Kærur til ráðuneytisins vegna beitingar agaviðurlaga og öryggisklefa í fangelsum
Ákvarðanir um agaviðurlög og vistun í öryggisklefa vegna brota á lögum um fullnustu refsinga nr. 15/2016 og reglum, sem settar eru á grundvelli þeirra, eru kæranlegar til dómsmálaráðuneytisins og skulu fangelsisyfirvöld skýra fanga frá því um leið og ákvörðun er birt. Þegar ákvörðun er kærð þá skulu gögn málsins þegar send ráðuneytinu. Vegna eðlis agaviðurlaga gilda sérstakar málshraðareglur um afgreiðslu þessara mála. Ráðuneytið skal taka ákvörðun innan fjögurra virkra daga frá því að kæran barst. Berist kæra utan afgreiðslutíma telst hún hafa borist ráðuneytinu við upphaf næsta virka dags.
Agaviðurlög
Forstöðumaður fangelsis getur beitt fanga agaviðurlögum vegna brota á lögum um fullnustu refsinga og reglum sem settar eru á grundvelli þeirra og kveða á um skyldur fanga enda komi fram að brot á þeim varði agaviðurlögum.
Agaviðurlög eru ákveðin í lögum um fullnustu refsinga og eru eftirfarandi:
- Skrifleg áminning.
- Svipting helmings þóknunar fyrir ástundun vinnu og náms um ákveðinn tíma.
- Svipting aukabúnaðar sem sérstakt leyfi þarf fyrir og takmörkun heimsókna, símtala og bréfaskipta um ákveðin tíma.
- Flutningur úr opnu fangelsi yfir í lokað fangelsi.
- Takmarkanir á útivist og aðstöðu til íþróttaiðkunar um ákveðin tíma.
- Einangrun í allt að 15 daga.
Einangrun eru þau agaviðurlög sem eru hvað ströngust. Einungis er heimilt að setja fanga í einangrun vegna eftirfarandi brota eða tilraun til brota:
- Stroks.
- Smygls í fangelsi, vörslu eða neyslu áfengis, ólöglegra lyfja eða fíkniefna og vörslu vopna eða annarra skaðlegra hluta.
- Ofbeldis eða hótunar um ofbeldi gagnvart öðrum föngum eða starfsmönnum fangelsis.
- Grófra skemmdarverka.
- Annarra grófra eða endurtekinna minni háttar brota.
Heimilt er að beita fleiri en einni tegund agaviðurlaga samtímis. Áður en forstöðumaður tekur ákvörðun um agaviðurlög skulu málsatvik rannsökuð og skal fanga gefinn kostur á að kynna sér fyrirliggjandi gögn og koma sjónarmiðum sínum um þau á framfæri. Ákvörðun um agaviðurlög skal rökstudd, bókuð og birt fanga í viðurvist vitnis.
Agaviðurlög er ekki refsing í skilningi laga og því gilda ekki sömu ströngu sönnunarkröfur og gilda í sakamálum.
Vistun í öryggisklefa
Heimilt er að vista fanga í öryggisklefa ef nauðsyn krefur til að koma í veg fyrir ofbeldi, hemja ofbeldisfullan mótþróa hans eða hindra að hann skaði sjálfan sig eða aðra. Forstöðumaður fangelsis tekur ákvörðun um vistun í öryggisklefa. Vistun í öryggisklefa og aðrar aðgerðir sem beitt er í tengslum við hana skulu aldrei standa lengur en samræmist tilgangi vistunar og beitingu annarra aðgerða en með öðrum aðgerðum er átt úrræðum svo sem beitingu belta, hanska og fót- og handreima svo sem heimilt er samkvæmt lögum um fullnustu refsinga.
Sjá einnig:
Lög og reglur
Nefndir
Stofnanir
Gagnlegir tenglar
Fullnusta refsinga
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.