A. Samþætting |
Lýsing á aðgerð
A.1 Þróunarverkefni um samþætta heimaþjónustu
Á árinu 2023 hefjist skilgreind þróunarverkefni á 4–6 svæðum á landinu þar sem félags- og heilbrigðisþjónusta sem veitt er eldra fólki í heimahúsi er samþætt, undir sameiginlegri mannafla- og fjármálastjórn. Samhliða þróunarverkefnum verði markvisst innleidd velferðartækni. Markmið aðgerðarinnar verði að eldra fólk fái markvissa og samfellda þjónustu heim samkvæmt faglegu mati.
Mælikvarðar:
- Það mörg svæði sæki um þátttöku að hægt verði að velja 4–6 þjónustusvæði sem hafi áhuga á að vinna skilgreind þróunarverkefni samþættingar til fjögurra ára.
- Við val á þátttakendum skal leitast eftir að fá reynslu af ólíkum leiðum hvað varðar ábyrgð á rekstri þjónustunnar sem og öðrum þjónustuþáttum sem möguleiki er á að samþætta betur við heimaþjónustu.
- Þróunarsvæðin fái aðstoð og stuðning við undirbúning samþættingar, gerð samninga, námskeiða fyrir starfsfólk og annað sem þörf er á.
- Samningar verði gerðir um samþætta heimaþjónustu á fjórum svæðum að lágmarki.
- Fyrir liggi niðurstöður úr þróunarverkefnum frá fjórum svæðum að lágmarki við lok tímabils.
Ábyrgð: Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið.
Tímabil: 2024–2027.
Staða verkefnis
Sumarið 2023 var auglýst eftir svæðum til að taka þátt í þróunarverkefnum um samþætta heimaþjónustu. Alls bárust 20 umsóknir og í september 2023 valdi valnefnd sex svæði, sem samanstanda af 22 sveitarfélögum og sex heilbrigðisstofnunum, til þátttöku. Þessi svæði munu þróa mismunandi leiðir til að samþætta þjónustu sína fyrir eldra fólk. Í október sama ár voru starfsmenn ráðnir til að styðja svæðin við undirbúning samþættingar, þ.m.t. gerð þjónustusamninga, verkferla og fræðsluskipulag. Verkefnið hófst formlega 1. janúar 2024. Til að auðvelda sveitarfélögum breytingar á verkefnum heimaþjónustu, voru unnar samræmdar reglur um stuðningsþjónustu, sem voru tilbúnar í september 2024 fyrir öll 22 þátttökusveitarfélögin. Alls hafa verið haldnir yfir 100 fundir, bæði staðfundir og fjarfundir, auk þess sem "Gott að eldast" teymið hefur heimsótt öll þátttökusvæðin. Einnig hafa verið haldnir vinnufundir með tengiliðum og stjórnendum félags- og heilbrigðisþjónustu, íbúafundir, starfsmannafundir og fundir með pólitískum fulltrúum eftir þörfum hvers svæðis. Haldinn var Haustdagur Gott að eldast, í september 2024 þar sem öll þátttökusvæðin komu saman og kynntu stöðu sína. Undirritaðir hafa verið tveir samningar og einn samningur bíður undirritunar í nóvember. Fjórir aðrir samningar eru vel á veg komnir og búist er við að gerðir verði 10-12 samningar. Á stjórnarráðsvefnum hefur verið opnað sérstakt svæði undir heitinu "Gott að eldast", þar sem hægt er að fylgjast með fréttum og nálgast gögn um verkefnið. Gerður var einnig samningur við KPMG til að framkvæma kostnaðar- og ábatagreiningu, með það að markmiði að fá nýja sýn á fjárhagsgögn ríkis og sveitarfélaga, ásamt samkeyrslu við lýðfræðileg gögn. Niðurstöður sýndu meðal annars að útsvarsgreiðslur eldra fólks (67 ára og eldri) til sveitarfélaga hafa fimmfaldast á síðustu 15 árum vegna hækkandi tekna. Greiningin fékk heitið "Virði en ekki byrgði".
Komið vel á veg