Þjónusta við aldraða
Félagsstarf aldraðra
Mörg sveitarfélög starfrækja félagsmiðstöðvar þar sem fram fer félagsstarf. Markmið félagsstarfsins er að fyrirbyggja og draga úr félagslegri einangrun með því að bjóða upp á opið félags- og tómstundastarf auk námskeiða. Félagsstarfið stuðlar að samskiptum, hreyfingu og veitir félagsskap. Þar er meðal annars boðið upp á mat og kaffi, tómstundaiðju og hreyfingu. Nánari upplýsingar fást hjá sveitarfélögum.
Heimaþjónusta
Alla jafna er fyrirkomulag heimaþjónustu með þeim hætti að heilsugæsla viðkomandi heilbrigðisumdæmis sér um heilbrigðisþjónustuna, þar með talið heimahjúkrun, og sveitarfélög sjá um að veita félagslega þjónustu, þar með talið stuðningsþjónustu/heimastuðning.
Í þjónustukeðju hins opinbera fyrir eldra fólk eru einnig: þjónusta heilsugæslunnar vegna heilsufarslegra vandamála, sjúkrahúsþjónusta, endurhæfingarþjónusta, heimsendingar á mat, akstursþjónusta, aðkoma heima-endurhæfingarteymis, dagdvalir, velferðartækni, m.a. fjarheilbrigðisþjónusta, félagsráðgjöf og sólarhringsþjónusta í þjónustuíbúðum í eigu sveitarfélaga. Ólíkt er eftir svæðum hverjir af þessum þjónustuþáttum eru í boði.
Reykjavíkurborg gerði samning við ríkið árið 2009 um rekstur heimahjúkrunar og fullsamþætti þar með alla heimaþjónustu fyrir íbúa í Reykjavík. Sá samningur hefur verið endurnýjaður alls fjórum sinnum, enda hafa þau markmið sem sett voru fram náðst. Þekkt eru tvö önnur opinber þróunarverkefni samþættingar, annars vegar á Akureyri og hins vegar á Höfn í Hornafirði, sem hófust 1996 en af ólíkum ástæðum var ekki haldið áfram með þau.
Félagsleg heimaþjónusta
Eldra fólk í heimahúsum á rétt á heimaþjónustu eða heimastuðningi geti þeir ekki hjálparlaust annast heimilishald og persónulega umhirðu. Sveitarfélög veita þessa þjónustu á grundvelli laga um félagsþjónustu sveitarfélaga en setja sjálf nánari reglur um framkvæmdina. Gjald fyrir félagslega heimaþjónustu fer eftir gjaldskrá hvers sveitarfélags.
Heimahjúkrun
Heimahjúkrun er ætlað að gera þeim sem þjónustunnar njóta kleift að búa heima við sem eðlilegastar aðstæður þrátt fyrir veikindi eða heilsubrest. Heimahjúkrun er almennt á hendi heilbrigðisstofnana í hverju heilsugæsluumdæmi nema í heilbrigðisumdæmi höfuðborgarsvæðisins þar sem heimahjúkrun er veitt af Heimaþjónustu Reykjavíkur sem heyrir undir Velferðarsvið Reykjavíkurborgar. Þar hefur félagsleg heimaþjónusta verið sameinuð heimahjúkrun. Á Höfn í Hornafirði heyrir heimahjúkrun einnig undir sveitarfélagið. Ekkert gjald er tekið fyrir heimahjúkrun.
Dagdvöl
Í flestum stærri sveitarfélögum er möguleiki á dagdvöl eða dagþjálfun en dagdvöl er tímabundið stuðningsúrræði við eldra fólk sem býr í heimahúsum. Dagdvöl getur verið almenn dagdvöl, sérhæfð dagdvöl fyrir fólk með heilabilun og dagdvöl með endurhæfingu. Dagdvöl aldraðra þarf a.m.k. að bjóða upp á tómstundaiðkun, aðstöðu til léttra líkamsæfinga, máltíð, hvíldaraðstöðu og aðstoð við böðun. Í dagdvöl aldraðara skal veita hjúkrunar- og læknisþjónustu og þar skal einnig vera aðstaða til þjálfunar. Akstur til og frá heimili er innifalinn í dvalargjaldi. Hægt er að sækja um dagdvöl hjá viðkomandi stofnun, en á höfuðborgarsvæðinu eru biðlistar og umsóknir vegna dagdvalar fyrir fólk með heilabilun í umsjón félagsráðgjafa á Landakoti.
Þjónustuíbúðir
Sum sveitarfélög leigja út þjónustuíbúðir til eldri borgara sem þurfa meiri þjónustu en hægt er að fá í heimahúsum án þess að hafa þörf fyrir dvöl á dvalar- eða hjúkrunarheimili. Í lögum um málefni aldraðra er skilgreint hvaða þjónusta skuli veitt í þjónustuíbúðum og segir að í þeim skuli vera öryggiskerfi og völ á fjölbreyttri þjónustu, svo sem mat, þvotti og þrifum, og aðgangur að félagsstarfi. Íbúar í þjónustuíbúðum eiga sama rétt á heimaþjónustu og aðrir íbúar sveitarfélagsins. Upplýsingar um þjónustuíbúðir eru veittar hjá viðkomandi sveitarfélögum.
Sjá einnig:
Lög
Reglugerðir
Áhugavert
Öldrunarmál
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.