinn. Þeir unnu að því að safna upplýsingum um alla þjónustu og réttindi sem eldra fólk hefur hjá hinu opinbera. Einnig var unnið að innleiðingu á sérstöku spjallmenni, og svör við ýmsum algengum spurningum voru safnað til að auðvelda spjallmenninu að veita upplýsingar.
Til að tryggja að upplýsingagáttin myndi mæta þörfum m.a. eldra fólks var unnið með rýnihópum, þar á meðal eldra fólki, aðstandendum þeirra, og starfsfólki. Markmiðið var að safna upplýsingum um hvernig væri best að skipuleggja upplýsinga- og ráðgjafagáttina og hvaða upplýsingar fólk kallaði mest eftir. Að auki var síðan kynnt víða um land, og sérstaklega var kallað eftir rýni frá félögum eldri borgara víðs vegar um landið.
Samningurinn við Stafrænt Ísland náði einnig til þess að þróa eina samræmda umsókn um heimaþjónustu fyrir allt landið, aðgengilega í gegnum Ísland.is. Umsóknin myndi síðan berast réttum sveitarfélögum út frá lögheimili umsækjanda. Þrjú sveitarfélög sem notuðu sama skjalaskráningarkerfi tóku þátt í þessu þróunarverkefni. Niðurstaðan var að það væri nauðsynlegt að þróa leið til að senda umsóknir frá Ísland.is stafrænt til allra sveitarfélaga.
Í framhaldi af þessu hófst samstarf með Sambandi íslenskra sveitarfélaga til að greina stafræna ferla fyrir umsóknir um heimaþjónustu. Sérfræðingur á vegum "Gott að eldast" skilaði niðurstöðum um bestu leiðir til að stafvæða ferlið, frá beiðni um þjónustu þar til samþætt þjónusta er veitt.
Nú liggur fyrir samningur til undirritunar um ráðgjafa sem mun veita almenna ráðgjöf á landsvísu vegna fyrirspurna og beiðna um símtöl í tengslum við lífsviðburðinn "Að eldast".
Komið vel á veg