Flutningur dæmdra manna milli ríkja
Um flutning dæmdra manna og fullnustu refsinga milli Íslands og annarra landa gilda annars vegar lög nr. 69/1963 um fullnustu refsidóma, sem kveðnir hafa verið upp í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð, o.fl. og hins vegar lög um alþjóðlega samvinnu um fullnustu refsidóma nr. 56/1993 er varðar önnur ríki en Norðurlöndin.
Samstarf milli Norðurlandanna
Á Íslandi eru í gildi lög nr. 69/1963 um fullnustu refsidóma, sem kveðnir hafa verið upp í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð, o.fl. og efnislega samhljóða lög eru í gildi í þessum löndum varðandi samstarf á þessu sviði.
Samstarf milli Norðurlandanna byggist á því að ríkin viðurkenna dóma hvers annars og er samstarfinu ætlað að tryggja að refsidómar, óháð því hvort refsingin er í formi frelsissviptingar eða sektar, fylgi dómþola, flytji hann milli Norðurlandanna. Þá er heimilt að flytja fanga milli landa til áframhaldandi fullnustu á grundvelli laganna. Loks er hægt að flytja eftirlitsskyldu með reynslulausn, skilorðsdómum o.fl. milli landanna.
Þegar Íslendingur er dæmdur í fangelsi á Norðurlöndunum getur hann óskað eftir því að verða fluttur til Íslands til áframhaldandi afplánunar. Viðkomandi ríki getur einnig að eigin frumkvæði og óháð vilja fanga ákveðið að sækja um flutning fyrir hann.
Vilji fangi sækja um flutning til Íslands skal hann senda umsókn til þar til bærra yfirvalda í því landi þar sem hann situr í fangelsi. Mismunandi er eftir löndum hvert beina ber beiðni um flutning, þar sem sum ríkin hafa flutt umsýslu þessara mála frá dómsmálaráðuneytum til fangelsismálastofnana svo dæmi séu nefnd. Hægt er að nálgast upplýsingar um það í viðkomandi fangelsi. Ef ekki er ljóst hvert senda á beiðni um flutning skal senda hana til dómsmálaráðuneytis viðkomandi ríkis sem áframsendir beiðnina á réttan stað. Á Íslandi afgreiðir Fangelsismálastofnun ríkisins beiðnir skv. lögum nr. 69/1963 og hefur svo verið síðan 2014 er verkefnið fluttist úr innanríkisráðuneytinu. Verði erlend yfirvöld við beiðni um flutning senda þau beiðni til íslenskra stjórnvalda um að viðkomandi fangi verði fluttur.
Ef Fangelsismálastofnun ríkisins fellst á flutning þá fer flutningur fram í samvinnu við alþjóðadeild ríkislögreglustjóra. Fangi ber ekki kostnað vegna flutnings milli landa. Málsmeðferðartími vegna flutnings fanga til Íslands frá Norðurlöndum hefur hingað til verið 1–7 mánuðir frá því að beiðni berst Fangelsismálastofnun og þar til fangi er kominn í íslenskt fangelsi. Ljóst er að miðað við aðstæður í fangelsum ríkisins getur þessi tími orðið lengri.
Þegar fangi er fluttur til Íslands frá Norðurlöndunum gilda íslenskar reglur um fullnustu refsingarinnar t.d. reynslulausn, o.fl. Ísland hefur ekki heimild til að endurskoða refsinguna en hefur heimild til að veita náðun.
Íslenska ríkið hefur enn sem komið er ekki gert tvíhliða samning um fangaflutning milli landa.
Flutningur dæmdra manna milli annarra ríkja en Norðurlandanna
Samkvæmt lögum um alþjóðlega samvinnu um fullnustu refsidóma nr. 56/1993 má fullnægja ákvörðunum dómstóla um sektir, frjálsræðissviptingar, réttindasviptingar eða upptöku eigna o.fl. samkvæmt tvíhliða eða marghliða samningum, sem Ísland hefur gert við önnur ríki og með heimild í lögunum. Þá kemur fram í lögunum að þegar sérstakar ástæður mæla með því getur ráðuneytið ákveðið, þótt ekki sé í gildi samningur, að fullnægja hér á landi samkvæmt lögum þessum viðurlagaákvörðun um sektir, frjálsræðissviptingu, réttindasviptingu eða upptöku eigna sem íslenskur ríkisborgari eða maður búsettur hér á landi hefur hlotið samkvæmt dómi eða annarri ákvörðun dómstóls í öðru ríki.Með sama hætti er heimilt, þegar sérstakar ástæður mæla með því, að ákveða að fullnusta á viðurlagaákvörðun íslensks dómstóls um sektir, frjálsræðissviptingu, réttindasviptingu eða upptöku eigna, sem maður með ríkisborgararétt eða fasta búsetu í öðru ríki hefur hlotið hér á landi, verði falin stjórnvöldum í því ríki.
Ísland er aðili að samningi Evrópuráðsins um alþjóðlegt gildi refsidóma frá 28. maí 1970. Samningurinn er núorðið ekkert notaður við flutning dæmdra manna og yfirtöku á fullnustu refsinga enda ferlið þungt í vöfum.
Ísland er enn fremur aðili að samningi Evrópuráðsins um flutning dæmdra manna frá 21. mars 1983 ásamt viðauka við þann samning frá 18. desember frá 1997. Samningur þessi er notaður í dag við flutning fanga til og frá Íslandi til annarra landa en Norðurlandanna. Þó hafa Norðurlöndin stundum byggt flutning fanga á samningnum í þeim tilvikum er lög nr. 69/1963 ná ekki yfir það tilvik sem til umfjöllunar er.
Samningur Evrópuráðsins um flutning dæmdra manna
Ísland er aðili að samningi Evrópuráðsins um flutning dæmdra manna frá 1983, ásamt viðauka. Alls eru 64 ríki aðilar að samningnum, þar af eru 19 ríki sem ekki eiga aðild að Evrópuráðinu.
Evrópuráðssamningurinn kveður á um tilteknar grundvallarreglur en samningnum var ætlað að koma á samvinnu ríkja í þessum málaflokki og koma málunum í ákveðinn farveg. Upphaflegur samningur er frá 1983 en gerður var viðauki við hann árið 1997 svo hægt yrði m.a. að flytja fanga til síns heima án samþykkis hans. Alls hafa 35 ríki fullgilt viðaukann þar á meðal Ísland.
Hafi íslenskur ríkisborgari verið dæmdur í óskilorðsbundið fangelsi í landi sem er aðili að samningi Evrópuráðsins getur hann farið þess á leit við dómsmálaráðuneyti þess lands að hann verði fluttur til Íslands. Flest aðildarríki samningsins kynna erlendum föngum samninginn og mörg hver eru með stöðluð eyðublöð þar sem fangi getur lýst yfir vilja til þess að vera fluttur til síns heima.
Evrópuráðssamningurinn leggur ekki skyldur á aðildarríkin að samþykkja flutning heldur tryggir hann að beiðnir um flutning fanga fari í ákveðinn farveg og að grundvallarréttindi séu tryggð; að ákveðnar upplýsingar og skilyrði verði að liggja fyrir svo að af heimflutningi geti orðið. Þá er enn fremur heimilað, geri ríki þar sem dómur var kveðinn upp ekki athugasemdir við það, að ákvarða fanga refsingu á nýjan leik í því ríki þar sem hann mun afplána refsingu sína t.d. ef hinn erlendi dómur er bersýnilega í ósamræmi við dómaframkvæmd afplánunarríkisins. Einnig geta bæði ríkin veitt náðun einhliða.
Rétt er að benda á að íslenskur ríkisborgari sem dæmdur er til refsingar t.d. í Rússlandi (Rússland er aðili að Evrópuráðinu) á engan sjálfstæðan rétt á því að fá að afplána á Íslandi. Bæði ríkin geta neitað beiðni um flutning.
Ef íslensk stjórnvöld samþykkja flutning fanga til Íslands er Fangelsismálastofnun ríkisins falið, í samvinnu við alþjóðadeild ríkislögreglustjóra, að eiga frekari samskipti við erlend yfirvöld varðandi nánari tilhögun á flutningi, svo sem almenna skipulagningu flutnings og hvenær af flutningi geti orðið. Fangi ber engan kostnað vegna flutningsins. Málsmeðferðartími vegna flutnings fanga til Íslands frá löndum sem eru aðilar að Evrópuráðssamningnum hefur hingað til verið 3–14 mánuðir frá því beiðni berst ráðuneytinu og þar til fangi er kominn í íslenskt fangelsi. Ljóst er að miðað við aðstæður í fangelsum ríkisins þá getur þessi tími orðið lengri.
Dómsmálaráðuneytið tekur ákvörðun um flutning samkvæmt samningnum.
Listi yfir lönd sem eru aðilar að samningi Evrópuráðsins.
Sjá einnig:
Nefndir
Alþjóðlegir samningar
Fangelsismál og fullnusta refsinga
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.