A. Samþætting |
Lýsing á aðgerð
A.3 Þróun dagdvala
Fleiri eigi kost á þjónustu dagdvala með áherslu á skilgreint og öflugt samstarf á milli dagdvala og heimaþjónustu. Markmið aðgerðarinnar verði að fresta sem lengst þörf fyrir dvöl á hjúkrunarheimili með því að aðlaga þjónustu dagdvala þannig að hún komi betur til móts við þarfir eldra fólks sem býr heima og fjölskyldur þess.
Mælikvarðar:
- Að fyrir liggi skýrara fyrir hverja úrræðið er og hverju það eigi að skila
- Við lok tímabils verði minnst 100 dagdvalarrými sem flokkast sem sveigjanleg dagdvalarrými.
- Skilgreint hlutverk og markmið dagdvala verði endurskoðað með áherslu á að úrræði styðji betur við þarfir fólks sem býr heima.
- Greind verði áætluð þörf fyrir dagdvöl og þörf á sveigjanlegri opnunartíma dagdvala. Á grunni greininganna verði unnið að gerð samninga um sveigjanlegar dagdvalir um land allt, bæði í almennum og sérhæfðum dagdvölum fyrir fólk með heilabilun.
- Skilgreind verði viðmið um fjölda dagdvalarýma á landsvísu og greiðsluþátttöku gesta.
- Lagt verði mat á hvaða matstæki eigi að nota til að meta þörf eldra fólks fyrir dagdvöl, meta framvindu og hvernig forgangi skuli háttað.
Ábyrgð: Heilbrigðisráðuneytið.
Tímabil: 2023–2026.
Staða verkefnis
Verið er að vinna með þróunarsvæðum að því hvernig dagdvöl geti orðið hluti af samþættri heimaþjónustu á hverju svæði. Á tveimur til þremur svæðum mun samþætt heimaþjónusta verða rekin í samstarfi við dagdvöl. Að auki hefur verið unnið að mismunandi útfærslum á sveigjanlegum dagdvalarrýmum, og gerðir hafa verið tveir samningar fyrir árið 2025 um þessar útfærslur, ásamt því að þriðji samningurinn er í undirbúningi.
Að lokinni greiningu á því hvaða matstæki ætti að nota til að meta þarfir eldra fólks, hefur WHODAS verið valið sem viðeigandi tæki. Í ágúst 2024 heimsótti Gott að eldast teymið flestar af þeim 17 dagdvölum sem reknar eru á höfuðborgarsvæðinu, til að fá fram sjónarmið stjórnenda um mikilvæga þætti sem þarf að taka tillit til í áframhaldandi vinnu aðgerðanna. Einnig hafa verið heimsóttar dagdvalir á þeim stöðum sem taka þátt í þróunarverkefnum samþættingar um land allt.
Starfshópur var skipaður með erindisbréfi ráðherra í október 2024 til að vinna að þeim atriðum sem sett voru fram í aðgerðaáætlun. Hópurinn mun skila niðurstöðum sínum fyrir 1. mars 2025.
Komið vel á veg